27.01.1976
Sameinað þing: 40. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 1624 í B-deild Alþingistíðinda. (1334)

79. mál, fisksölusamstarf við belgíumenn

Fyrirspyrjandi (Oddur Ólafsson) :

Herra forseti. Ég þakka hæstv. viðskrh. fyrir mjög greinargóð svör. Mér þykir vænt um að nokkuð hefur verið athugað hvort hægt væri að vinna að þessum málum í anda þál. Ein ástæðan fyrir því, að ég tek þetta mál upp núna, er sú, að á þeim fundi, sem ég var á í rn. kom greinilega fram að þeir, sem vinna að sölumálum okkar, töldu að engin ástæða væri til að óttast um góðar söluhorfur á ufsa og karfa, en örfáum vikum seinna kom í ljós að einmitt voru allmiklir söluörðugleikar og vaxandi á þessum fisktegundum. Og ég verð að segja, að mér finnst við ekki vera nógu vakandi gagnvart Evrópumarkaðinum og það sé full ástæða til þess að halda áfram að rannsaka á hvern hátt við getum hagnýtt okkur þennan geysistóra markað þegar lausn fæst á okkar tollavandamálum. Ég heyrði það á hæstv. ráðh., að augu þeirra eru opin og þeir eru vakandi fyrir því að þarna þarf umbóta við, og endurtek þakkir mínar fyrir svörin.