03.02.1976
Sameinað þing: 46. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 1693 í B-deild Alþingistíðinda. (1414)

Skyrsla forsrh. um viðræður við breta um fiskveiðideiluna og umr. um hana (útvarpsumr.)

Utanrrh. (Einar Ágústsson) :

Herra forseti. Ég skal nú ekki syndga upp á náðina með ræðutímann og reyna meira að segja að tala fremur skemur heldur en lengur en leyft er.

Ég get vísað að miklu leyti til ræðu hæstv. forsrh. um efni þess svars sem ríkisstj. hefur nú ákveðið og er raunar búin að senda forsrh. breta. Ég vil segja það, að afstaða Framsfl. til þessa máls er í samræmi við það svar. Öll ríkisstj. og að ég hygg allir stuðningsmenn hennar á hv. Alþ. standa að þessu svari.

Þetta svar er í tvennu lagi, eins og menn hafa heyrt. Annars vegar er þar um að ræða algjöra neitun á þeim uppástungum sem bretar hafa gert, enda eru þær, svo sem lýst hefur verið, algjörlega óaðgengilegar. Þær eru svo óaðgengilegar að bretar fara fram á meira að segja meiri afla en þau 65 þús. tonn sem ég leyfði mér með samþykki ríkisstj. að nefna í síðustu viðræðum sem haldnar voru hér í Reykjavík, með ýmsum skilyrðum, svo sem þeim að full viðurkenning breta á fiskveiðilögsögu okkar í 200 mílur kæmi þar á móti.

Þeir hafa sem sagt ekki lært það enn, bretar, hversu ástandið á miðunum hvað þorskinn snertir er alvarlegt, og meðan svo er er að sjálfsögðu ekki hægt að tala við þá um þær hugmyndir sem hér hafa verið nefndar og þeir settu fram í viðræðunum í London. Það skal að vísu játað, að þær eru nokkru lægri en þær hugmyndir sem Roy Hattersley aðstoðarutanríkisráðherra breta setti fram hér í Reykjavík í nóvembermánuði s. l., en engu að síður eiga bretar eftir að læra mikið, það er ljóst.

Það kemur ekki til nokkurra mála að íslendingar gangi nokkru sinni að því að fiskveiðar breta verði einhvers konar prósenta af því sem íslendingar veiða sjálfir og ekki heldur að tekið verði upp hér það kerfi sem kalla má kvótakerfi, að íslendingar ræði það við aðrar þjóðir hversu mikinn afla þeir taka af Íslandsmiðum, því verða þeir að ráða sjálfir. Til þess er útfærslan gerð og til þess höfum við ráðist í þau stórvirki, sem við höfum gert undanfarin 4 ár, að færa landhelgina út, fyrst í 50 sjómílur og síðan í 200 sjómílur.

Hitt atriðið í svari ríkisstj. er það, að bryddað er upp á þeirri hugmynd að gerður verði mjög stuttur samningur um takmarkað aflamagn. Þessi samningur er hugsaður að gilda lengst í 3 mánuði. Þessi uppástunga er gerð í samræmi við þá stefnu, sem ríkisstj. hefur túlkað frá upphafi og ekki einungis sú að ríkisstj., sem nú situr, heldur einnig sú ríkisstj., sem sat á undan henni, að við vildum ræða við alla þá sem við okkur vilja ræða um fiskveiðilögsöguna. Ég geri ráð fyrir að við fáum innan tíðar í heimsókn færeyinga og norðmenn til viðræðna, og við munum einnig taka á móti þeim og ræða við þá um það, hvort við getum látið þá hafa nokkuð af því takmarkaða fiskmagni sem við ráðum yfir á íslandsmiðum, en ljóst er að það gelur ekki heldur orðið mikið.

Í þessum stutta samningi, sem bryddað er upp á í svari ríkisstj., verður auðvitað að vera um verulega minnkun afla að ræða frá því sem bretar vildu fá í viðræðunum í London, enda hefur þeim tilmælum þegar verið hafnað, eins og ég áðan sagði. 65 þús. tonna tilboðið, sem tók til alls fisks, ekki einungis veiða á þorski, heldur einnig á öðrum fiski, sem mundi hafa þýtt um 50–55 þús. smálestir af þorski ef samþ. hefði verið, hefur verið dregið til baka og gildir ekki lengur, eins og margsinnis hefur verið tekið fram.

