02.02.1976
Neðri deild: 49. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 1652 í B-deild Alþingistíðinda. (1373)

Umræður utan dagskrár

Dómsmrh. (Ólafur Jóhannesson) :

Herra forseti. Þingheimur hefur nú lifað hátíðlega stund, einkanlega þegar síðustu orðin voru sögð og mælt í þeim tón sem verið væri að lesa húslestur, að réttsýni og samviska þessa hv. vesalings þm., Sighvats Björgvinssonar, hefði leitt hann hér upp í pontuna til þess að endurtaka og flytja inn í sali Alþingis rógskrif Vísis. Í þessum rógskrifum eru bornar mjög alvarlegar sakir á dómsmrh. og dómsmrn. Þær eru að mínu mati mjög mismunandi alvarlegar. Annars vegar er ásökun um það, að dómsmrn. hafi fellt niður lokun veitingahússins Klúbbsins. Hins vegar er ásökun um það, að dómsmrh. hafi hylmað yfir og komið í veg fyrir rannsókn á mannshvarfi, og jafnvel látið liggja að því á milli línanna, að dómsmrh. hafi með því verið að reyna að hylma yfir morð og hindra að morð e. t. v. væri upplýst. Það er kannske táknrænt, hvað hv. ræðumaður eyddi miklu lengra máli í fyrri sökina, sem er miklu minni háttar, en þó virðingarvert kannske að hann færi hjá sér að fara mörgum orðum um hitt viðkvæma málið og róta í því og velta sér upp úr svaðinu í sambandi við þann óhróður sem borinn hefur verið fram í sambandi við það mál.

Ég mun e. t. v. víkja að því síðar, hvort það hefur bara verið samviskusemi og réttsýni sem hafi valdið þessari píslargöngu þessa hv. þm. upp í þennan ræðustól að þessu sinni. En ég ætla fyrst að víkja að minni sökinni, sem hv. þm. eyddi lengstu máli í. Hann talaði reyndar hér nokkuð lengi skv. leyfi forseta utan dagskrár, svo að það má vel vera að ég tali hér líka nokkuð lengi.

Hv. þm. sagði að hann hefði viljað spyrja margra spurninga, hann mundi hafa viljað spyrja o. s. frv. ef tími hefði verið til. Hefði nú ekki verið skynsamlegra fyrir hv. þm. að gefa sér ofurlítið meiri tíma og undirbúa ræðuna ofurlítið betur og koma fram með spurningar? Þá hefði verið hægt að svara þeim um leið.

Ég get upplýst þennan hv. þm. strax um það, að þetta svokallaða Klúbbmál, sem hann gerði hér að umtalsefni, liggur hjá embætti ríkissaksóknara og hefur því miður legið þar allt of lengi, en það er ríkissaksóknari sem fer með ákæruvaldið, en ekki dómsmrh. Ég hygg að mest af þeim tíma, sem þetta mál hefur verið í höndum ríkissaksóknara, hafi það verið í höndum vararíkissaksóknara, Hallvarðs Einvarðssonar, sem hv. þm. gerði sér far um að nefna oft í sinni ræðu áðan, og það, sem mun hafa verið talið standa á í sambandi við þetta mál, er að það hefur staðið á bókhaldsrannsókn, að fá menn til þess að framkvæma hana. Nú mun að vísu hafa verið úr því bætt og maður fenginn til bókhaldsrannsóknar. Þess vegna getur hv. þm. alveg verið rólegur í því efni, að þetta mál hefur ekki verið hjá dómsmrn., heldur í höndum ríkissaksóknara.

En þá er að leggja út í það verkefni sem ég er voðalega hræddur um að mér verði ofraun, og það er að kenna hv. þm. Sighvati Björgvinssyni fáein undirstöðuatriði í lögfræði. Og þá skulum við koma strax að því ákvæði sem hér er um að tefla, 2. málsgr. 14. gr. áfengislaganna. Hún hljóðar svo, með leyfi hæstv. forseta:

„Áfengissölubúðir skulu vera lokaðar á helgidögum þjóðkirkjunnar og frá hádegi á laugardögum og aðfangadögum stórhátíða, einnig þá daga er almennar kosningar til Alþingis og sveitarstjórna fara fram, svo og sumardaginn fyrsta, 1. maí, 17. júní og fyrsta mánudag í ágúst.“

Þetta var 1. málsgr. Hana hefði ekki þurft að lesa frekar en ýmislegt sem hv. þm. las upp úr grg. sem dómsmrn. hefur birt og öllum er kunnugt um. En í 2. málsgr. segir:

„Lögreglustjórum er heimilt að loka áfengisútsölu eða banna vínveitingar á veitingastöðum, sem leyfi hafa til áfengisveitinga, fyrirvaralaust um lengri eða skemmri tíma þegar sérstaklega stendur á. Áfengis- og tóbaksverslun ríkisins eða veitingamaður, sem í hlut á, getur skotið ákvörðun lögreglustjóra til dómsmrh. Ekki frestar málskot framkvæmd lokunarinnar“.

