27.01.1976
Sameinað þing: 40. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 1621 í B-deild Alþingistíðinda. (1332)

79. mál, fisksölusamstarf við belgíumenn

Fyrirspyrjandi (Oddur Ólafsson):

Herra forseti. Ég hef á þskj. 84 leyft mér að bera fram svo hljóðandi fsp. til hæstv. viðskrh.:

„1. Hvað líður framkvæmd á þál., sem samþ. var á síðasta Alþ., um fisksölusamstarf við belgíumenn?

2. Eru söluerfiðleikar á þeim fisktegundum, sem seljanlegar munu í Mið-Evrópu, er bókun 6 kemur til framkvæmda?

3. Telur rn. ástæðu til þess að hraða athugun þeirri, er þál. gerir ráð fyrir, nú þegar hillir undir hagstæðari viðskiptakjör við Mið-Evrópu?“

Á síðasta þingi flutti ég till. til þál. um fisk-. sölusamstarf við belga og þessi till. var samþ. á hv. Alþ. 16. maí s. l. Efni ályktunarinnar var það að fela ríkisstj. athugun á því, hvort hagkvæmt væri að leita samstarfs við belga um þessi atriði: Í fyrsta lagi um bætta aðstöðu fyrir löndun og geymslu á íslenskum fiski í Ostende. Í öðru lagi um myndun fyrirtækis er hefði það verkefni að sjá um sölu og dreifingu íslensks fisks í Mið-Evrópu. Í þriðja lagi um möguleika á flugflutningi á fiski milli Keflavíkur og Ostende með dreifingu þaðan um Mið-Evrópu í huga. Og í fjórða lagi um hugsanlega lækkun sölu- og löndunarkostnaðar vegna aukinna umsvifa.

Þegar ég mælti fyrir till. í hv. Ed., þá sagði ég með leyfi forseta:

Ég hef valið Belgíu sem fyrsta athugunarsvæði fyrir höfuðstöðvar Mið-Evrópu til fiskdreifingar af neðangreindum ástæðum:

Í fyrsta lagi: Ostende með Zeebrügge sem hafnarborg var eitt sinn nefnd hliðið að Evrópu. Þaðan liggja vegir til allra átta, og það gefur nokkra hugmynd um heppilega legu Belgíu að verulegum hluta innflutnings okkar frá Vestur-Þýskalandi og öðrum Mið-Evrópuríkjum er skipað um borð í höfnum Niðurlanda. Í Ostende er gamall og þekktur fiskmarkaður, sem var endurbyggður eftir stríð.

Í öðru lagi eru belgar allmikil fiskneysluþjóð, og ekki hefur heyrst að þeir hafi hug á því að stórauka og umbæta fiskiskipaflota sinn eins og sumar aðrar viðskiptaþjóðir okker hafa verið að gera undanfarið.

Í þriðja lagi urðu belgar fyrstir til að semja við okkur eftir útfærsluna í 50 mílur og þannig að viðurkenna í verki aðgerðir okkar í þeim efnum.

Í grg. með þáltill. gat ég þess, að þótt ég tilnefni Belgíu sem fyrsta svæði til athugunar sem okkar miðstöð fyrir Mið-Evrópu, þá væri að sjálfsögðu rétt að athuga fleiri lönd og taka það sem hentugast þætti að rannsókn lokinni. En það er skoðun mín að við höfum vanrækt á undanförnum árum athugun á Evrópumarkaðinum.

Í sumar var ég kvaddur upp í rn. á fund, sem fjallaði um þessa tillögu. Þar voru mættir fulltrúar fiskseljanda þessa lands, og það leyndi sér ekki að þeir, sem gert höfðu tilraunir með flugflutninga á fiski til Evrópulanda, voru þeir einu sem höfðu einhvern áhuga á þessu máli. Hins vegar höfðu þeir, sem best þekktu til okkar fisksölumála og sjá um söluna á nær öllum okkar fiski, lítinn áhuga og töldu ekki þörf á breytingum frá því sem nú er.

Að ég tek þetta málefni upp nú byggist fyrst og fremst á því, að nú virðist aftur vera að þrengjast um markað fyrir þann fisk okkar sem einna best selst í Mið-Evrópu, og enn fremur, að nú er e. t. v. von um að innan nokkurra mánaða breytist okkar tollakjör á þessum markaði. Þess vegna hef ég leyft mér að spyrja hæstv. viðskrh. hvort hann telji ástæðu til að gera nokkuð frekar í þessu máli nú, þegar von er um að við förum að geta aukið sölu okkar á Evrópumarkaði.