Ef gengið yrði að þessu tilboði eða uppástungu, þá er það auðvitað alveg ljóst, að við munum halda áfram að reyna að verja miðin með þeim ráðum sem við höfum tiltæk. Gæslu hefur verið haldið uppi, eins og allir vita, síðan hæstv. forsrh. fór til London, enda hefur á einni viku tvisvar sinnum verið klippt aftan úr breskum togurum, og ég hygg að það sé ekki undir meðallagi, þannig að allar getsakir og ásakanir á hendur ríkisstj. um það, að hún hafi samþ. eða gert einhvern leynisamning við breta um að halda einhvers konar vopnahlé á miðunum eru algjörlega úr lausu lofti gripnar og rangar. Það heftir verið haldið uppi gæslu allan tímann. Það hefur verið deilt um einn dag. Ég skal ekki segja hvernig það er, laugardaginn sem hæstv. forsrh. kom til London, en alla aðra daga fullyrði ég að gæsla hafi farið fram og breskir togarar hafi verið hindraðir í veiðum, og ég hygg að það muni vera mál manna að þeir hafi raunar sáralítið veitt þennan tíma sem þeir ekki hafa notið herskipaverndar. En það hefur hins vegar jafnframt sýnt sig, að þegar herskipin eru kölluð inn og þegar þau vernda veiðiþjófana, þá geta þeir veitt. Og það er einmitt sú staðreynd sem við verðum að hafa í huga jafnframt þegar við metum það hvernig við getum best varið íslensku fiskimiðin, því að það er aðaltilgangur okkar og markmið með þeim ráðstöfunum sem hér er verið að fjalla um, þ. e. að vernda þorskstofninn og fiskstofnana, en ekki með hvaða aðferðum það er gert. Og það er mín trú og ég segi það alveg óhikað, að ef við getum náð viðunandi samningum, þá verjum við þorskinn betur og fiskinn betur með samningum en án ef í harðbakkann slær.

Menn hafa hér mikla trú á Atlantshafsbandalaginu og þeir sem kannske ólíklegt væri að hefðu þá trú. En ég segi það, að bretar munu halda áfram að veiða hér undir herskipavernd ef við getum ekki náð samningum. Það er mín trú. Auðvitað getur hver haft sína skoðun fyrir mér á því, en ég hef þessa skoðun. Þess vegna er það sannfæring mín og hefur lengi verið, að ef við gætum náð viðunandi samningum, þá sé það betra en ófriður, því að ófriði fylgir mikil áhætta og ég veit ekki hvort við erum allir menn til að bera þá byrði sem gæti lagst á bak okkar ef svo óheppilega tækist til sem hugsanlegt er í þessu sambandi og ég þori ekki einu sinni að hugsa til enda.

Ágreiningurinn við að gera þennan stutta samning gæti því verið sá fyrst og fremst að forða frá áhættu, minnka veiðar, auk þess sem það er rétt, sem hv. 2. þm. Austurl. sagði, að Hafréttarráðstefnan er fram undan, línur á henni kunna að skýrast á þrem mánuðum. Þeim kafla hennar, sem byrjar í mars, verður að vísu ekki lokið 1. maí, það skal ég viðurkenna, en hann verður þó langt kominn, og það má vel vera að línur hafi þá skýrst þannig að málið liggi ljósar fyrir. Auk þess gera fiskimenn í Bretlandi, heimafiskimenn, sífellt háværari kröfur til ríkisstj. sinnar um að færa út fiskveiðilögsöguna í 200 sjómílur. Og það er ekki að vita nema bretar sjái að sér og skilji það, að vænlegast fyrir þá sjálfa fjárhagslega og í áliti umheimsins sé einmitt að hætta að áreita Íslendinga, leyfa þeim að lifa hér, en færa í staðinn út lögsöguna hjá sjálfum sér og útrýma þannig veiðum portúgala og annarra þjóða sem nú veiða á heimamiðum breskra fiskiskipa við strendur þess lands.

Ég held að við verðum þess vegna að skoða þetta mál mjög vel. Ég get ekki skilið þá óþolinmæði sem lýsir sér í því að menn gagnrýni svo mjög eins og gert hefur verið það að ríkisstj. tók sér viku — eina viku til þess að ákveða næsta skref í þessu mjög svo þýðingarmikla máli fyrir okkur. Mér finnst það ekki langur tími.

Það hefur verið talað um hulu yfir þessu máli. Það er rétt, að það varð samkomulag um að segja ekki frá því, hvernig viðræðurnar í London fóru fram, á hvorugum staðnum fyrr en ríkisstj. og þingflokkar höfðu athugað hvað í þeim fólst og gert sér grein fyrir hvernig því ætti að mæta. Hitt er svo annað mál, að þessi hula hefur ekki verið algjör eftir því sem mér skilst.

Ef freigáturnar koma hingað inn á ný, þá verðum við auðvitað að berjast og þá verðum við að athuga hvaða leiðir við höfum til þess að mæta óvini okkar, sem við þá hljótum að kalla, bretum. Og þá skal ég taka undir það, að m. a. koma til athugunar þær leiðir, sem hv. 2. þm. Austurl., Lúðvík Jósepsson, var að lýsa, enda ekki neitt nýtt í því, það er það sem allir hafa sagt hvað eftir annað þegar í hart hefur farið. En við þurfum auðvitað að athuga þessi skref vel, því að það er ekki endilega víst að okkar mesti ávinningur sé að standa aleinir og eiga hvergi aðstoðar að vænta.

Ég sagði, hæstv, forseti, að ég þyrfti ekki langan ræðutíma til þess að koma að sjónarmiði Framsfl., og ég skal standa við það með því að ljúka nú senn þessari stuttu ræðu. Ég endurtek það, að við höfum komist að þessari niðurstöðu sem felst í svari ríkisstj. Það hefur tekið okkur nokkurn tíma, ég skal viðurkenna það. En ég hygg að þjóðin muni ekki dæma okkur hart þó að við gefum okkur nokkra daga til þess að athuga það, hvaða skref séu líklegust til ávinnings fyrir Ísland í þessu þýðingarmesta máli þjóðarinnar.