Þetta ákvæði hefur nú óbreytt staðið í áfengislögum alla tíð frá 1935 er þau voru fyrst sett. Það er komið inn í áfengislögin, þetta ákvæði um heimild lögreglustjóra til að loka vinveitingastað eða áfengisútsölu, skv. brtt. sem flutt var á Alþ. þá. Ég efast ekki um að hv. þm. hefur kynnt sér þetta mál til rótar, þar sem hann hafði, að því er virtist, gert sér mikið far um að rannsaka það. Flm. þessarar till. voru þm. Héðinn Valdimarsson og Stefán Jóh. Stefánsson, og í framsöguræðu um þessa brtt. segir Héðinn Valdimarsson, með leyfi hæstv. forseta, orðrétt svo:

„Annar liður þessarar 7. brtt., b.-liður, er um að lögreglustjórum skuli vera heimilt að loka útsölu- eða veitingastað vína fyrirvaralaust um einn eða fleiri daga þegar þeim virðist ástæða til. Þetta álítum við nauðsynlegt til þess að hægt sé að draga úr hættu á að drykkjuskapur gangi svo úr hófi fram að óspektum gæti valdið vissa daga eins og kosningadaga. Þetta hefur verið framkvæmt, en okkur virðist rétt að setja í lög heimild til þess.“

Það liggur sem sé ljóst fyrir, að það, sem vakti fyrir flm. þessa ákvæðis í upphafi, var öryggissjónarmið, en stóð ekki á neinn hátt í sambandi við hugsanlegar réttarrannsóknir. Þetta ákvæði hefur síðan verið endurtekið í lögum, en ekki verið breytt. Ég fullyrði að það hafi ekki verið tilgangur þeirra, sem að endurskoðun löggjafarinnar stóðu, að breyta í neinu þeim tilgangi sem á bak við þetta ákvæði bjó. Og það hefur svo verið endurtekið í reglugerðum með mismunandi orðalagi, en þó þannig að það gefur allt til kynna þá sömu skoðun á þessu efni. T. d. í reglugerðinni frá 1954, sem mun vera núgildandi reglugerð, segir svo í 6. gr.:

,,Lögreglustjórum er heimilt að loka áfengisútsölu eða banna vínveitingar á veitingastöðum, sem leyfi hafa til áfengisveitinga, fyrirvaralaust um langan eða skamman tíma þegar sérstaklega stendur á. Skal lögreglustjóri tilkynna dómsmrn. slíka ákvörðun svo fljótt sem ástæður leyfa. Áfengisverslun ríkisins eða veitingamaður, sem í hlut á, getur skotið ákvörðun lögreglustjóra til dómsmrh.“ o. s. frv.

Það liggur þess vegna ljóst fyrir, að þetta ákvæði, heimildin til lögreglustjóra til þess að loka veitingastað, er sett í því skyni að tryggja það að misnotkun í sambandi við áfengisveitingarnar eigi sér ekki stað, þannig að óreglu valdi, en ekki í sambandi við réttarrannsókn. Hún er réttaröryggisúrræði, en ekki réttarrannsóknarúrræði. Ákvæði um réttarannsóknarúrræði, þau úrræði sem rannsóknarmenn og rannsóknardómarar mega beita, eru í allt öðrum lögum en áfengislögunum. Þau ákvæði eru í lögum um meðferð opinberra mála. Þau ákvæði eiga jafnt við um mál, sem að einhverju leyti standa í sambandi við áfengisverslun eða leyfishafa veitingastaðar, eins og önnur og eins við um brot, sem framin eru í sambandi við þau mál, og um önnur brot. Til þessara rannsóknarúrræða má grípa við tiltekin ákveðin skilyrði, og það er réttaröryggis vegna búið um þau með tilteknum hætti, þannig að sá, sem fyrir sökum er hafður, á þar líka vissan rétt og getur komið að vissum vörum í því sambandi.

