27.01.1976
Sameinað þing: 40. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 1610 í B-deild Alþingistíðinda. (1327)

Umræður utan dagskrár

Gils Guðmundsson:

Herra forseti. Enda þótt ég viti að hugir hv. alþm. og raunar landsmanna allra séu um þessar mundir mjög bundnir við landhelgismálið, þá er það ekki það stóra mál sem ég ætlaði að gera hér að umtalsefni utan dagskrár, heldur annað mál, annars eðlis, en stórt mál engu að síður.

Síðustu daga hafa hér orðið nokkur blaðaskrif um það, hvort verið geti að bandaríska herliðið á Keflavíkurflugvelli hafi kjarnorkuvopn einhverrar tegundar í fórum sínum. Alloft á undanförnum árum og áratugum hafa bæði hjá mér og mörgum öðrum vaknað þær spurningar hvort svo geti verið. Íslenskir ráðamenn hafa að vísu fullyrt við ýmis tækifæri að engin slík ógnarvopn séu geymd hér. Ég hygg að þeir hafi sjálfir trúað þessu og trúi því sennilega enn að slíku sé ekki til að dreifa hér. En getur það gengið öllu lengur að við íslendingar lifum í þessu efni í trú, en ekki í vissu? Er ekki óhjákvæmilegt að ganga algjörlega úr skugga um hvort nokkur fótur getur verið fyrir margítrekuðum fullyrðingum erlendra aðila um að á Keflavíkurflugvelli séu geymd kjarnorkuvopn?

Ég vil nú í stuttu máli rekja það sem nýlega hefur komið fram í sambandi við þetta mál og gerir það óhjákvæmilegt að mínum dómi að spurt sé og krafist skýrra svara við ýmsum spurningum, svo sem þessum: Hvaða sannanir hafa íslenskir ráðamenn fyrir því, að hér séu ekki geymd kjarnorkuvopn? Hverjir kanna það, hvernig er af Íslands hálfu fylgst með nýbyggingum og breytingum á Keflavíkurflugvelli? Og í framhaldi af þessu: Séu slíkar algjörlega öruggar sannanir um kjarnorkulausa herstöð ekki fyrir hendi, hvaða ráðstafanir hafa þá verið gerðar eða eru í bígerð af hálfu hæstv. ríkisstj. til þess að geta á hverjum tíma vitað hið sanna og fullyrt um málið á grundvelli — ef ekki vissu, þá a. m. h. einhverrar vitneskju, en ekki trúar. En 14. janúar s. l. birti Þjóðviljinn grein úr bandarísku tímariti, Bulletin of the Atomie Scientists, eftir Barry Schneider. Höfundurinn er sagður starfa við stofnun sem heitir Upplýsingamiðstöð varnarmála í Washington. Á tveimur stöðum í þessari grein er fullyrt að bandarísk kjarnorkuvopn séu geymd á Íslandi. Höfundur greinar þessarar er fyrst og fremst að gagnrýna bandaríkjastjórn fyrir að dreifa kjarnorkuvopnum um of og gæta þeirra illa og af heldur lítilli fyrirhyggju. Hann bendir að því er virðist með mjög glöggum rökum á þá gífurlegu eyðingarhættu sem flutningur og varðveisla kjarnorkuvopna hefur í för með sér fyrir löndin þar sem þau eru geymd ef flogið er með þau til og frá stöðum. Í sambandi við þetta kemst höfundur þessarar greinar svo að orði, með leyfi hæstv. forseta:

„Dreifing 30000 bandarískra kjarnorkuvopna um heimshöfin, tugi hafna, mörg lönd í Evrópu og Asíu og Bandaríkin sjálf veldur slíkri slysahættu að ekki eru dæmi til annarrar eins.“

Þessi grein bandaríkjamannsins vakti að vonum allmikla athygli þegar hún birtist hér í íslenskri þýðingu. Blöð tóku að spyrja. Yfirmaður herliðsins hér og sendiherra Bandaríkjanna svöruðu báðir og á mjög svipaða lund, þó að yfirmaður herliðsins hefði það ákveðnara, og svarið var að bandaríkjamenn segðu aldrei neitt um kjarnorkuvopn sín og hvar þeim væri búinn staður. Við slíku svari, þótt mörgum kunni að finnast það heldur kaldranalegt, mátti líklega búast úr þessari átt. En hér er raunverulega verið að segja að það komi íslendingum ekkert við hvort hér séu geymd kjarnorkuvopn eða ekkí.

