03.02.1976
Sameinað þing: 43. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 1668 í B-deild Alþingistíðinda. (1380)

27. mál, atvinnuleysistryggingar

Sverrir Hermannsson:

Herra forseti. Ég áttaði mig ekki fyllilega á þessu viðrinistali í hv. 3. þm. Reykv. Hún þuldi hér upp ýmsar samþykktir. Þetta mál var rakið ítarlega, að vísu að hv. þm. fjarstöddum, þegar þessi mál voru afgr. Það er að vísu ekki rétt að Atvinnuleysistryggingasjóðurinn sé eign verkalýðshreyfingarinnar, enda þótt hann eigi að ganga til hennar þarfa. Það liggur alveg ljóst fyrir. Um hann var samið á sínum tíma eftir langt og stórt verkfall. Hann hefur gegnt hlutverki sínu með miklum sóma. En þegar rætt er um það — og sanngjarnt er að vísu að allar mæður njóti þessara kjara — þá lá hér fyrir fyrst að mela mestu nauðsynina. Það kom hvergi fram í ræðu hv. þm. hvar nauðsynin væri mest og fyrir hverja. Það voru menn sammála um, að fyrsta skrefið yrði þannig stigið að verkakonur nytu þessara kjara fyrstar að þessu leyti. Að vísu njóta starfskonur hins opinbera þessara kjara. Á þetta ráð var brugðið til þess að bæta úr brýnasta vandanum þar sem ekki tókst og ekki voru talin tök á að stiga skrefið til fulls. — Þetta vildi ég aðeins rifja upp að þessu gefna tilefni, því að eins og áður hafði að vísu komið fram hjá hv. flokksbræðrum hv. þm., þá var, meðan þetta mál var á döfinni, hálfgerður holhljómur í flestu þeirra tali.