03.02.1976
Sameinað þing: 43. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 1670 í B-deild Alþingistíðinda. (1384)

27. mál, atvinnuleysistryggingar

Sjútvrh. (Matthías Bjarnason):

Ég vil aðeins út af þeim ummælum, sem hér hafa komið fram, segja það, að ég tel að það sé bæði sjálfsagt og eðlilegt að endurskoða löggjöfina um atvinnuleysistryggingar. Að vísu er ekki langur tími síðan þessi lög voru endurskoðuð, en það er eins með þau og flest önnur lög, að þau þurfa alltaf endurskoðunar við. Það er ýmislegt í þessum lögum sem er rétt að fara betur yfir.

Varðandi þau lög, sem hér voru samþ. s. l. vor, þá voru þau samþ. svo að segja með shlj. atkv. Stjórnarandstæðingar báru fram till. um að greiða fæðingarorlofið úr almannatryggingum. Það hefði auðvitað þýtt að þurft hefði að hækka framlagið til almannatrygginga. En það vill verða svo hjá stjórnarandstæðingum á öllum tímum, að þá varðar lítið um það, hvernig á að afla fjár, en eru fullir áhuga á að koma á auknum útgjöldum. Og það var þannig í þessu máli.

Ég held að ef þessi mikli áhugi hefði verið fyrir hendi, þá hefði hann ekki þurft að vera nema einu ári fyrr. Þá var Alþb. í stjórnaraðstöðu og réði mjög miklu, að sagt var. Alþb.- menn hafa sagt sjálfir að a. m. k, í öllum umbótamálum réðu þeir öllu. Þá hefðu þeir átt að taka þetta mál upp á sinn óskalista og fá það í gegn. En það gerðist ekki. Hins vegar má segja, að það megi alltaf, hvaða stjórn sem er, halda áfram félagslegri uppbyggingu. En það verður líka að taka tillit og taka mið af aðstæðum sem skapast hafa í þjóðfélaginu og landsmenn verða nú að sætta sig við, eins og fjölmargar aðrar þjóðir gera. Þess vegna er ekki núna og hefur ekki verið á s. l. ári og ekki sjáanlegt á þessu ári heppilegasti tíminn til að bæta við nýjum útgjöldum, vegna þess að það er mörg löggjöf frá síðustu árum sem er ekki komin til framkvæmda nema að mjög takmörkuðu leyti og þarf stórkostlega viðbót fjármagns til að framkvæma. Við höfum mikið af slíkri löggjöf að framkvæma, sem allir flokkar eru sammála um að gera.