Ég vil leyfa mér að spyrja: Hvað skyldu þær u. þ. b. 130 þús. manna, sem búa hérna við Faxaflóa, segja um þessa kenningu? Er þeim alveg sama? Varla finnst mönnum það notaleg tilhugsun að með slíkum og þvílíkum svörum er í rauninni verið að benda á Keflavíkurflugvöll, það er verið að auglýsa hann sem sjálfgefið skotmark í styrjöld. Sú vitneskja ein, að um kjarnorkuvopn geti verið að ræða á þessum flugvelli eða í nágrenni herstöðvarinnar, býður háskanum heim ef til hinna mestu ótíðinda kynni að draga. — Ég læt útrætt um viðbrögð bandaríkjamanna. Að líkindum voru þau aðeins þau sem við mátti búast.

Ummæli íslenskra ráðamanna, þau sem þegar eru komin fram, eru líka nokkuð athyglisverð og sýna þó eitt öllu öðru fremur. Þau sýna hvílík blessuð börn, hvílíkir blessaðir einfeldningar við erum, íslendingar, líklega allir með tölu, ráðh. og embættismenn síst undanskildir, þegar um nútíma vopnabúnað og herstöðvarekstur er að ræða. Ég kem ögn nánar að þessu bráðum.

Þær upplýsingar, sem Þjóðviljinn hefur birtum hugsanleg kjarnorkuvopn á Íslandi og í flugvélum sem lenda á sama flugvellinum og allt íslenska millilandaflugið notar, hafa orðið til þess að önnur blöð eru tekin að skrifa um þetta mál. Einkum hafa birst í Dagblaðinu bæði s. l. föstudag og laugardag greinar og ákveðnar upplýsingar og viðtöl sem ég vil leyfa mér að vitna hér til lítillega.

Á föstudaginn birtist í Dagblaðinu athyglisvert viðtal við Barry Schneider, talsmann Center for Defenee Information í Washington, höfund greinarinnar sem Þjóðviljinn birti og ég hef áður vitnað til. Blaðið hefur það eftir Schneider að Lockhead Orion vélar bandaríska flotans á Keflavíkurflugvelli séu að öllum líkindum búnar djúpsprengjum með kjarnaoddi. Vélar þessar, sem í daglegu tali eru nefndar P-3, fljúga reglulegt könnunarflug frá Íslandi. Að því er varðar heimildir Barry Schneiders fyrir því, að kjarnorkuvopn muni geymd í herstöð bandaríkjamanna á Íslandi, hefur blaðamaður Dagblaðsins þetta eftir Schneider, með leyfi hæstv. forseta:

,,Upplýsingar mínar eru byggðar á viðtölum við þingmenn á bandaríska þinginu sem aðgang hafa að leyniskjölum um þessi mál. Ég vann að gerð þessarar greinar í 6 mánuði á árinu 1973, mg viðmælendur mínir höfðuðu til skjala er voru ýmist eins eða tveggja ára gömul. Þegar ég var búinu að gera kort yfir þá staði í heiminum, er ég taldi líklega geymslustaði, sýndi ég mönnum hér í Washington, sem ég veit að vita hvar kjarnorkuvopn okkar eru geymd, kortið, og enginn þeirra hreyfði mótmælum við Íslandi.“

Um fyrstu viðbrögð íslenskra ráðamanna við þessum blaðaskrifum getur að lesa nokkuð fróðlegar upplýsingar. Þessar upplýsingar koma einkum fram í stuttum viðtölum Dagblaðsins við fáeina ráðamenn bæði á föstudag og laugardag s. l.

