03.02.1976
Sameinað þing: 46. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 1696 í B-deild Alþingistíðinda. (1415)

Skyrsla forsrh. um viðræður við breta um fiskveiðideiluna og umr. um hana (útvarpsumr.)

Benedikt Gröndal:

Herra forseti. Geir Hallgrímsson forsrh. hefur nú loksins flutt skýrslu um viðræður þær sem hann og sendinefnd, er honum fylgdi, áttu við Harold Wilson og breska ráðamenn í London. Yfir þessum viðræðum hefur hvílt óvenjulega mikil leynd, en athyglisvert er þó að það litla, sem lak út og fréttamiðlar sögðu frá, virðist hafa verið býsna nærri lagi.

Það kemur fram í frásögnum af þessum viðræðum að hinir bresku ráðh. hafa sýnt mikla óbilgirni og harla lítinn sveigjanleika, svo að ég noti það orð sem þeir sjálfir hafa svo oft beitt og fullyrt að þeir ætluðu sér að sýna. Þeir hafa í þessum viðræðum sýnt að þeir hafa furðulega lítinn skilning á eðli þessa máls og þýðingu þess fyrir íslendinga.

Það er óþarfi fyrir mig að rekja aftur meginatriðin sem fram komu, en þó verð ég að nefna örfá þeirra. Það var að sjálfsögðu lymskulegt af Wilson að skjóta inn hugmyndinni um prósentureglu. En um leið er það ánægjulegt, að fulltrúar okkar virðast hafa áttað sig á því strax að þessi hugmynd er stórhættuleg fyrir okkur og kemur ekki undir neinum kringumstæðum til mála. Þar að auki tel ég það vera hreina ósvífni að bretum skuli detta í hug að þeir geti fengið á þann hátt um 30% af þorskaflanum við Ísland. Þetta er hugsunarháttur sem er langt á eftir tímanum og við hljótum að undrast það að forsrh. Íslands sé boðið til London til þess að bjóða honum slíkar hugmyndir sem þessar. Ef fylgt væri einhvers konar magnreglu, ef ég má nota það orð, þá virðist svo sem bretar geti hugsað sér að ganga lengst til móts við okkur með því að sætta sig við 65–75 þú s. lestir af þorski og 20 þús. lestir af öðrum fiski, og fái þeir þá svæði sem nái allt inn að 15–20 mílum frá landi og samninga til tveggja ára.

Nú hafa fiskifræðingar okkar og þeirra deilt um það, hve mikið megi taka af þorski án þess að skerða þorskstofninn, og eru þeir með áætlanir á bilinu frá 230–300 þús. lestir. Það er alveg sama hvaða tölur þar eru teknar, hið breska tilboð er með öllu óaðgengilegt vegna þess að það útheimtir að við íslendingar skerðum verulega þorskafla okkar frá því sem nú er, en það getum við ekki undir neinum kringumstæðum gert. Það er líka furðulegt að bretar skuli tala í þessum dúr, á sama tíma sem þeir hafa með öðrum þjóðum gengið inn á það við Kanada, að bæði þeir og aðrar þjóðir, sem fiska við strendur Kanada Atlantshafsmegin, minnki afla sinn um 50%, en kanadamenn fái að halda óskertum þeim afla sem þeir hafa tekið. Hér er ólíkum kjörum saman að jafna, og er ég þó ekki að segja að við getum hugsað okkur að fallast á reglu svipaða þeirri kanadísku, því að aðstæður eru hér allt aðrar.

Forsrh. hefur skýrt frá þeirri ákvörðun sem ríkisstj. tók í gær um að hafna þessum hugmyndum eða þessu tilboði breta. Ég tel rétt að staðnæmast andartak við þessa ákvörðun, vegna þess að síðan í gær eru allir stjórnmálaflokkar á Alþ. sammála um það, að að slíkum kjörum getum við ekki gengið. Og eins og landhelgismálið hefur verið í höndum okkar nú undanfarnar víkur, þá er það nýr og ánægjulegur viðburður að við skulum þó um eitt veigamikið, þýðingarmikið grundvallaratriði, standa öll saman.

En hvað tekur þá við eftir að þessum tilboðum er hafnað? Ég tel að það væri ekki hyggilegt af okkur íslendingum að skera algerlega á allar viðræður og segja að það sé ekki um neitt að tala, enda þótt í raun og veru sé ekki um það að ræða að skipta þeim þorskafla sem við getum tekið, þá er af diplómatískum ástæðum að minni hyggju nauðsynlegt að halda samtölum áfram, vegna þess að margir erlendir aðilar, sem koma til með að hafa áhrif á gang þessara mála, t. d. á Hafréttarráðstefnunni, dæma aðrar þjóðir að verulegu leyti eftir diplómatískri framkomu og hafa allflestir takmarkaðar hugmyndir um það eða takmarkaðan skilning á því, hver okkar afstaða raunverulega er og á hverju hún byggist.

