02.02.1976
Efri deild: 49. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 1641 í B-deild Alþingistíðinda. (1370)

132. mál, dýralæknar

Flm. (Steingrímur Hermannsson):

Herra forseti. Á þskj. 289 flyt ég frv. til l. um breyt. á l. nr. 31 5. maí 1970, um dýralækna. Breytingin er í því fólgin að skipta því umdæmi, sem nú nær yfir Strandasýslu og Vestur-Húnavatnssýslu, í tvö umdæmi, þ. e. a. s. Strandaumdæmi og Vestur-Húnaþingsumdæmi.

Í grg. geri ég nokkra grein fyrir því, að þessu umdæmi, eins og það er, er ákaflega erfitt að þjóna. Dýralæknir situr nú á Hvammstanga, en þaðan eru mjög miklar vegalengdir á ýmsa staði Strandasýslu, allt upp í 253 km í Árnes í Árneshreppi, auk þess er þessi leið oft mjög torfarin.

Þetta mál er flutt að ósk heimamanna og hafa þeir haft um það samband við yfirdýralækni sem hefur lagt til að þessi breyting yrði gerð. Að sjálfsögðu mun hv. landbn., ef frv. verður til hennar vísað, kanna það mál nánar. Að sjálfsögðu er ekki heldur endilega víst að tveir dýralæknar sitji að staðaldri þessi tvö umdæmi þó að þessu verði skipt. Í fyrsta lagi er ekki öruggt að til þess fáist dýralæknir, og vel má vera að á vissum tíma árs sé unnt að sinna þessum tveimur umdæmum saman. Með því að skipta þessu er yfirdýralækni þó gert kleift að setja dýralækni í hvort umdæmið fyrir sig og leysa þannig úr því vandræðaástandi sem nú er, jafnvel þótt svo sé ekki nema einhvern hluta af árinu. En það opnar sem sagt þann möguleika og það tel ég mjög mikilvægt.

Ég þarf ekki að hafa um þetta langa framsögu. Ég held að málið liggi mjög ljóst fyrir og læt þetta nægja. Að lokinni þessari umr. legg ég til að málinu verði vísað til 2. umr. og hv. landbn.