Ég vil að sjálfsögðu ekki segja neitt misjafnt um þá ágætu embættismenn sem hv. þm. vitnaði hér í. En ég leyfi mér að halda því fram að þeir hafi misskilið þetta lagaákvæði. Lögreglustjóri má ekki og á ekki að beita þessari heimild að geðþótta sínum. Hann má því aðeins beita þessu ákvæði að það séu fyrir hendi málefnislegar ástæður til þess, og hann á að beita því samkv. málefnislegum ástæðum og þeim úrskurði hans og ákvörðun um það efni má skjóta til dómsmrh. Það er dómsmrh. sem fer með lokaorðið í því efni. Og dómsmrh. er ekki frjálst að láta það vera að taka nokkra ákvörðun í slíku máli þegar því er til hans skotið. Málinn er áfrýjað til hans og honum er skylt að leggja sinn úrskurð á það eins og endranær þegar um er að ræða málefni, sem skotið er til æðra stjórnvalds. Það er ekki undir geðþótta dómsmrh. komið, hvort hann lætur vera að skipta sér af þessu máli eða ekki. Hann verður að leggja úrskurð á það, og hann verður einnig að leggja úrskurð á það eftir málefnislegum ástæðum.

Ríkissaksóknari hefur ekkert um þetta að segja. Þetta vald er algerlega í hendi dómsmrh. Til hans er ákvörðun lögreglustjóra áfrýjað, og það er eitt einfaldasta atriði sem menn læra í lögfræði — það er hin svokallaða valdþurrð, að eitt stjórnvald getur ekki gengið inn á svið annars stjórnvalds, komið í þess stað, farið að framkvæma athafnir sem eru í þess verkahring. Dómstólar geta ekki heldur gengið inn á það svið sem er óumdeilanlega lagt undir framkvæmdavaldshafa og framkvæmdavaldshafar auðvitað ekki inn á svið dómstóla. Í þessu lagaákvæði er valdinu skipað undir dómsmrh. og þess vegna hefur ríkissaksóknari ekkert um það að segja.

Það þarf ekki að eyða að því orðum, hvort jafngrandvar og heiðarlegur embættismaður og margreyndur og Valdimar heitinn Stefánsson ríkissaksóknari hafi farið að skrifa bréf til dómsmrh. og gefa honum, hvort sem dómsmrh. hefur heitið Ólafur Jóhannesson eða Jóhann Hafstein, leiðbeiningar um það, hvernig hann ætti að úrskurða í máli sem óumdeilanlega heyrir undir hann, hvað þá að fara að gefa honum fyrirmæli um það, hvernig hann ætti að úrskurða í málinu. Nei. Enda eru það skrök ein að það hafi Valdimar Stefánsson gert. Hann sendi aðeins það skjal, sem Hallvarður Einvarðsson hafði skrifað, handa ríkissaksóknara í sambandi við rannsókn þessa máls.

Það er þess vegna alveg óumdeilanlegt að dómsmrh. hafði heimild til þess að kveða upp úrskurð í þessu máli og hafði heimild til, ef hann taldi málefnislegar ástæður standa til þess, að fella úrskurð lögreglustjóra úr gildi. Og mergurinn málsins er auðvitað sá, að það liggur fyrir í minnisblaði skrifstofustjóra dómsmrn. að hann talaði við þann mann, fulltrúa hjá sakadómi, sem með rannsóknina fór, og hann lýsti því yfir að frekari lokun þessa áfengisstaðar hefði enga þýðingu fyrir rannsókn málsins. Þetta getur hv. þm. lesið í grg. dómsmrn. Hann hefur kannske lesið það hér áðan upp. En það sakar ekki þó að hann lesi það aftur. Þetta er auðvitað höfuðatriðið, að lokun var, úr því sem komið var, gersamlega þýðingarlaus fyrir rannsókn málsins. Af hverju átti þá að halda lokun áfram? Átti að fara að beita lokun áfengisstaðarins í eins konar hefndarskyni, hafa það sem einhverja hefndarráðstöfun, ef einhverjum lögreglumönnum væri í nöp við þennan veitingastað, t. d. af því að það hefði verið róstusamt þar eða eitthvað slíkt? Þannig má ekki beita þessu ákvæði. Þannig mega yfirvöld ekki beita sínu valdi.

Það er fortíðin, sem þekkist frá Nasista-Þýskalandi og fleiri einræðisríkjum, að þannig megi yfirvöld og dómstólar fara með sitt vald. Kannske dreymir einhverja menn um það, að þeir tímar renni upp á Íslandi að þannig megi fara að. Engu er líkara af sumum skrifum sumra blaða en svo sé. Dyggilega vinna þeir í þá átt að grafa undan rótum lýðræðisins í þessu landi.

Mergurinn málsins, kjarni málsins er sem sagt þessi: að lokunar, sem hafði staðið í fjóra sólarhringa, var alls ekki lengur þörf vegna rannsóknar málsins. Á hverju átti þá að byggja? Ef hennar var þörf vegna rannsóknar málsins, þá átti að byggja hana á ákvæðum í réttarfarslögum og taka ákvörðun um það samkv. því. Það kemur fram í grg. dómsmrn. að til þess treysti sá dómari, sem með málið fór, sér ekki, taldi ekki ástæðu til. Það kemur einnig fram í því plaggi Hallvarðs Einvarðssonar sem hv. þm. las hér upp áðan.

