23.10.1975
Sameinað þing: 7. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 161 í B-deild Alþingistíðinda. (128)

Stefnuræða forsætisráðherra og umræða um hana

Lárus Jónsson :

Herra forseti: Gott kvöld, góðir hlustendur. Hv. þm. Geir Gunnarsson, sem hér var að ljúka máli sínu, virðist vera mjög ólukkulegur yfir því fjárlagafrv. sem hæstv. ríkisstj. hefur lagt fyrir Alþ. Þessi hv. þm. var formaður fjvn. Alþ. þegar flokksbræður hans voru í ríkisstj., og hann ætti að vita betur, hvað í raun felst í þessu frv., en fram kom í hans ræðu. En fjárlög þrefölduðust í hans tíð sem formanns fjvn.

Í fyrsta sinn um langan aldur hefur ríkisstj. tekið þó ákvörðun að leita samþykkis Alþ. um að afnema sjálfvirka löggjöf og reglur í því skyni að færa niður ríkisútgjöld um tæplega 5 þús. millj. kr. frá því sem verið hefði með óbreyttum lögum og lækka þannig heildarskattálögur á almenning um sömu upphæð, tæplega 5 þús. millj. Þá felst í frv. ákvörðun ríkisstj: um niðurfellingu 12% vörugjalds og lækkun tolla sem létta mun að auki 4000 millj. kr. álögum af almenningi á næsta ári, þótt skylt sé að geta þess að á móti þeirri upphæð kemur nokkur lækkun á niðurgreiðslu landbúnaðarafurða sem mun muna heimilin um 1400–1450 millj kr. á næsta ári.

Við þær geigvænlegu aðstæður; sem nú ríkja í efnahagsmálum þjóðarinnar, er með þessu frv. stefnt að því að koma í veg fyrir óviðráðanlega sjálfvirka útþenslu ríkiskerfisins. Stefnt er að stórfelldri niðurfærslu álaga á almenning, auknu viðnámi gegn verðbólgu og meira jafnvægi í ríkisbúskapnum. Þetta er óumflýjanleg nauðsyn, eins og nú er ástatt í þjóðarbúskapnum.

Það gefur auga leið, að slík stórfelld niðurfærsla ríkisútgjalda mun kosta ýmsar fórnir. Dylgjum, m. a. frá hv: þm. Ragnari Arnalds, um að með þessum till. sé ráðist sérstaklega að öldruðum og öryrkjum, vísa ég til föðurhúsanna. Þetta mál kemur auðvitað síðar til kasta Alþ. og væri smekklegra af hv. þm. að sjá fyrst till. í þeim efnum, áður en hann fer að dylgja með slíkt.

Á hinn bóginn efast ég ekki um að mikið fjármagn rennur úr tryggingum til ýmissa sem ekki þurfa á því að halda og hægt er að nýta fjármagnið mun betur fyrir þá sem þess þurfa þrátt fyrir þá niðurfærslu sem stefnt er að í fjárlagafrv. Annars er það mikið hól fyrir hæstv. fjmrh. og ríkisstj. hvernig fjárlagafrv. fer í taugarnar á hv. stjórnarandstæðingum.

Hv. þm. Karvel Pálmason fór mikinn þegar hann talaði hér um byggðamál. Þessi hv. þm. gleymdi að geta þess að sú ríkisstj., sem hann og hans flokkur báru ábyrgð á, varði úr ríkissjóði til Byggðasj6ðs 153 millj. kr. á fjárl. 1974 þrátt fyrir það góðæri sem þá ríkti þegar þau fjárlög voru afgreidd. Nú er ætlunin að verja til Byggðasjóðs 1123 millj. kr. þrátt fyrir núverandi þrengingar.

Honum láðist að rifja upp hvernig viðskilnaður þessarar ríkisstj. hans var í raforkumálum landsbyggðarinnar og að sú ríkisstj. tók úr höndum sveitarfélaga margvísleg verkefni og þrengdi kost þeirra til tekjuöflunar undir forustu Hannibals Valdimarssonar, guðföður þessa hv. þm. hér á Alþ. Nú er stefnt að því að fá sveitarfélögunum meiri tekjustofna og verkefni. Hitt er svo annað mál, að í þessari þröngu stöðu, sem þjóðarbúið er nú í í efnahagsmálum, þá verða margar nauðsynlegar framkvæmdir úti um land að bíða betri tíma. Það skal játað í fullri hreinskilni að slíkt er óumflýjanlegt við núverandi aðstæður, og í því held ég að fólk muni hafa fullan skilning, miklu fremur en nú sé unnt að gera allt fyrir alla, eins og hv. þm. virtust vilja vera láta.

