03.02.1976
Sameinað þing: 46. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 1690 í B-deild Alþingistíðinda. (1413)

Skyrsla forsrh. um viðræður við breta um fiskveiðideiluna og umr. um hana (útvarpsumr.)

Lúðvík Jósepsson:

Herra forseti. Þá hefur hæstv. forsrh. loksins flutt Alþ. skýrslu um viðræður sínar í London við breska ráðh. og sérfræðinga þeirra um landhelgismálið. Sjö sólarhringar eru liðnir síðan forsrh. kom heim úr þessari ferð og um ellefu sólarhringar síðan hann lagði upp í förina. Þessa ellefu daga hefur svonefnt vopnahlé átt að gilda á fiskimiðunum. Mestan hluta þess tíma hafa breskir togarar stundað hér veiðar, suma dagana að fullu, aðra með talsverðum frátöfum. Varðskip okkar hafa fylgst með bresku togurunum og skipað þeim að hífa upp veiðarfæri sín annað slagið, en með tveimur undantekningum hefur klippunum ekki verið beitt. Í sjö sólarhringa frá því að forsrh. kom heim hefur málinu verið haldið leyndu fyrir þjóðinni og þm. hafa aðeins fengið óljósar fréttir af því sem gerðist á fundum forsrh. í London.

Alla þessa málsmeðferð verður að vita harðlega. Auðvitað er allt pukur með landhelgismálið af þessu tagi forkastanlegt með öllu og tilgangurinn getur ekki verið neinn annar en sá, að reyna að koma á samningum í andstöðu við vilja almennings og án þess að almenningur fái tækifæri til þess að láta í ljós afstöðu sína.

Þegar hæstv. forsrh. ákvað að taka boði forsrh. Bretlands um að koma til Lundúna til viðræðna um landhelgismálið, þá lýstum við Alþb.-menn því yfir, að við værum mótfallnir því að boðinu yrði tekið. Ástæður fyrir þessari afstöðu okkar voru aðallega þrjár:

Í fyrsta lagi bentum við á að við teldum að aðstæður til samninga um fiskveiðiheimildir til handa bretum í íslenskri fiskveiðilandhelgi væru í rauninni engar, hér væri ekki um neitt að semja, og við lögðum áherslu á að þetta ætti að segja hretum hreinskilnislega og umbúðalaust.

Í öðru lagi bentum við á að boðið til forsrh. væri gert á röngum eða fölskum forsendum og af því væri ekki hægt að taka þessu boði. Það, sem við áttum við með þessu, var það, að fram hefur komið skýrt í boðinu frá forsrh. Bretlands til forsrh. Íslands að boðið sé fram sett vegna ummæla dr. Luns, en í þessu boði stóð skýrum orðum að hann hefði túlkað það sem persónulegt álit sitt að ekki yrði hreyft við togurum breta í íslenskri fiskveiðilandhelgi á meðan á þessum viðræðum stæði. Og síðan stóð í boðinu til forsrh.: „Í þeirri vissu, að slíkt vopnahlé mundi stuðla að því að skapa grundvöll að árangursríkum samningaviðræðum, er mér ánægja“ o. s. frv. Í þriðja lagi bentum við á að hér væri í raun og veru ekki um neinar könnunarviðræður að ræða, heldur væri hér stefnt að því að koma á samningum. Nú liggur fyrir að hér var ekki aðeins um að ræða viðræður forsrh. tveggja. Af Íslands hálfu var á ferðinni 11 manna sendilið og af hálfu breta mættu í víðræðunum 13 manna lið og þar af 3 ráðh., enda var málið tekið fyrir á þeim grundvelli að ef samkomulag hefði getað orðið, þá var verið að búa til grundvöll að nýjum samningi.

