03.02.1976
Sameinað þing: 44. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 1676 í B-deild Alþingistíðinda. (1405)

44. mál, frestun framkvæmda við Grundartangaverksmiðjuna

Ragnar Arnalds:

Herra forseti. Ég stend nú einungis upp til að mótmæla þeirri staðhæfingu sem hér er flutt, að þetta mál hafi verið sótt af einhverjum einstæðum þunga af hálfu Alþb. í tíð vinstri stjórnarinnar. Þetta er algjör rangfærsla staðreynda, og ég bið menn að leita eftir því í þskj. eða með öðrum hætti að það hafi nokkurs staðar komið fram í tíð vinstri stjórnarinnar að Alþb. væri hlynnt því að þessi verksmiðja yrði reist. Staðreyndin er sú, að í tíð vinstri stjórnarinnar hafði Alþb. enga afstöðu tekið til þessa máls — enga. Ég get vitnað til fjölmargra ummæla sem t. d. ég viðhafði á opinberum vettvangi, þar sem ég var spurður um þetta mál og hver væri afstaða Alþb. til þess og ég svaraði því ævinlega á sama veg, að Alþb. hefði ekki tekið afstöðu til þessa máls.

Hitt er allt annað mál, að í tíð vinstri stjórnarinnar var að störfum svonefnd stóriðjunefnd á vegum iðnrh. sem hafði þetta mál til athugunar, og þessi ákveðna stóriðjunefnd kannaði málið allrækilega og setti upp ákveðnar ráðagerðir og undirbjó ákveðið frv. Hins vegar hafði engin ákvörðun verið tekin innan vinstri stjórnarinnar og enn síður innan stjórnarflokkanna um að þetta mál skyldi verða að lögum. Það, sem gerðist, var einungis, að menn kynntu sér allar staðreyndir málsins. Menn settu upp ákveðið prógram um að það gæti komið til greina að reisa þessa ákveðnu verksmiðju í tengslum við byggingu Sigölduvirkjunar, vegna þess að það var talið að mörgu leyti hentugt að geta selt til orkuvers ákveðið magn af orku. Hins vegar höfðu menn ekki gert upp við sig á þessum tíma hvort þetta væri endanlega hyggilegt með hliðsjón af öllum öðrum staðreyndum málsins. Ég get hins vegar upplýst það, — já, það er alveg velkomið að skjóta spurningum inn. (Gripið fram í: Var þetta ekki stjórnarfrv.?) Þetta var stjórnarfrv., flutt af núverandi stjórn, og ég tel að hv. þm. sé meira en lítið ruglaður í kollinum ef hann man ekki að þetta mál var aldrei flutt af vinstri stjórninni, heldur var það flutt af núv. stjórn, af núv. iðnrh. (Gripið fram í: Hver undirbjó það?) Það var að sjálfsögðu undirbúið af stóriðjunefndinni og síðar tekin ákvörðun um það í núv. stjórn hvort málið skyldi flutt.

Það er sem sagt rangminni ef einhverjir alþm. ímynda sér að þetta mál hafi verið flutt hér í þinginu í tíð vinstri stjórnarinnar. Ég get upplýst að lokum, vegna þess að minni ýmissa hv. þm. virðist eitthvað vera farið að ryðga, að Alþb. tók ekki afstöðu til þessa máls, taldi sig ekki fært að taka endanlega afstöðu til málsins fyrr en allar staðreyndir þess lægju skýrt og ljóslega fyrir, og það var ekki fyrr en haustið 1974. Þá tók Alþb. afstöðu til þessa máls, það var á landsfundi Alþb. sem haldinn var í nóv. 1974, og sú afstaða var neikvæð. Menn töldu að enda þótt ýmis rök hefðu verið færð fram fyrir gildi þess að byggja slíka verksmiðju, þá væru ókostirnir meiri, vægju þyngra, og þar við bættist að á haustinu 1974 voru aðstæður orðnar með nokkuð öðrum hætti en þær höfðu verið einu ári áður, fyrst og fremst vegna tilkomu olíukreppunnar og með hliðsjón af mörgum öðrum staðreyndum. Menn töldu að það væri ekki fjárhagslega hyggilegt að ráðast í byggingu þessarar verksmiðju, að íslendingar hefðu annað við sitt fjármagn að gera heldur en að eyða því í byggingu þessarar verksmiðju, og í öðru lagi að á komandi árum mundi vera óhagkvæmt að selja orku til þessarar verksmiðju á svo lágu verði eins og virtist vera að orkuverðið yrði og reyndar hefur komið á daginn.

Þetta vildi ég sem sagt upplýsa hér alveg skýrt og greinilega, þannig að menn séu ekki að fara með órökstuddar dylgjur um afstöðu Alþb. til þessa máls. Alþb. tók aldrei afstöðu til þessa máls fyrr en haustið 1974, og þá var sú niðurstaða neikvæð. Hitt er allt annað mál, að í tíð vinstri stjórnarinnar var þetta mál til undirbúnings og í athugun hjá ákveðinni n. sem starfaði og starfar á vegum iðnrn. og ber nafnið stóriðjunefnd.