Er það réttaröryggi meðmælanlegt sem vill láta loka og halda áfram að loka stöðum að geðþótta kannske lögregluyfirvalda, en heimild til þess er ekki í réttarfarslögum réttum? Ég segi nei. Það er ekki réttaröryggið sem við sækjumst eftir.

Hitt er svo kannske aukaatriði, sem að vísu hefur verið skrökvað upp í þessum rógskrifum Vísis, að ég hef aldrei fellt niður þessa lokun veitingahússins Klúbbsins. Það var nefnilega ekki beðið eftir mínum úrskurði þar um. — Það skiptir ekki nokkru máli þó að hv. þm. hristi höfuðíð, kannske heyra þeir, sem næstir eru, hringla í einhverju, en það kemur ekki nokkurn hlut við mig.

Þessi hv. þm. er að gera svo lítið úr og ætlar að gera svo lítið úr frábærum og heiðarlegum embættismanni, margreyndum, lögreglustjóranum í Reykjavík, að hann hafi ekki viljað standa við sína sannfæringu af því að hann hafi verið búinn að heyra það hjá starfsmanni dómsmrn. að starfsmenn dómsmrn. litu svo á að þetta ætti að fella úr gildi. Þetta er ákaflega ómakleg ásökun í garð Sigurjóns Sigurðssonar lögreglustjóra. Hann felldi sjálfur niður lokunina og auðvitað samkv. sinni eigin sannfæringu þá, — sjálfsagt þegar hann var búinn að athuga málið betur. Að halda öðru fram væri að gera lítið úr þessum hæfa embættismanni, að hann fari bara eftir bendingu frá dómsmrn. og láti sannfæringu sína lönd og leið, ef hann telur sína lagatúlkun vera rétta.

Ég held að þetta nægi í raun og veru um þetta mál, sem ekki er stórkostlegt, því að þær sakargiftir, sem þarna var um að ræða, bókhaldsóreiða, skattsvik og því um líkt, voru þess háttar, að þær stóðu ekki í sambandi við meðferð áfengis í húsinu út af fyrir sig. Það var búið að taka öll bókhaldsgögn, og það gat ekki torveldað rannsókn málsins að þessu leyti á neinn hátt þó að húsið væri opið. Það hefði að mínum dómi verið út í bláinn að halda því lokuðu lengur, hrein geðþóttaákvörðun sem ekki gat stuðst við málefnisleg sjónarmið.

Ég hef rakið það áður, að bréf Valdimars heitins Stefánssonar er aðeins þetta: „Hér með sendi ég hinu háa dómsmrn. til athugunar afrit af skýrslu og umsögn Hallvarðs Einvarðssonar aðalfulltrúa, er hann hefur lagt fyrir mig um mál það, er þar um ræðir.“ Ekki eitt aukatekið orð meira, enda átti það ekki við. En því var skrökvað upp í þessum rógskrifum Vísis, að Valdimar heitinn Stefánsson hefði sent dómsmrh. bréf þar sem hann hefði átalið þetta. En hv. þm. las nokkuð úr skýrslu og umsögn Hallvarðs Einvarðssonar aðalfulltrúa, sem er ágætis embættismaður, en er ekki óskeikull fremur en aðrir menn. Og það er oft svo, að um lagaskilning og lagatúlkun ríkja mismunandi skoðanir hjá lögfræðingum. Mér dettur ekki í hug annað en hann hafi sett þetta á blað eftir sinni bestu sannfæringu og sínu sjónarmiði þá. En ég held að hann hafi haft rangt fyrir sér í þeirri lagatúlkun sem hann heldur þar fram. Ég ætla — með leyfi hæstv. forseta — að lesa ofurlítið úr þessu skjali. Ég held að skjalaritarinn hafi verið framsýnn þarna og séð það fyrir að hann átti eftir að verða varasaksóknari. Þegar hann talar um saksóknara þarna í grg., þá held ég að hann eigi við sjálfan sig, aðalfulltrúa saksóknara.