Nú hefur hæstv. forsrh. gert hér grein fyrir því, hvað fram kom á fundunum í London. Og hvað er þá aðalatriði þess sem fram kom á þessum fundum? Í fyrsta lagi er það ljóst, að bretar hafa sýnt áfram ótrúlega kröfuhörku í málinu og óbilgirni. Þeir viðurkenna ekki forgagnsrétt íslendinga til fiskveiða hér við land nema aðeins í orði. Um leið og komið er að kjarna málsins, hvernig eigi að framkvæma þennan forgangsrétt, þá víkja þeir sér undan og telja sig hafa jafnan rétt og íslendingar. Þeir gera kröfu um það að þeir fái um 30% af þeim þorskafla sem heimilað verði að veiða hér við land. Þessi tala, 30%, kemur orðrétt fram í þeirri skýrslu sem lögð hefur verið fram af fundarriturum sem skráðu fundargerðir þessara funda, eða með nánari túlkun, eins og kom fram hjá hæstv. forsrh., er krafa breta sú, að þeir fái að veiða hér á þessu ári 85 þús. tonn af fiski, þar af 65–75 þús. tonn af þorski. Þá kemur það einnig fram að bretar telja lágmarkssamningstíma vera tvö ár, en gera kröfur um lengri tíma. Það kemur einnig fram að sjónarmið breta í viðræðunum hefur verið það, að þeir ætlist til þess að halda áfram fiskveiðirétti hér við Ísland að afloknu þessu hugsanlega tveggja ára samkomulagstímabili, og það er mjög alvarlegt mál. Þá kemur einnig fram í grg. um þessar viðræður að bresku ráðh, höfðu uppi hótanir um að senda herskip aftur inn í íslenska fiskveiðilandhelgi og segja berum orðum að þeir muni fiska enn þá meira ef ekki verði af samningum, þá muni þeir taka hér 120 þús. tonn af þorski á ári eða jafnvel meira. Það er skoðun mín að undir slíkum hótunum eigi ekki að sitja og það eigi ekki að ræða um samninga við þá aðila sem beita slíkum vinnubrögðum. Þá kemur einnig fram að bretar eru á allt annarri skoðun en íslendingar um nauðsynlegar friðunaraðgerðir.

Þetta er megininntakið í því sem fram kom í samningaviðræðunum í London. Ég tel að út frá þessu hafi ekki verið nein ástæða til þess að draga málið á langinn, skýra ekki íslensku þjóðinni frá því, hverjar voru skoðanir breta í málinu, hverjar voru þeirra kröfur. Og hvers vegna höfum við í rauninni beðið allan þennan tíma?

Nú hefur hæstv. ríkisstj. tekið þá ákvörðun að tilkynna bretum að hún geti ekki fallist á þann grundvöll til samkomulags sem þeir lögðu til. En jafnhliða hefur ríkisstj. gert bresku ríkisstj. nýtt tilboð. Það tilboð er um samkomulag til stutts tíma, nánar tiltekið til þriggja mánaða, eða íslenska ríkisstj. hún býður til umræðna um þessa till. Hvað felst í þessu tilboði af íslendinga hálfu? Auðvitað geta bretar samþykkt þriggja mánaða samkomulag ef þeir fá að beita hér nægilega mörgum skipum, ef þeir fá þau fiskveiðisvæði sem þeir sækjast eftir og ef þeir mega taka það aflamagn sem þeir vilja fá.

Af hálfu ríkisstj. hefur ekkert komið fram um það, hvað hún hugsar sér í þessum efnum. En vitanlega geta bretar samþ. tilboð af þessu tagi vegna þess að það er um að taka upp viðræður um þetta efni. Þá kemur upp spurningin: Hvernig á að standa að framkvæmd íslensku landhelgisgæslunnar á meðan? Á að halda áfram sams konar ástandi á fiskimiðunum og verið hefur s. l. 11 daga, heimila bretum að veiða meira eða minna á meðan þeir segjast vera að íhuga hið nýja tilboð íslensku ríkisstj. og einnig kannske á meðan þeir halda áfram viðræðum við okkur um þessa hugsanlegu leið? Það hefur ekki fengist neitt svar við því, hvað hæstv. ríkisstj. hugsar sér í þessum efnum um landhelgisgæsluna, ekki annað en það, að hún telur að bretar hafi ekki haft mjög góða aðstöðu að undanförnu til þess að halda uppi fiskveiðum.