Margir stjórnarandstæðingar hafa rætt hér um kjaramálin og hv. þm. Ragnar Arnalds sérstaklega með talnablekkingum í því efni. Við málflutning hans og fleiri er einkum tvennt að athuga. Í fyrsta lagi fóru febrúarkjarasamningarnir 1974, sem flestir miða kaupmáttarrýrnunina við, langt fram úr getu atvinnuveganna og þjóðarbúsins, jafnvel við þau ótrúlega hagstæðu viðskiptakjör sem menn miðuðu þá við. Launþegar öðluðust því aldrei þennan kaupmátt í raun sem þó er miðað við. Hann var alla tíð falskur. Þetta viðurkenndi fyrrv. ríkisstj., sem formaður Alþ.b. studdi, með því að taka kaupgreiðsluvísítöluna úr sambandi með lögum og leggja fram frv. um víðtækar efnahagsráðstafanir í maí, aðeins tveimur mánuðum eftir kjarasamningana.

Í öðru lagi hafa viðskiptakjör þjóðarinnar versnað svo mjög síðan þessir kjarasamningar voru gerðir að slíkt hefur ekki gerst á jafnskömmum tíma frá því að þjóðin hlaut sjálfstæði. Þessi viðskiptakjararýrnun hefur svo gífurleg áhrif á kjör allrar þjóðarinnar og hvers og eins þjóðfélagsþegns að varlega áætlað hefði þjóðin haft 10 þús. millj. kr. meira til skipta á þessu ári eða tæplega 50 þús. kr. á hvert mannsbarn ef við byggðum við hliðstætt hlutfall á innflutningsverðlagi og verði útflutnings okkar og við gerðum í ársbyrjun 1974.

Slíkur talnaleikur hv. þm. Ragnars Arnalds og fleiri, sem byggir bæði á óraunhæfum og fölskum kaupmætti frá því í febr. 1974 og ekki tekur með í reikninginn að neinu marki þá óviðráðanlegu kjaraskerðingu sem þjóðin öll hefur orðið fyrir vegna þessarar stórfelldu viðskiptakjararýrnunar, er auðvitað út í hött og að engu hafandi.

Á þeim fáu mínútum, sem mér gefast í þessum umr., læt ég hjá líða að fara fleiri orðum um málflutning hv. stjórnarandstæðinga þótt ærin tilefni hafi gefist til.

Íslendingar. Mikið alvöruástand er nú í efnahagsmálum þjóðarinnar sem ógnar sjálfu fjárhagslegu sjálfstæði hennar. Yfir okkur hafa skollið á fyrra ári og yfirstandandi ári mestu og sneggstu utanaðkomandi efnahagserfiðleikar frá því að þjóðin öðlaðist sjálfstæði. Þessi viðskiptakjaraáföll, þ. e. a. s. stórhækkað verð á innfluttum nauðsynjum okkar í erlendri mynt, en lækkun á útflutningsafurðum okkar, komu í kjölfar mikillar eyðslu umfram getu á mestu góðærum í sögu þjóðarinnar. Við lifðum um efni fram í góðærinu og höfum fram til þessa neitað að laga okkur nægilega að hinum snöggu umskiptum til hins verra nú á örðugleikaárunum. Viðskiptahalli okkar við útlönd var gífurlegur og er enn þá of mikill. Við eigum engan gjaldeyrisvarasjóð upp á að hlaupa, eins og við áttum 1971, og óhóflegar lántökur erlendis til þess að leysa vandann í utanríkisviðskiptum okkar eru útilokaðar, enda augljóslega gálgafrestur þótt fáanlegar væru.