„Ákvað lögreglustjóri þá að leggja þegar bann við frekari áfengisveitingum í þessu veitingahúsi uns annað yrði ákveðið, og mun hann í því efni hafa stuðst við ákvæði 2. mgr. 14. gr. áfengislaga, nr. 82 1969. Sú ákvörðun lögreglustjóra var að áliti saksóknara sjálfsögð og eðlileg, eins og á stóð. Var það bæði á ýmsan hátt ótvírætt í þágu rannsóknar málsins, auk þess sem áframhaldandi starfræksla þessa veitingahúss, eins og málum þá var komið, var allsendis óviðeigandi frá sjónarmiði almennrar réttarvörslu.“ — Það er ekki heldur saksóknari sem sviptir veitingahús leyfi. Ef það er talið óviðeigandi að það haldi leyfi og fullnægir ekki lengur skilyrðum, þá er það dómsmrh. sem það gerir og hefur gert í ýmsum tilfellum, þannig að þessi orð eru nokkuð ofsögð hjá skjalaritaranum. — „Var tvímælalaust nærtækast að beita fyrrgreindri heimild lögreglustjóra samkv. 2. mgr. 14. gr. áfengislaganna, enda hæpið að unnt hefði verið að grípa jafnskjótt til annarrar réttarheimildar til slíkrar sviptingar, eins og málum var háttað í upphafi rannsóknar.“ — Já, það var það. Það var hæpið, en nærtækast þetta. — „Eðlilegt var að tekið væri fyrir frekari áfengisveitingar í þessu veitingahúsi meðan rannsókn málsins stæði yfir eða a. m. k. á meðan hin eiginlega sakadómsrannsókn, svo sem yfirheyrslur, stæði yfir. Efni kynnu hins vegar að hafa getað orðið til endurskoðunar þessu banni á síðari stigi rannsóknarinnar, t. d. óvíst að bíða hefði þurft lokaskattsvikarannsóknar skattrannsóknarstjóra eða loka bókhaldsrannsókna.“

Það eru sannarlega nóg vinveitingahús í Reykjavík, og ekki hefði mér verið nokkur eftirsjá í því í sjálfu sér þó að eitt hefði horfið úr sögunni og það stæði lokað enn í dag. En bókhaldsrannsókninni er enn ekki lokið. Telur nú hv. þm. að það hefði verið skynsamleg ráðstöfun að halda því lokuðu allan tímann? Nei, ég held að aðalfulltrúi saksóknara hafi gengið þarna fulllangt. Það hefði verið frekar viðeigandi af hans hálfu að benda á að það ætti að beita þeim úrræðum sem í réttarfarslögum eru, lögum um meðferð opinberra mála, við rannsóknina. En einmitt samkv. þeim ákvæðum var ekki talið heimilt að beita lokun og ekki þörf á því fyrir þýðingu rannsóknarinnar, eins og sá dómari sagði sem með rannsókn málsins fór.

Svo segir: „En rn. aflétti þessu banni hinn 20. þ. m.“ o. s. frv. Ekki viðeigandi að orði komist, verð ég að segja, því miður, hjá aðalfulltrúa saksóknara, annars ágætum embættismanni, að segja að rn. hafi fellt niður bannið. Það er einn aðalkostur á embættismönnum að þeir séu nákvæmir, bæði í orðum og hugsunum. En eins og ég hef tekið fram, þá var það ekki dómsmrn. sem felldi niður bannið, heldur lögreglustjórinn sjálfur. Það hefði verið viðkunnanlegra að segja nákvæmlega rétt frá þessu í skjali sem gert er af varasaksóknara ríkisins. Ég hef ekki talað við Hallvarð Einvarðsson og skal ekkert segja um það, hvort hann er sömu skoðunar í dag og hann var þá um þessi efni. En undarlegt þætti mér ef hann hefði ekki þroskast eitthvað svolítið síðan að fenginni reynslu í lögfræði og réttarrannsóknum.

Ég ætla að láta mér í léttu rúmi liggja það, sem að er látið liggja í þessum rógskrifum, að tengsl Framsfl. eða þá mín við Klúbbinn séu fjárhagslegs eðlis. Ég er sem betur fer það bjargálna, að ég þarf ekki að vera í húsmennsku hjá einum eða neinum, kemst af, þarf ekki að leita á annarra náðir, hvorki Sigurbjarnar í Klúbbnum né neinna annarra auðjöfra. Og ég vil leyfa mér að fullyrða það, að Framsfl. hafi ekki fengið neinar greiðslur frá Klúbbnum. Það er hverjum og einum frjálst og sjálfsagt að fara og fá að skoða reikninga Framsfl. og sjá það. Og það má þessi hv. þm. gera, og hann má meira að segja hafa bókhaldsfróðan mann með sér.