En hver á þá okkar stefna íslendinga að vera í landhelgismálinu eins og komið er? Við eigum að marka þá afstöðu okkar skýrt og greinilega, að við teljum að samningar við breta geti ekki komið til greina eins og ástatt er. Við eigum að koma okkur saman um nýja áróðurssókn af okkar hálfu í málinu til þess að sýna öllum þjóðum fram á óbilgirni breta og nauðsyn okkar á því sem við erum að gera. Ef herskipin verða á nýjan leik send inn í íslenska fiskveiðilögsögu, þá hljótum við að slíta stjórnmálasambandi við Bretland og þá hljótum við að beita öllum þeim ráðum sem við getum beitt til þess að koma þeim út úr fiskveiðilögsögunni á nýjan leik. Við hljótum að taka fullt tillit til þess að við erum í NATO og eðli þess átti að vera að forða okkur frá árás annarra ríkja. Við hljótum einnig að taka tillit til þess, að það er í gildi varnarsamningur á milli Íslands og Bandaríkjanna. Og taki þessir aðilar ekkert tillit til þess, um hvað hefur verið samið, þá hljótum við að loka NATO-stöðinni hér á landi og tilkynna þeim að við munum a. m. k. taka til íhugunar áframhaldandi veru okkar í NATO. Ég hef sagt það og segi það enn: Ég er ekki í neinum vafa um að ef við tilkynnum bretum þetta, þá muni freigáturnar verða dregnar út fyrir 200 mílna mörkin aftur. Þessu vopni eigum við að beita. En að öðrum kosti eigum við að halda áfram okkar baráttu, efla okkar landhelgisgæslu, gera ráðstafanir til þess að kaupa til landsins eða taka á leigu hraðskreitt varðskip sem getur klippt veiðarfærin frá bresku togurunum þó að freigáturnar séu hér á miðunum. Og við eigum að reyna að efla samstöðu þjóðarinnar um það meginverkefni að landhelgin verði okkar eign.

Í þessum efnum hljótum við að hafa í huga hver er raunverulega aðstaða breta. Aðstaða breta er veik í málinu. Þeir vita að á næsta leiti eru fundir Hafréttarráðstefnunnar, þeir byrja eftir rúman mánuð. Á þeim fundum munu bretar halda fram að þeir styðji 200 mílna lögsöguregluna. Þeir eru ekki ánægðir með að á það sé bent að þeir standi í herskipaframkvæmdum á Íslandsmiðum gegn þessari reglu á sama tíma og þeir gera kröfu um að þessi regla sé viðurkennd sem alþjóðalög. Við viljum það líka að í Bretlandi fer mjög vaxandi andstaða gegn stefnu bresku ríkisstj. í þessu máli. Við vitum það líka að sjómenn þeirra á fiskimiðunum eru mjög órólegir með aðstöðu sína og vilja ekki halda áfram veiðum — ekki einu sinni undir herskipavernd — nema stuttan tíma. Þeir hafa gert það vegna þess að þeim er tjáð að íslendingar muni koma að samningaborðinu tiltölulega fljótlega. Við vitum líka að Bandaríkjaþing er búið að samþ. eða mun samþ. útfærslu á fiskveiðilandhelginni þar og hún gengur í gildi eftir tæplega 11/2 ár. Allt þetta gerir það að verkum að aðstaða breta er veik, aðstaða okkar fer batnandi.

Það er höfuðatriði í þessum máli að álit okkar alþb.-manna að takast megi samstaða, sterk samstaða allra landsmanna um afmarkaða og skýra stefnu í landhelgismálinu eins og nú er komið.

Hér er umræðutími mjög takmarkaður. Ég vil því að lokum segja þetta um afstöðu okkar alþb.-manna í landhelgismálinu, eins og málið stendur nú :

Við viljum að sú stefna verði mörkuð skýrt að um enga samninga við breta geti orðið að ræða um fiskveiðar í íslensku fiskveiðilandhelginni, einfaldlega af þeirri ástæðu að um ekkert er að semja þar sem við verðum sjálfir að draga úr okkar veiðum vegna ástands fiskstofnanna.

Við alþb.-menn erum reiðubúnir til samstarfs við aðra flokka um að efla landhelgisgæsluna og um aðrar ráðstafanir til þess að þjóðin geti haldið út í deilunni við breta. Við teljum að allt beri að gera til þess að þjóðin geti staðið saman í landhelgismálinu og í hörðum átökum fram undan í því máli og nái því marki sínu að vinna fullan sigur.