Ríkisstj. hefur ákveðið að gera bretum gagntilboð um að tala við þá um samninga til stutts tíma, þ. e. til rúmlega þriggja mánaða. Um efnisatriði slíkra viðræðna vitum við ekkert. Um það hefur ríkisstj. lítið sem ekkert sagt, kom þó örlítið fram í ræðum ráðh., en svo lítið að Alþfl. hefur allan fyrirvara um efni, þó að við teljum að það sé rétt „taktik“ af okkur að ræða við þá áfram og höggva ekki á samband hvað þetta snertir. Við skulum minnast þess, að eftir aðeins 6 vikur hefst Hafréttarráðstefnan aftur í New York. Það er heldur ólíklegt að bretar sendi herskipin gegn okkur aftur rétt fyrir ráðstefnuna eða meðan á henni stendur. Slík tíðindi mundu væntanlega hafa slæm áhrif fyrir þá á þessari ráðstefnu, og ég efast stórlega um að þeir mundu taka þá áhættu.

Afstaða bresku stjórnarinnar í dag er annars orðin ákaflega furðuleg. Öðrum megin stendur hún í þorskastríði við okkur um 200 mílna fiskveiðilögsögu við Ísland. Hinum megin stendur hún í því að fá félaga sína í Efnahagsbandalaginu til þess að gera 200 mílna fiskveiðilögsögu að stefnu bandalagsins, og eftir síðustu fréttum munu þeir vera langt komnir með það.

Í hádegisfréttum í dag tók ég eftir því, að þar var sagt, að það væri hugmynd manna í Brüssel að Efnahagsbandalagið gerði 200 mílur að stefnu sinni til þess að gæta hagsmuna sinna á þeim grundvelli á Hafréttarráðstefnunni. Hvað halda menn að þetta þýði? Við erum vön því að hrópa húrra og gleðjast í hvert skipti sem einhver ný þjóð bætist við og segir: Nú ætla ég að styðja 200 mílur. — En það er ekki allt gull sem glóir og við ættum að athuga stöðuna dálítið betur. Efnahagsbandalagsþjóðirnar hafa flestar, ef ekki allar, verið með þeim þjóðum sem hafa barist harðast á móti stækkaðri landhelgi og 200 mílunum. Og hví skyldu þær snúa við blaði nú allt í einu, nokkrum vikum fyrir Hafréttarráðstefnuna? Það er til þess að skapa sér aðstöðu til þess að koma fram á ráðstefnunni takmörkun á 200 mílunum, það er enginn vafi á því. Þær telja að þær hafi betri aðstöðu til þess að reyna að vinna fylgi till. sem muni takmarka 200 mílurnar ef þær eru í grundvallaratriðum búnar að fallast á þær. En þær hafa auðvitað séð fyrir löngu að það var ekkert annað fyrir þær að gera, því að baráttan gegn 200 mílunum er töpuð. Hvað skyldi það svo vera sem þær eru líklegar til að berjast fyrir á fundum Sameinuðu þjóðanna? Það er hugsanlegt að þær komi fram með hugmyndir um sögulegan rétt. Þær eru gamlar, við þekkjum þær hugmyndir vel, og þó að ekki hafi mikið verið talað um þær á þessum ráðstefnum hingað til, þá geta þær komið upp enn.

Það er auðfundið þegar skýrslurnar um viðræðurnar í London eru lesnar, að bresku ráðh. finnst í hjarta sínu að þeir hljóti að eiga rétt á því að fiska áfram hér, ekki bara í tvö ár, heldur áfram og um óákveðna framtíð, og þeim finnst það vera ákaflega nýstárleg hugmynd að íslendingar ætli sér einkarétt í 200 mílna landhelginni. Það er hugsanlegt að fram komi hugmyndir um að einhver alþjóðasamtök eigi að ákveða veiðikvóta fyrir aðrar þjóðir hjá strandríki. Sú hugmynd er ekki ný og íslenska sendinefndin lenti t. d. í rimmu við ísraelsmenn einmitt út af því atriði skömmu áður en síðustu fundum Hafréttarráðstefnunnar lauk. Þá yrði sennilega Norðaustur-Atlantshafsfiskveiðinefndin gerð að hinum alþjóðlega aðila, og við vitum hvers konar reynslu við höfum af henni. Enn þá er hugsanlegt að það verði gert að skyldu að strandríki veiti landluktum ríkjum eða hálflandluktum, eins og Þýskalandi og Belgíu og fleirum, veiðirétt innan 200 mílnanna til að bæta þeim það upp að þau geta ekki fært út neina landhelgi. Að lokum er hugsanlegt, og það yrði sennilega eitt af því versta sem fyrir okkur gæti komið, að sett verði inn í samningana ákvæði um gerðardóm. Ef mönnum líst illa á deilur eins og þorskastríðið er alls ekki fráleitt að það gæti fengið byr að láta alþjóðlegan gerðardóm skera úr slíkum deilum og það mundi setja okkur í ákaflega erfiða stöðu.