Páll Ásgeir Tryggvason deildarstjóri svarar blaðamanni frá Dagblaðinu á þessa leið m. a.: „Ég hef takmarkaða möguleika á að kanna það hvort hér séu kjarnorkuvopn,“ sagði Páll Ásgeir Tryggvason deildarstjóri varnarmáladeildar utanrrn. í viðtali við Dagblaðið. „Ég hef gengið þarna um allt svæðið og mér hefur verið sýnt allt saman, en þarna er ekkert nema venjulegur vopnabúnaður sem venjulegur er í herstöðvum af þessari stærð.“

Hæstv. dómsmrh. Ólafur Jóhannesson segir í sama blaði daginn eftir, er hann var spurður um álit sitt á þeim rökstuðningi sem færður hafði verið fyrir möguleikum á því hvort hér væru kjarnorkuvopn, eins og greint var frá í blaðinu daginn áður: „Ég er nú ekki búinn að kynna mér þetta og get því ekki sagt neitt um málið. En ef svo er verður það athugað vandlega.“

Þórarinn Þórarinsson, formaður utanrmn., hv. þm., hefur þetta að segja: „Ég verð að segja eins og er, að þessar fréttir koma mér verulega á óvart,“ sagði Þórarinn Þórarinsson, formaður utanrmn., um fréttir af kjarnorkuvopnum á Íslandi. „Ég hef alltaf staðið í þeirri meiningu, að hér væru engin slík vopn, og mun leggja það til við n. og utanrrn. að aflað verði nákvæmra upplýsinga um málið,“ sagði Þórarinn.

Ég ætla ekki á þessari stundu, að leggja mikið út af þessum ummælum. Þau tala sínu ákveðna máli sjálf.

Dagblaðið á föstudag birtir enn næsta athyglisverðar upplýsingar og eru þær um skotfærahvelfingar á Keflavíkurflugvelli. Þar segir, með leyfi hæstv. forseta:

„Á síðasta áratug voru byggðar tvær vopnabirgðahvelfingar á athafnasvæði hersins í Keflavík, og eru þær í hrauninu suðvestur af Patterson-flugvelli sem bretar byggðu á sínum tíma. Á Patterson-flugvelli hefur lengi verið vopnabúr hersins og virðist vera þar enn, ef dæma má af öryggisgæslu þar. Því virðast nýju hvelfingarnar ekki hafa leyst það af hólmi.

Samkvæmt áreiðanlegum heimildum, — ekki er getið um hverjar þær eru — eru hvelfingarnar nýju báðar mjög rammbyggðar og a. m. k. önnur fullnægir öryggisreglum varðandi geymslu kjarnorkuvopna. Þá er átt við þær öryggisreglur sem settar eru svo nágrenninu stafi ekki hætta af ef eitthvað fer úrskeiðis í geymslunum,“ segir þar.

„Athyglisvert er að hvelfingar þessar voru byggðar á sama tíma og kafbátaeftirlitsflugið frá Íslandi var stóreflt, en eftirlitsflugvélarnar eru byggðar til þess að geta m. a. borið kjarnorkuvopn, einkum til að granda kafbátum.“

S. l. laugardag birti loks Dagblaðið frétt á forsíðu þar sem mjög áberandi er slegið upp því sem þar segir:

„Tvö erlend tímarit um vopnabúnaðinn á Keflavíkurflugvelli: Fullyrða að þar séu staðbundin kjarnorkuvopn.“ Í þessari frásögn blaðsins frá því á laugardag kemur fram að það kveðst hafa undir höndum tvö erlend rit, en í báðum þessum ritum er fullyrt að á Íslandi séu staðbundin kjarnorkuvopn. Þessi rit eru gefin út með aðild eða á vegum frænda okkar norðmanna og svía og ætti því að vera tiltölulega auðvelt að fá upplýsingar um heimildir fyrir þessum fullyrðingum og hvað að baki þeirra er. Annað ritið, sem til er vitnað, er gefið út í samvinnu við Universitets-forlagið í Osló, en það er virt útgáfufyrirtæki sem hefur getið sér góðan orðstír á alþjóðavettvangi. Hitt ritið er gefið út, að því er blaðið segir, af sænsku vísindaakademíunni, — ég er nú ekki viss um að hér sé um rétta þýðingu að ræða og virðist öllu frekar að hér sé um að ræða rannsóknastofnun, þá líklega í tengslum við Stokkhólmsháskóla. En í þetta rit skrifar maður, að því er manni skilst forstöðumaður þessarar stofnunar, Frank Barnaby að nafni, og fullyrðir þar m. a. að kjarnorkuvopn séu geymd á Íslandi. Hann virðist m. a. sækja upplýsingar sínar í bók sem nefnist: Vopnabúnaður án eftirlits, eða eitthvað í þá áttina, og er gefin út af hinu virðulega bókaforlagi Harvard-háskóla í Bandaríkjunum. Fleiri heimildir telur hann sig hafa fyrir þessu.