Þrátt fyrir þessa geigvænlegu utanaðkomandi erfiðleika, sem við er að etja, hefur margt áunnist í stjórn efnahagsmála og annarra framfaramála á því rúma ári sem núv. hæstv. ríkisstj. hefur setið að völdum. Þar má til nefna nokkur mikilvæg atriði. Íslensk fiskveiðilögsaga hefur verið færð út í 200 mílur. Tekist hefur að tryggja afkomu atvinnuveganna, afstýra allsherjarátökum á vinnumarkaði og halda uppi fullri atvinnu og þróttmiklum framkvæmdum hvaðanæva um landið, sérstaklega í orkumálum, sem ekki var vanþörf á, eins og ástand þeirra mála var orðið við stjórnarskiptin. Og verð ég að segja í því sambandi að orð hv. þm. Benedikts Gröndals, sem hann viðhafði hér áðan um Kröfluvirkjun, voru hálfnöturleg í garð norðlendinga, miðað við ástand sem þar er í raforkumálum.

En þótt ýmislegt hafi áunnist sígur enn, í hreinskilni sagt, ýmislegt á ógæfuhlið, sumt sem ekki verður við ráðið, en annað sem unnt væri við að ráða hér heima fyrir, ef allir legðust á eitt. Útflutningsatvinnuvegirnir berjast í bökkum vegna markaðsörðugleika og innlendra kostnaðarhækkana. Verðbólgan er enn þá geigvænleg þótt hægt hafi á henni síðustu mánuði. Gjaldeyrisstaðan er í hættu, ekki síst vegna mikillar tvísýnu í alþjóðlegum efnahagsmálum og þar með markaðsmálum okkar. Það er því ekki einungis alvarlegt ástand nú í efnahagsmálum okkar. Horfurnar eru því miður ekki slíkar að óvænt höpp muni væntanlega falla okkur í skaut á næstunni, þvert á móti.

En sé þessi mynd sönn sem ég hef dregið upp hér af ástandi og horfum efnahagsmálanna og hv. stjórnarandstæðingar dregið enn þá dekkri og skrumskældari litum, — sé hún sönn, sem ég hygg raunar að allir hugsandi íslendingar viti, þá er spurningin þessi: Gefur þetta alvarlega ástand efnahagsmálanna tilefni til þess að einstakir launþegahópar, alþm., sveitarstjórnarmenn, raunar allir íslenskir þjóðfélagsþegnar, geri ýtrustu auknar fjárhagskröfur til þjóðfélagsins? Eigum við þm. að krefjast meiri framkvæmda hver í sínu kjördæmi en nokkru sinni fyrr? Eiga launþegahópar að krefjast, jafnvel með ólögmætum hætti, hækkaðra launa í krónutölu? Eigum við enn einu sinni að krefjast meira í hlut hvers og eins en fyrir er til að skipta? Í sannleika sagt bjóst ég við að fáum blandaðist hugur um svarið við þessari spurningu að fenginni biturri reynslu. Þau alvarlegu tíðindi hafa hins vegar gerst að nokkrir starfshópar hafa einmitt nú sett fram auknar kröfur sínar með þeim hætti að hóta ýmist eða beinlínis brjóta í því skyni íslensk lög. Hér er auðvitað um afskaplega alvarlegt mál að ræða, ekki síður alvarlegt en sjálft efnahagsástandið. Ég ræði það ekki frekar að sinni, en varpa fram þeirri spurningu: Hvað vilja menn láta koma í staðinn fyrir lög og rétt á Íslandi, ef ekki er unnt að virða lög og rétt, með hvers konar valdi á að stjórna þessu landi?

Þegar svo alvarlega árar í efnahagsmálum sem nú er, er einungis um eina leið að ræða í stjórn þjóðarbúskaparins. Spyrna verður við fótum í eyðslu, leggja aukna kröfugerð á hilluna, stilla framkvæmdum, ríkisútgjöldum og skattheimtu á almenning í hóf, treysta gjaldeyrisstöðuna og draga úr verðbólgu, þannig að afkoma atvinnuveganna verði tryggð og þar með full atvinna í landinu. Að þessu stefnir hæstv. núv. ríkisstj„ m. a. með því fjárlagafrv. sem lagt var fram í upphafi þessa þings, og að þessu verður einnig stefnt með margvíslegri annarri löggjöf. Þessi stefna er sjálfsagt ekki að öllu leyti vinsæl, en hún er þjóðarnauðsyn eins og nú er ástatt, og ég er þess fullviss að þm. stjórnarfokkanna á Alþ. muni standa fast að baki ríkisstj. í því að koma fram þeirri lífsnauðsynlegu stefnu sem beinist að úrlausn vandans og leggur grunn að áframhandandi framförum í landinu. — Góða nótt.