23.10.1975
Sameinað þing: 7. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 165 í B-deild Alþingistíðinda. (129)

Stefnuræða forsætisráðherra og umræða um hana

Ólafur Ragnar Grímsson:

Herra forseti, góðir íslendingar. Síðustu áratugi hefur framfarasókn þjóðarinnar verði mótuð af þremur meginhugsjónum: hugsjóninni um stjórnarfarslegt og efnahagslegt sjálfstæði, hugsjóninni um alhliða eflingu byggðar í öllum landshlutum, hugsjóninni um jöfn kjör og afkomuöryggi. Þessar hugsjónir hafa verið drifkraftur alls hins besta sem við höfum áorkað, leiðarljós við uppbyggingu nútíma Íslands. Þúsundir manna hafa lagt stjórnmálastarfsemi lið í trausti þess að í samtíð og framtíð yrðu þessar hugsjónir að veruleika, þær fælu í sér fjöregg þjóðarinnar.

Þegar ríkisstj. Íslands gengur nú í annað sinn fram og kynnir boðskap sinn er eðlilegt að hver og einn hér í þingsölum og utan þeirra spyrji í alvöru og hreinskilni: Hvert er förinni heitið? Hvert stefnið þið, herrar þessa lands? Er ykkar starf í anda helgustu hugsjóna þjóðarinnar? Er fjöreggið öruggt í ykkar höndum?

Slíkar spurningar eru einkum brennandi á þessari stundu. Fyrsta ár ríkisstj. hefur jafnt og þétt alið ugg í brjósti allra landsmanna. Þjóðin er slegin ótta. Hún sér að stjórn, sem átti að vera sterk, stendur á brauðfótum. Hún horfir á menn, sem sögðust hafa stefnu; standa uppi með hendur tómar. Hún finnur að vandinn magnast dag frá degi. Námsmenn efna til fjöldaaðgerða. Sjómenn sigla flotanum í höfn. Þjóðin veit að verið er að fórna þeim hugsjónum sem áttu að móta sögu hennar. Hið unga íslenska lýðveldi hefur aldrei fyrr lifað slíka örlagatíma. Í stað stjórnarfarslegs og efnahagslegs sjálfstæðis blasir nú við þjóðargjaldþrot. Erlendar skuldir hlaðast upp. Íslenska ríkið getur ekki staðið við skuldbindingar sínar.

Forsrh. lauk boðskap sínum í kvöld með því að tilkynna orðrétt, að „efnahagslegt sjálfstæði okkar, bæði sem einstaklinga og þjóðarheildar, er í veði“. Slík voru hans lokaorð. Fyrr í ræðunni birti hann napran dóm staðreyndanna yfir eigin verkum: Verði viðskiptahallanum við útlönd ekki eytt á næstu þremur árum, þá getum við hvorki haldið áfram eðlilegri fjármögnun né staðið við greiðsluskuldbindingar út á við. Orðréttur hljóðaði sjálfsdómur ríkisstj.: „Jafnvel þótt þessu marki verði náð, yrðu erlendar skuldir íslendinga engu að síður komnar upp í 50% þjóðarframleiðslunnar í lok áratugsins og greiðslubyrðin yrði þá um 20% af heildargjaldeyristekjunum.“ Þetta eru þeirra eigin orð, ekki áróður stjórnarandstæðinga.

Þjóð, sem skuldar útlendingum helming þjóðarframleiðslunnar, hún hefur veðsett sjálfstæði sitt. Tilvera hennar og lífsafkoma er háð vilja erlendra bankastjóra. Sjálfstfl. og Framsfl. eru að bæta Íslandi í hóp þeirra ömurlegu lýðvelda sem hafa að vísu formlega sjálfsstjórn, en í reynd lifa á erlendum lánardrottnum eða mútum frá stórveldum.

