02.02.1976
Neðri deild: 49. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 1661 í B-deild Alþingistíðinda. (1374)

Umræður utan dagskrár

Landbrh. (Halldór E. Sigurðsson) :

Hæstv. forseti. Ég vildi taka ómakið af hv. þm. Sighvati Björgvinssyni. Hann sagðist mundu hafa spurt um það, ef hann hefði haft tíma til. hvað liði skattrannsókn hjá eiganda Klúbbsins, Sigurbirni Eiríkssyni, og skattaálagningu, en ég var yfirmaður þeirra mála þegar þetta atvik kom upp sem hann vitnaði til. Skattrannsókn var þá strax hafin og henni lauk þegar á eðlilegum tíma. Ríkisskattstjóri úrskurðaði á grundvelli þeirrar rannsóknar nýja álagningu á Klúbbinn, en þessi framteljandi hafði ekki talið fram 1971 og 1972. Þessi úrskurður var kveðinn upp hinn 18. sept. 1973. Síðan lagði framteljandi fram uppgjör á þessum rekstri sínum, þar með framtal bæði árin. Ríkisskattstjóri úrskurðaði aftur, eftir að það hafði borist, 22. jan. 1974 og lækkaði það frá fyrri áætlun sinni. Málið var síðan kært til ríkisskattanefndar, og úrskurður ríkisskattanefndar gekk 26. nóv. 1975. Endanlegir skattar þessa framteljanda, þ. á m. söluskattur, eru um 14 millj. kr. Af þeim er búið að greiða 2.7 millj. kr. og er það upp í söluskatt sem er 3.5 millj. tæpar. Lögtak hefur farið fram vegna þessara gjalda hjá gjaldanda, Sigurbirni Eiríkssyni, á jörðinni Álfsnesi, og frestur í fógetarétti er til 13. þ. m., þannig að niðurstaða þessa máls liggur fullkomlega fyrir og þarf ekki um það að spyrja.

Enda þótt það komi ekki þessu skattamáli við — og þó — vil ég svo aðeins bæta því við, að syni mínum var sagt í morgun að ég kynni vel að sitja hesta Sigurbjörns í Álfsnesi. Vegna þess vil ég taka fram, að ég kann ekki skil á neinum þeirra, hvorki veit um lit né hef á bak þeim komið. En ég sá hest þann sem hann átti á móti því sem fram fór í Austurríki í sumar, en hann var seldur að mótinu loknu. Hesturinn var fallegur og seldist víst fyrir hátt verð.