Ég tel, að þessi atriði á Hafréttarráðstefnunni, sem er fram undan eftir örfáar vikur, séu nú að verða einn alveigamesti þáttur landhelgismálsins. Ég tel að við megum ekki gera neitt sem stuðlar að því að auka líkur á að settar verði slíkar takmarkanir á 200 mílurnar. Við skulum íhuga fréttir sem berast utan úr heimi. Það er auðvitað ágætt að Bandaríkin og Mexíkó og fleiri ríki taki upp 200 mílna fiskveiðilögsögu. Við skulum ekki gleyma því samt, að svo að segja öll þessi ríki ætla sér að telja sjálfsagt að veita öðrum ríkjum fiskveiðiréttindi innan þessara 200 mílna. Við höfum sérstöðu að því leyti til, að við höfum engin áform um það. Efnahagsbandalagið hef ég nefnt, hvað fyrir því vakir með því að taka upp 200 mílna stefnuna.

Það fer mikið fyrir því í öllum fjölmiðlum, að okkur er sagt hversu gífurlega samúð við höfum og það sé alltaf að aukast stuðningur við málstað okkar. En við skulum trúa þessu varlega. Það er gott og blessað að við eigum talsmenn á kránum í London, en það er bara ekki það fólk sem ræður gangi þessara mála. Það eru stjórnvöld, sem skilja pólitíska pressu og pólitískar aðstæður, sem er við að eiga og munu ráða því, hvað fulltrúar hinna ýmsu þjóða munu gera í New York. Við skulum minnast þess, að þrátt fyrir alla samúðina hefur engin þjóð, ekki ein einasta þjóð, lyft litla fingri til að hjálpa okkur, nema það sem kann að hafa gerst bak við tjöldin í NATO, þar sem eitthvað hefur verið þrýst á bretana. Enda þótt tækist að koma málum okkar mjög vel fyrir á síðustu ráðstefnu og í því plaggi sem verður vinnuplagg er Hafréttarráðstefnan byrjar með nú um miðjan mars, þá er engan veginn víst að sú staða haldist, og það er rétt að minnast þess, að það er almenn skoðun manna þar að nú fyrst byrji alvarlegir samningar um einstök atriði, — nú fyrst byrji alvarlegir samningar.

Ég vil að lokum segja þetta: Við skulum fagna því að allir flokkar standa nú saman um að hafna þeim hugmyndum sem hér hafa komið fram og lagðar voru fram í London af hálfu breta. Ég legg áherslu á það, að næstu vikur eru afdrifaríkar, fyrst og fremst vegna Hafréttarráðstefnunnar, en auðvitað einnig varðandi það hvað gerist hjá okkur í samskiptum okkar við aðra og á sjálfum miðunum. Og hvað sem gerist á diplómatíska sviðinu og áróðurssviðinu þá eigum við að halda áfram að byggja upp landhelgisgæsluna og styrkja hana og beita henni eins og við framast sjáum ástæðu til hverju sinni. Ég tel að við verðum að gera okkur ljóst hversu alvarleg hættan á ráðstefnu Sameinuðu þjóðanna í raun og veru er, og við verðum að gæta þess að gera ekkert sem ýtir undir þá hættu. Það verður erfiðara við að eiga ef 2/3 hlutar þjóðanna þar, um 150 talsins, samþykkja einhverjar þær takmarkanir sem við getum ekki sætt okkur við. Þá eru alþjóðalög komin og verður erfitt fyrir okkur að standa einir gegn því.

Þegar á allt er litið hefur mikið áunnist í landhelgismáli okkar í þessari síðustu 200 mílna lotu. Lokamarkið er í sjónmáli. En það eru sker fram undan sem sigla verður fram hjá. Það gerum við aðeins með vandlega yfirveguðum aðgerðum og með sterkri og einlægri samstöðu hér heima fyrir. Ef þessi lokasigling tekst, þá hefur gæfan snúist í lið með okkur .og þá höfum við með 200 mílunum unnið stórvirki fyrir framtíð Íslands. Ég vona að það takist.