Gjaldeyrisforði íslendinga er á þessu ári aðeins lánsfé, eins og forsrh. viðurkenndi í kvöld. Trygging okkar fyrir skakkaföllum eru útlendir víxlar. Svo illa er nú komið fyrir hinu unga lýðveldi.

Staða þjóðarinnar gagnvart útlöndum endurspeglar greiðsluþrot ríkisins. Allir sjóðir eru að tæmast, við erum komnir í botn, sagði aðalmálgagn stjórnarinnar sl. sunnudag. Sjóðir atvinnuveganna, sjávarútvegs, iðnaðar og landbúnaðar, eru tómir. Ríkissjóður skuldar Seðlabankanum 8 milljarða. Hundruð opinberra starfsmanna fá ekki laun sín greidd á réttum tíma vegna greiðsluþrots ríkisstofnana. Jafnvel sjúkrahúsin í landinu urðu að taka lán til að geta haldið sér gangandi einn mánuðinn enn. Íslenska ríkið er ekki aðeins gjaldþrota út á við, það er einnig gjaldþrota gagnvart eigin þegnum.

Þannig hafa þessir herrar á skömmum tíma leikið grundvallarhugsjónina um sjálfstjórn og efnahagslegt sjálfstæði. En þeir hafa einnig kastað hinum meginhugsjónunum fyrir róða, bæði hugsjóninni um eflingu hinna dreifðu byggða og hugsjóninni um bætt kjör alþýðunnar. Og meðan fjármagn til hafna, skóla, heilsugæslustöðva, vega og annarra framkvæmda í öllum héruðum Austurlands, Norðurlands, Vestfjarða og fleiri landshluta er ýmist skorið niður eða að engu gert, er byrjað að framkvæma fyrir a. m. k. 20 þús. millj. á suðvesturhorni landsins: herframkvæmdir, járnblendiverksmiðja og stórvirkjanir. Hin svokallaða byggðastefna ríkisstj. er einhver ósvífnasta blekking síðari ára, enda er svo komið að hinir hreinskilnari þm. ríkisstj. neita að taka þátt í þessum skollaleik.

Sverrir Hermannsson, hv. þm. Sjálfstfl. og annar stjórnandi Framkvæmdastofnunarinnar, lýsti því yfir í Morgunblaðinu s. l. sunnudag að fé Byggðasjóðs, þessir silfurpeningar, sem forkólfar Framsfl. buðu kjósendum í stað hinna sviknu kosningayfirlýsinga, væru — og þetta eru óbreytt orð þm., með leyfi hæstv. forseta: „eins og krækiber í helvíti ef miðað er við einokun Suðvesturlandsins á stórvirkjunum og stóriðju.“ Og hv. þm. bætir við að þessi framkvæmdastefna ríkisstj. sé — og aftur orðrétt, með leyfi hæstv. forseta: „mesta byggðaröskun af mannavöldum sem þekkst hefur hér á landi, bæði fyrr og síðar.“ Já, bragð er að þegar kempan, hv. 3. þm. Austurl., Sverrir Hermannsson, getur ekki orða bundist: „mesta byggðaröskun af mannavöldum.“ Og þessi þm. sviptir einnig silkihjúpnum af hinum áferðarfallegu yfirlýsingum hæstv. orkumrh. Gunnars Thoroddsens. Sverrir Hermannsson tilkynnir austfirðingum og norðlendingum í Morgunblaðinu s. l. sunnudag að hvorki Bessastaðaá né Blanda verði virkjaðar á næstu árum, allar rannsóknir og yfirlýsingar um þessar virkjanir séu bara sýndarmennska sem höfð sé í frammi, eins og hann segir, til að — og aftur orðrétt, með leyfi hæstv. forseta: „geta haldið áfram í friði að byggja stórt á suðvesturhorninu:

Þegar helsti sérfræðingur og byggðamálastarfsmaður stjórnarinnar hefur kveðið upp slíkan afdráttarlausan dauðadóm yfir byggðastefnublekkingum þessara herra þarf ekki frekari vitna við. Hugsjónin um eflingu hinna dreifðu byggða er í molum.