Hitt er náttúrlega miklu alvarlegri aðdróttun, sem hv. þm. fór þó svolítið hjá sér að minnast á, eins og eðlilegt er, sem sé sú, að ég hafi komið í veg fyrir rannsókn eða lagt hömlur í veg fyrir rannsókn á mannshvarfi og jafnvel gerst sekur um það að reyna að koma í veg fyrir að hugsanlegt morð upplýstist og halda þannig verndarhendi yfir mönnum sem hefðu fengist við slíkt. Þessu atriði eru gerð ærið greinileg skil í grg. dómsmrn. Þar er í fyrsta lagi ákveðið, að þeim aðalrannsóknarmanni í Keflavík, sem fór með rannsókn þessa máls, var gefið frí, leyfi, orlof frá öllum öðrum störfum í fimm mánuði til þess að geta gefið sig að þessum störfum eingöngu. Hauki Guðmundssyni var gefið orlof frá öllum öðrum lögregluþjónsstörfum í fimm mánuði til þess að hann gæti gefið sig eingöngu að því að upplýsa þetta mál. Það var skipaður umboðsdómari, sérstakur, ágætur maður, Ásgeir Friðjónsson dómari í fíkniefnamálum, sem þar með fékk vald til að rannsaka málið hvar sem var á landinu og setja rétt í því hvar sem var í landinu. Bæjarfógetanum í Keflavík var skrifað bréf sem ég held að engir venjulegir menn geti skilið öðruvísi en á þá lund, að þar sé verið að ýta á að gera rannsóknina sem gagngerasta og ítarlegasta. Það getur kannske verið að óvenjulegir menn, eins og hv. síðasti ræðumaður, geti skilið það á eitthvað aðra lund. En hann hefur þó eitthvað öðruvísi skynfæri en venjulegir menn.

Nú það er rétt, að í grg. dómsmrn. er ekki birt þetta bréf frá lögmanni þeirra, þar sem þeir kvörtuðu yfir þeim miska sem þeir hefðu orðið fyrir í sambandi við gróusögur sem um þá hefði verið dreift. Þar er drepið á ýmis atvik til sönnunar þessu. Eina ástæðan fyrir því, að þetta bréf var ekki birt, sem vissulega hefði skýrt grg., var sú að það er það langt. Bréfið er frá Inga Ingimundarsyni hrl. og ef ég man rétt er getið um það í grg. að frá honum hafi komið bréf. Það er jafnframt sagt í grg. að hverjum og einum, þ. á m. hv. þm. Sighvati Björgvinssyni, er heimilt að koma í rn. og sjá öll skjöl sem þar liggja fyrir og þetta mál varða. Og ef til vill hefði verið skynsamlegra fyrir hann að koma áður en hann flutti ræðu sína áðan. En hann getur gert þetta síðar — alltaf velkominn — fengið að sjá allt og í marga daga, og ég veit ekki hvort það væri út af fyrir sig neinn skaði þó að hann eyddi einhverjum tíma í það frá öðrum ónytsamlegri störfum.

Það er ákaflega ógeðfellt að þurfa að vera að tala um þetta mál opinberlega og þurfa að vera að nefna nöfn í því sambandi. Það er svo ógeðslegt að maður undrast lundarfar þeirra sem geta lagt sig niður við slíkt. Hvað sem er um þessi efni, hvort menn eru saklausir eða sekir, þá eiga margir um sárt að binda í sambandi við svona mál, og það væri gott fyrir þá menn, sem gera að iðju sinni að bera út svona gróusögur, að leggja sér á minni orðin: „aðgát skal höfð í nærveru sálar“. Margar gróusögur eru í gangi og hafa verið í gangi um ýmis tilvik sem hafa átt sér stað. Það er ekki víst að allir yrðu glaðir ef upp í því yrði farið að hræra, það gæti komið nálægt einhverjum. Og yfirleitt eru þessar gróusögur ósannar, en gómsætar að smjatta ú fyrir Gróu á Leiti og hennar líka. Það hafa verið nefnd hér nöfn svo að ég verð að gera það líka. Því er haldið fram, að ég hafi komið í veg fyrir rannsókn í sambandi við hvarf Geirfinns heitins (Gripið fram í.) — Einarssonar, — mér varð nú á að segja heitins, það var aldrei upplýst og væri ánægjulegt ef svo væri ekki, — komið í veg fyrir það, að rannsókn ætti sér stað í sambandi við Magnús Leopoldsson og Sigurbjörn Eiríksson.

Hver er nú sannleikurinn um rannsókn á þessum mönnum af hálfu þeirra lögreglumanna sem með þetta mál fóru? Magnús Leopoldsson var einu sinni kallaður fyrir á lögreglustöðina í Reykjavík til þess að gefa skýrslu um bifreiðar og þess háttar, og þetta átti sér stað í janúarlok 1975. Og a. m. k. hefjast þau afskipti rn., sem hv. þm. vill telja að hafi eitthvað torveldað rannsóknina, drjúgum tíma síðar. Hvað var þá gert í millitíðinni? Kallaður einu sinni fyrir á lögreglustöðinni í Reykjavík. Sigurbjörn Eiríksson var aldrei kallaður fyrir.