Í tilefni af þeim blaðaskrifum, sem ég hef nú rakið stuttlega, og þeim alvarlegu staðhæfingum, sem þar eru settar fram um kjarnorkuvopn á Íslandi, leyfi ég mér að beina nokkrum spurningum til hæstv. utanrrh. Ég lét hann vita um það í gær að ég mundi spyrja um þetta, og það varð að samkomulagi okkar í milli að það gerðist í dag, en ekki í gær. Ég veit að hæstv. ráðh. hefur verið sjúkur um skeið og er fyrst nú að koma til starfa á ný, og ég tel sjálfsagt að taka tillit til þess, þegar svör hans eru metin, að hann hefur ekki haft mikla aðstöðu til að kanna þessi mál nú. Hins vegar tel ég að hann hljóti að vita eitt og annað um þessi mál þar sem hann hefur verið utanrrh. okkar í allmörg ár. Með hliðsjón af alvöru þessa máls hef ég ekki talið rétt að bíða öllu lengur með að hreyfa því og æskja þeirra upplýsinga sem hæstv. utanrrh. kann að geta veitt nú á þessari stundu. Spurningar mínar eru þessar:

Í fyrsta lagi: Er það ekki tvímælalaust án vilja og vitundar íslenskra stjórnvalda ef kjarnorkuvopn einhverrar tegundar kunna að vera geymd á Keflavíkurflugvelli eða í hernaðarflugvélum sem nota Keflavíkurflugvöll?

Í öðru lagi spyr ég: Með hverjum hætti hafa íslensk stjórnvöld einkum leitast við að fylgjast með því, hvort um slík vopn getur verið að ræða hér á Keflavíkurflugvelli?

Í þriðja lagi: Hyggst hæstv. utanrrh. eða hæstv. ríkisstj. gera einhverjar ráðstafanir í tilefni af blaðaskrifum þeim sem átt hafa sér stað undanfarið um hugsanlega geymslu kjarnorkuvopna á íslenskri grund?

Og í fjórða lagi spyr ég: Sé svar við þriðju spurningunni játandi, hvaða ráðstafanir eru það sem hæstv. ráðh. hefur þá helst í huga?

Ég vil svo að lokum taka það skýrt og greinilega fram og leggja ríka áherslu á eftirfarandi.

Enda þótt ég að gefnu tilefni spyrji um vitneskju íslenskra ráðamanna, upplýsingar og eftirlit, þá er ég eindregið þeirrar skoðunar að ekki sé til nema ein leið — aðeins ein leið — til að koma fullkomlega í veg fyrir þá tvöföldu hættu sem í því er fólgin annars vegar að hér séu geymd kjarnorkuvopn, hins vegar að svo sé almennt litið á í heiminum að þau kunni að vera eða verða geymd hér á landi, og þessi eina leið er í því fólgin að við losum okkur við her og herstöðvar úr landi okkar. Hér er um slíka meinsemd að ræða að þar dugar ekkert annað en að nema hana á brott. Um þetta stóra mál vil ég fúslega ræða við hæstv. utanrrh. við annað tækifæri, en nú æski ég fyrst og fremst að hann gefi sem skýrust svör við þeim spurningum sem ég hef leyft mér að gefnu tilefni að beina til hæstv. ráðh.