Um kjör alþýðu manna þarf ekki að fjölyrða.

Þessi ríkisstj. hefur gert þúsundir heimila nær bjargþrota. Hún hefur fært marga milljarða frá hinum almenna launamanni til verslunarforkólfanna. Heildsala og kaupmennska er eini atvinnuvegurinn sem hefur blómstrað í tíð þessarar ríkisstj. Ríkisstj. hefur vissulega séð um sína, á meðan sjómenn, verkamenn, kennarar og hundruð annarra láglaunahópa hafa verið krafðir um æ stærri fórnir. Og í kvöld boðaði hæstv. forsrh. að kaupmáttur heimilanna mundi á þessu ári enn halda áfram að lækka um a. m. k. 16%. En verslunin, heildsalar og kaupmenn munu hins vegar halda áfram að græða. Það var ekki orð í stefnuræðunni um þeirra fórnir.

Góðir íslendingar. Núv. ríkisstj. hefur ekki aðeins magnað verðbólgubálið til muna. Hún hefur einnig kastað fyrir róða þeim hugsjónum sem móta áttu Ísland samtímans og framtíðarinnar. Sjálfstæði Íslands, byggðin í landinu, velferð þegnanna grundvallast hins vegar á því að þessar hugsjónir verði á ný leiðarljós. Hér bíður flokka verkalýðs og jafnaðarstefnu því mikið verk. Það er söguleg nauðsyn að íslenskir jafnaðarmenn taki höndum saman og efli til valda samhenta sveit sem nýtur stuðnings verkalýðshreyfingar og annarra launþegasamtaka, félagssinnaðri bænda, róttækra samvinnumanna og allra þjóðhollra afla. Sundrung fortíðarinnar og syndir feðranna mega ekki standa í vegi fyrir slíkri samfylkingu. Heill íslensku þjóðarinnar, hugsjónir sósíalisma og þjóðfrelsis knýja forustumenn og fylgjendur allra þessara flokka, bæði Alþ.bl., Alþfl., SF og annarra róttækra baráttuafla, til að taka nú höndum saman. Það er ekki nóg, íslenskir vinstri menn, að gagnrýna þessa ríkisstj., við verðum líka að sýna þjóðinni varanlega samstöðu í okkar röðum. Við höfum nógu lengi skemmt íhaldi þessa lands með því að ganga sundraðir til baráttu.

Þessi vetur kann að verða örlagaríkur fyrir íslenska vinstri hreyfingu. Við verðum að sannfæra þjóðina með okkar eigin samstöðu að við getum leitt hana á nýja braut. Takist slíkt mun hinn þjóðhollari hluti íslenskrar borgarastéttar, útgerðarmenn og iðnrekendur, sem nú þegar sjá hvernig íslenskum atvinnuvegum er fórnað fyrir hagsmuni heildsala og erlendra stórfyrirtækja, skilja það, að til lengdar er þjóðfrelsisstefna vinstri hreyfingarinnar forsenda fyrir efnahagslegu sjálfstæði þjóðarinnar. Á síðari hluta 20. aldar, þegar Swiss Aluminium, Union Carbide, Johns Manville og Bandaríkjaher eru orðnir helstu atvinnurekendur Íslands og fleiri slíkir eiga að dómi ríkisstj. að sigla í kjölfarið, þá verður sjálfstæðishreyfing íslendinga að grundvallast á baráttukrafti flokka jafnaðarstefnu og þjóðfrelsishugsjóna. Því heiti ég á alla íslenska vinstri menn og þjóðholla borgara, hvar í flokki sem þið standið, að taka höndum saman og verja efnahagslegt sjálfstæði íslensku þjóðarinnar byggðina í landinu og kjör alþýðunnar. Við höfum verk að vinna. — Góða nótt.