Athuganir á þessum efnum, sem hér um ræðir, stóðu aðallega í jan. og febr. Rannsóknarmennirnir frá Keflavík höfðu húsnæði lánað í lögreglustöðinni í Reykjavík og lögreglumanninn Rúnar Sigurðsson sér til aðstoðar. Það húsnæði og aðstoðarmanninn höfðu þeir a. m. k. fram í maílok frá 10. des. og húsnæðið e. t. v. eitthvað lengur. Ekki bendir þetta til þess, að yfirvöld hafi viljað leggja hömlur á þessa rannsókn eða koma í veg fyrir hana eða draga úr henni — að greiða á þennan hátt fyrir henni: að lána húsnæði í Reykjavík undir hana og fá rannsóknarmönnunum úr Keflavík til aðstoðar einn lögreglumann úr Reykjavík. Lögreglumaðurinn Rúnar Sigurðsson, sem var þeim til aðstoðar þarna, fullyrðir að það hafi aldrei verið ýjað að því við sig að rannsóknin mætti ekki lengur beinast að Magnúsi Leopoldssyni og Sigurbirni Eiríkssyni. Rannsóknarmönnunum úr Keflavík virðist því ekki hafa verið það ofarlega í huga, eða þá að þeir hafi verið þögulir sem gröfin um það. Að því er Haukur Guðmundsson rannsóknarlögreglumaður sagði Jóni Eysteinssyni í síma frá Reykjavík, þar sem hann er til aðstoðar sakadómi, svo og allar skýrslur, sem að málinu sneru og voru í hans höndum, minnir hann í þessu viðtali við Jón Eysteinsson að síðasta athugun, sem beinst hafi að þeim Klúbbmönnum, hafi gerst 5. mars.

Ég held að ljóst sé af því, sem ég hef lítillega rakið hér og hef enga löngun til þess að vera að velta mér upp úr þessu máli meira en nauðsynlegt er, sé ljóst að ég hef ekki reynt að torvelda rannsókn þess, enda er ég satt að segja hissa á því ef nokkrum hv. alþm. dettur það í hug í raun og veru. En þó veit maður aldrei hvað leynist í hugum manna. Lengi skal manninn reyna.

Haukur Guðmundsson rannsóknarlögreglumaður kannast ekki heldur við það að vera heimildarmaður að þessum rógskrifum Vísis. Það væri ákaflega æskilegt að sá, sem staðið hefur að þessum Vísisskrifum, tilgreini heimildarmann sinn. Ég get kannske vitað hver það er, en það er hans að segja til um það, og það væri ekkert slæmt að leiða þann kauða fram í birtuna. Hver veit nema hann hafi eitthvað á samviskunni?

Ég hef þá gert efnislega nokkra grein fyrir þessu máli og skal láta útrætt um þá þætti þess. Mér er mikil raun að því í sjálfu sér að hafa þurft hér á Alþ. að fara að tala um síðari þátt málsins. Hitt er ákaflega létt og kemur ekki við mig, að tala um lokun Klúbbsins og niðurfellingu lokunar hans. En að fara að hefja á Alþ. umr. um jafnviðkvæmt sakamál og hér er um að tefla og um slík mál yfirleitt, það er alltaf varhugavert. Við byggjum á þeirri þýðingarmiklu grundvallarreglu, að maður skuli talinn saklaus þangað til hann hefur verið sakfelldur, og við ættum að gæta okkar að hverfa ekki frá henni.

Ég hef ekki ætlað mér að nota þennan dag til þess að skjóta á þúfutittlinga. Vilmundur Gylfason er í þessu sambandi ekki nema eitt stórt núll. Gildi hefur núll ekkert ef það stendur út af fyrir sig. Gildi þess er alveg eftir því í hvaða afstöðu það stendur til annarra talna. Vilmundur Gylfason skrifar til að lifa. Hann er verkfæri — verkfæri í annarra höndum. Ég ætla ekkert að fara að eyða orðum að honum frekar í þessu sambandi. Það eru mennirnir sem á bak við standa, sem ábyrgðina bera. Það eru mennirnir, sem standa að Vísi, sem bera ábyrgð á því hvað birtist í því blaði. Þeir geta ekki skotið sér undan þeirri ábyrgð. Þeir bera ábyrgð á þeim rógskrifum sem þar hafa birst um mig og aðra, og ég hef leyft mér að kalla þann virðulega hóp, ef virðulegan skyldi kalla, „mafíu“ — ekki í þeim skilningi að hann standi í sambandi við mafíuflokkinn sem á rætur á Sikiley eða einhvers staðar á Ítalíu, heldur er þetta samheiti á mönnum og félagsskap sem beita þeim aðferðum sem þessir menn telja sér sennilega sóma að, leggja a. m. k. fyrir sig — kannske eru það aurarnir sem einhverju ráða. Það eru þessi skrif sumra blaða sem hafa verið þess háttar að þau hafa beinst að því, eins og ég áðan sagði, að grafa undan lýðræði í þessu landi.

