27.10.1975
Efri deild: 9. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 190 í B-deild Alþingistíðinda. (140)

17. mál, skólaskipan á framhaldsskólastigi

Flm. (Helgi F. Seljan) :

Herra forseti. Nú ég vil þakka hv. 2. þm. Norðurl. e. fyrir vinsamlegar undirtektir undir till. í heild og leggja einmitt á það áherslu að vegna skiptra skoðana okkar um framhaldsnámið, bæði okkar og fjölmargra annarra um þessi mál almennt, þá er einmitt nauðsynlegt að taka þessi mál upp sem allra fyrst og einmitt í tengslum við þau lög sem við getum auðvitað deilt endalaust um hvort hafi verið góð eða slæm, en þó a. m. k. gilda nú.

Ég lagði á það áherslu þegar grunnskólalög voru hér samþ. og get tekið undir það, að auðvitað er það framkvæmdin á þeim sem skiptir öllu máli. Lögin sjálf leysa út af fyrir sig engan vanda, ef t. d. efsti hluti grunnskólans er skilinn eftir á þann hátt sem hv. þm. var að lýsa áðan og kannske farið út á ranga braut þar, sem getur vel verið að sé rétt, ég hef ekki fylgst svo vel með þessu þau tvö síðustu ár sem þetta hefur komið sérstaklega til. Ef t. d. það valfrelsi, sem ég áleit að væri aðalkostur við efsta hluta grunnskólans, ef þetta valfrelsi er ekki framkvæmt, ef það er ekki virkt, þá vitanlega ná lögin ekki þeim tilgangi sem ég taldi einn aðalkost þeirra. Mér fannst einmitt að þarna opnuðust leiðir fyrir ýmsa nemendur á 13–14 ára aldursskeiði til þess að fara í nokkru aðrar leiðir en hina hefðbundnu bóknámsleið og ef lögin eru rétt lesin og rétt framkvæmd, þá eiga þau að vera með þann möguleika í fullum gangi. Verði það ekki framkvæmt, þá vitanlega er þessi, að ég tel, aðalkostur laganna fyrir bý, og það er miður ef framkvæmdin verður slík.

Almennt um grunnskólalögin og námsleiða eða áhugaleysi nemendanna og allt það, um það ætla ég ekki að fara út í nýjar deilur hér. Um það deildum við hv. þm. t. d. og fleiri á sínum tíma, um hinar ýmsu ástæður. Ég benti þá á ýmsar aðrar ástæður áhugaleysisins hjá nemendum en þær sem hv. þm. kom hér réttilega inn á áðan.

Hann minntist einnig á að við þyrftum að skapa nemendum aðstöðu til þess að kynnast andrúmslofti atvinnulífsins. Þrátt fyrir það að skólatíminn hafi lengst, þá er það nú svo úti á landi að þar kynnast nemendur býsna vel andrúmslofti atvinnulífsins og eru í góðum tengslum við það. Ég reikna með að það sé hér í þéttbýlinu, mesta þéttbýlinu, sem séu hvað mest vandræði hvað snertir það atriði. Þá á ég auðvitað ekki við að blessuð börnin hér kynnist ekki nógu vel ýmsum þáttum atvinnulífsins, svo sem verslun, því að þau hafa mjög góða og mikla reynslu allt frá því að þau eru næstum að segja hvítvoðungar í því að umgangast þann hluta atvinnugreina okkar sem lýtur að verslun og viðskiptum, og eru sjoppurnar auðvitað besti staðurinn sem þau eiga völ á hvað það snertir. En kannske er það ekkert meira en sjoppurnar sem þau hafa fyrir augunum og kynnast hér í þéttbýlinu. En hjá okkur úti á landi er þessu öðruvísi farið, sem betur fer. Ég tek alveg undir það að nemendurnir þurfa bæði hér sem annars staðar að kynnast andrúmslofti atvinnulífsins almennt séð og sem best og mest.

Það var ekki von að mér tækist að gera hv. þm. fullkomlega skiljanlegt orðin „samræmdur framhaldsskóli“ eða „kjarnaskóli“. Þessu reyndi Hjörleifur Guttormsson að gera mér grein fyrir í fyrra á heilu kvöldi og tókst að mestu leyti, en auðvitað alls ekki svo að ég gæti miðlað öðrum af þeirri þekkingu. Ég vék rétt að því áðan hvernig þessi kjarnaskóli væri t. d. hugsaður eystra hjá okkur og vitnaði þar í eins konar forustuskóla, sem sæi um samtengingu hinna ýmsu námsbrauta, sæi um að hinir ýmsu námsbrautir, sem farnar væru í fjórðungnum, eins og t. d. varðandi búnaðarfræðslu, húsmæðrafræðslu og ýmislegt annað, þær lokuðust ekki, heldur væru möguleikar nemenda í þeim til þess að halda áfram námi annars staðar, á öðrum námsbrautum. Hitt er annað, að ég hef ekki trú á því að með þessu kjarnaskólakerfi sé Hjörleifur Guttormsson að elta einhverja tískustefnu í þessum efnum. Ég held einmitt að hann sé að fara þarna inn á nýja og mjög athyglisverða braut. En ég verð sem sagt hreinlega, ef ég á ekki að fara að verða hér allt of langorður, að vísa hv. þm. í nám til Hjörleifs hvað þetta snertir. Ég veit að hann er fús til þess að miðla öllum af mikilli þekkingu sinni og viti um þetta mál. En sem sagt, samræmdur framhaldsskóli er í okkar vitund það, að framhaldsskólamenntunin sé sem mest samræmd, brautirnar gangi ekki á misvíxl án tengsla hver við aðra. Það er okkar meining með þessum samræmda framhaldsskóla. Það mætti kannske orða það öðruvísi og segja: „með samræmdu framhaldsnámi þar sem kveðið sé skýrt á um verkaskiptingu og tengsl hinna ýmsu skóla og námsbrauta“. Það kynni vel að vera að það væri rétt, en um samræmingu þessara þátta ætti ekki að þurfa að deila.

Ég bendi aðeins á það að í fyrra minntist ég á fullorðinsfræðsluna. Hún var á sama tíma hér til umr. á Alþ., og ég benti þá á að það væri samhliða nauðsyn að hyggja að henni, jafnframt því sem við athuguðum betur og betur en gert hefur verið um framhaldsskólastigið. Þetta ætti einmitt að fylgjast að, framhaldsskólastigið og fullorðinsfræðslan. En ég skal sem sagt fara í það, ef hv. þm. vill, að miðla honum af þekkingu minni varðandi þennan kjarnaskóla, en ég þykist geta vísað til svo góðs læriföður varðandi útskýringar á því að þess sé ekki þörf hér.