03.02.1976
Sameinað þing: 43. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 1665 í B-deild Alþingistíðinda. (1376)

27. mál, atvinnuleysistryggingar

Fyrirspyrjandi (Axel Jónsson) :

Herra forseti. Ég bar fram snemma í vetur svo hljóðandi fsp.: „Hvað hyggst ríkisstj. gera til að fullnægja ákvæði til bráðabirgða í lögum um breyt. á l. nr. 57 27. apríl 1973, um atvinnuleysistryggingar (fæðingarorlof), er samþ. var á Alþ. 16. maí 1975, svo hljóðandi: Fyrir 1. jan. 1976 skal ríkisstj. láta kanna á hvern máta megi veita öllum konum á landinu fæðingarorlof og tryggja tekjustofn í því skyni?“

Eins og ég gat um, herra forseti, bar ég þessa fsp. fram mjög snemma á þessu þingi, en margvíslegar ástæður hafa valdið því að ekki hefur verið hægt að svara henni fyrr. Hefur það verið ýmist vegna þess að ég hef óskað eftir því að hún væri tekin út af dagskrá eða þá að ráðh. hefur gert það eða ekki verið viðlátinn.

Tilefni fsp. er fyrst og fremst það ákvæði til bráðabirgða sem ég vitna hér í. Þegar þetta mál var til umræðu á hinu háa Alþ. á s. l. ári urðu um það nokkrar umræður, en óhætt er að segja að allir, sem í umræðunum tóku þátt, lýstu fylgi sínu við tilganginn sem í frv. fólst. Menn greindi fremur á um hvaðan fjármagn ætti að koma til að standa undir greiðslu á fæðingarorlofinu. Ýmsir töldu að þá þegar væri búið að íeggja það miklar byrðar á Atvinnuleysistryggingasjóð að hann væri þegar ásettur.

Megintilgangur Atvinnuleysistryggingasjóðs er að mæta atvinnuleysi ef upp kemur, og verður hann þá að geta staðið undir greiðslu bóta í því efni. Því miður er það oftast svo, að um eitthvert tímabundið og/eða staðbundið atvinnuleysi er að ræða, þó svo að í heild sé atvinnuástand á landinu gott. Atvinnuleysistryggingasjóður hefur reynt að lána fé til atvinnuaukningar á ýmsum stöðum, þ. e. vinna fyrirbyggjandi starf til að reyna að koma í veg fyrir að atvinnuleysi verði á tilteknum stöðum.

Á s. l. ári var atvinnuástand í landinu í heild talið fremur gott og þó þurfti að greiða verulegar upphæðir vegna tímabundins og staðbundins atvinnuleysis. Atvinnuleysistryggingasjóður gat á því ári að mjög óverulegu leyti sinnt beiðnum sem til hans bárust um lán og t. d. ekki frá einu einasta sveitarfélagi varðandi framkvæmdir á þeirra vegum. Nýjar álögur á sjóðinn, þó svo að þær séu til góðs málefnis, munu því taka enn frekar fyrir allar lánveitingar til atvinnuaukningar sem þó mun ávallt vera nauðsyn á að hægt verði að sinna að einhverju leyti, og nýjar álögur á Atvinnuleysistryggingasjóð til viðbótar þeim, sem áður voru á hann lagðar, geta reynst um of ef atvinnuástand í landinu almennt skipast til verri vegar.

Að þessu var vikið í þeim umr. sem urðu um málið á síðasta þingi, og bentu ýmsir á að þrátt fyrir nauðsyn þess að þetta mál næði fram að ganga, þá yrði að hafa í huga að annað tveggja þyrfti að koma til, að létt yrði byrðum af Atvinnuleysistryggingasjóði eða fjármagn yrði fundið til að standa undir þessum greiðslum á annan hátt. Við afgreiðslu málsins þróaðist það svo, að upphaflega var gert ráð fyrir því, að lögin tækju gildi um mitt ár eða svo, en síðan var gerð breyting á þeim þannig, að þau tækju gildi um síðustu áramót, og enn fremur var, eins og ég gat um, við lokaafgreiðslu málsins í hv. Ed. samþ. ákvæði til bráðabirgða sem ég vitnaði í í upphafi máls míns og er, eins og ég áður sagði, tilefni fsp. Bentu ýmsir á að nauðsyn væri að kanna málið betur með tilliti til stöðu Atvinnuleysistryggingasjóðs og með tilliti til þess að nauðsynlegt væri að tryggja enn fleiri konum þá aðstoð, sem hér er um að ræða, heldur en í frv. fólst.

Nú veit ég að þegar er búið að ganga frá reglugerð í þessu efni og fsp. því í sjálfu sér kannske óþörf og nú of seint á dagskrá, en það er samt eðlilegt að þingheimi gefist kostur á að heyra svör ráðherra.