Hvernig hafa þessi blöð, eins og Vísir, skrifað um þessa virðulegu stofnun, Alþingi íslendinga, dýrmætustu stofnun íslensku þjóðarinnar? Nefnt hana hvers konar ónefnum og óvirt hana á allan hátt og eru með því seigdrepandi að grafa undan traustinu á fulltrúasamkomu þjóðarinnar, — samkomu þar sem þjóðkjörnir menn sitja, menn sem hafa orðið að sækja traust sitt til kjósenda, traust sem þessir menn, sem hjá Vísi starfa, mundu aldrei fá — aldrei. Þeir mega þykjast góðir að hafa komist í krafti peninga í stjórn Vísis. Og hvernig hafa þessi blöð haldið áfram að naga rætur lýðræðisins á Íslandi? Jú, jú, ráðherrar eru náttúrlega landráðamenn upp og ofan, meira og minna. Huggulegur vitnisburður! Ég er ráðh. í dag, annar á morgun, það eiga margir eftir að verða. En hvaða traust verður borið til þeirra manna sem skipa þessar stöður þegar þannig er búið að grafa undan þeim? Og hvernig hefur verið talað um framkvæmdavaldið yfirleitt? Er það ekki allt á sömu leið? Og nú á að byrja á dómstólunum og dómstólakerfinu — grafa undan þeim, grafa undan dómsmrn., veikja traust almennings á þessum stofnunum sem eru hyrningarsteinar í íslensku þjóðfélagi, hyrningarsteinar undir íslensku lýðræði. Það er óþrifa- og óþverraverk sem þessir menn standa í, og þeir mega hafa skömm fyrir. Það þýðir ekkert fyrir þessa menn að ætla að skjóta sér á bak við Vilmund Gylfason. Það er bara lítilmannlegt af þeim. Þeir bera ábyrgðina. Og sjálfur ritstjóri Vísis skrifar á forsíðuna í Vísi í dag og setur mér kosti: „Dómsmrh. gefinn kostur á að draga ummæli sín til baka“. Kannast menn við svona vinnubrögð? Það skyldi aldrei vera að „Mafían“ viðhefði svona vinnubrögð nokkuð víða, sendi hótanir í blöðum eða hótunarbréf ef á þarf að halda? Mafía er hún, og Mafía skal hún heita.

Það er svo annað mál, sem ég ætla ekki að orðlengja um hér, að auðvitað hafa oft verið úfar með Framsfl. og Sjálfstfl. Framsóknarforustumenn hafa oft fengið kaldar kveðjur í blöðum sjálfstæðismanna, og það hefur sjálfsagt verið gagnkvæmt. Það mætti rifja ýmis tilvik upp af því tagi — allt frá Kleppi og út í eyjar. Ég ætla að sleppa því núna, en ég hef það allt geymt og það fyrnist ekki. En það var allt í lagi. Þá börðust þessir flokkar hvor á móti öðrum. En nú er þetta málgagn, Vísir, gefið út af sjálfstæðismönnum, samstarfsmönnum Framsfl., og þá ræðst það á mig með rógskrifum æ ofan í æ. Sumir mundu kalla það rýtingsstungu í bakið. Það vill nú svo vel til, að ég er þannig skapaður að ég hef breitt bak og þykkt, svo að rýtingurinn gengur ekki í gegn og ég mun standa þetta af mér.

Svo má hv. þm. Sighvatur Björgvinsson tala jafnmikið og hann vill hér á eftir. Ég geri ekki ráð fyrir því að ég eyði meiri tíma í að ræða um þessi mál. Ég vorkenndi honum að þurfa að ganga hér upp í ræðustólinn. Ég sá fyrir mér röðina af erlendum og innlendum hjáleigubændum þegar þeir hafa staulast um aldirnar og bognað meira og meira með hverju árinu sem hefur liðið þangað til þeir hafa verið komnir í keng af því að hlýða húsbændunum á höfuðbólinu og ganga í skítverkin fyrir þá. Þessi hv. þm. er hjáleigubóndi orðinn, því miður vil ég segja, hjá dagblaðinu Vísi. Þess vegna varð hann að takast á hendur þessa skyldu, að ganga hingað upp í ræðupúltið og flytja inn í sali Alþ. rógskrifin sem í Vísi hafa staðið. Þau verða minnisvarði yfir honum hér á Alþ. og í þingtíðindum. Ég vil þó vona hans vegna að hann losni úr hjáleigubúskapnum áður en hann verður orðinn tvöfaldur af þrældómsokinu sem á hann er lagt.