03.02.1976
Sameinað þing: 46. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 1700 í B-deild Alþingistíðinda. (1416)

Skyrsla forsrh. um viðræður við breta um fiskveiðideiluna og umr. um hana (útvarpsumr.)

Karvel Pálmason:

Herra forseti. Nú er lokið ótrúlega löngu og líklega á stundum ströngu þagnarstríði hæstv. forsrh. um efnislegar niðurstöður af þeim viðræðum sem hann átti við Harold Wilson og aðra breska ráðamenn í London fyrir rösklega viku. Það hefur að vonum verið talið óeðlilegt og átalið hversu mikil leynd hefur hvílt yfir því sem þarna hefur gerst, og ég hygg að margir aðrir en ég líti svo á, eftir að hafa heyrt niðurstöður þær sem fyrir liggja, að hér hafi ekki verið miklu að leyna af því sem fram kom af hálfu breskra ráðamanna í þessum viðræðum. Ég tek undir þær raddir sem hafa gagnrýnt það að það er vart sæmandi að halda slíkum hlutum leyndum um svo langan tíma sem raun ber vitni hér.

Hæstv. utanrrh. sagði áðan: Þetta er ekki langur tími. Þjóðin mun ekki dæma okkur hart fyrir að hafa tekið okkur þennan tíma til umhugsunar til þess að ákveða með hvaða hætti skyldi svara þeim hugmyndum eða tillögum sem fram komu af hálfu breta í þessum viðræðum. — Vel má vera að hæstv. utanrrh. verði að þessari ósk sinni, og í sjálfu sér get ég vel unnt honum þess. En ég tel þó að það hefði verið æskilegra allra hluta vegna að birta fyrr innihald þess sem þarna var og er um að ræða heldur en að halda þessu leyndu fyrir þjóðinni á aðra viku. Og það sem vekur kannske enn meiri furðu er að það skuli hafa tekið stjórnarflokkana heila viku að koma sér saman um að hafna þessum hugmyndum eða kröfum breta sem þeir settu fram í þessum viðræðum. Það er kannske enn óskiljanlegra að það skuli taka svo langan tíma að komast að samkomulagi um að hafna þessu.

Nú hefur ekkert farið á milli mála að allt frá því og raunar áður en sú ákvörðun var tekin að færa íslensku fiskveiðilögsöguna út í 200 mílur hefur þess berlega orðið vart að sterk áhrifaöfl innan stjórnarflokkanna hafa haft á því áhuga og talið á því nauðsyn að samningar yrðu gerðir og næðust við breta og aðrar þjóðir varðandi útfærslu fiskveiðilögsögunnar. Að mínu viti er það sem allt til þessa hefur komið í veg fyrir það, að stjórnarflokkarnir hafi þorað að ganga til beinna samninga eða gera samninga við breta í fiskveiðideilunni, — það sem fyrst og fremst hefur komið í veg fyrir að þetta hafi gerst, er almenningsálitið í landinu. Líklega hefur almenningsálitið sjaldan verið samstilltara og meira einróma en einmitt nú um að það sé í raun og veru ekki um að tala neina samninga við breta um veiðiheimildir hér í fiskveiðilögsögunni. Hversu velviljaðir sem einhverjir íslenskir aðilar vildu vera gagnvart bretum, þá er ljóst að ástand fiskstofna og efnahagslíf þjóðarinnar er með þeim hætti að það er um tómt mál að tala að gera neina samninga við breta í þessu máli.

Það er nokkuð ljóst, að markmið breta í þessum viðræðum, sem fóru fram, og raunar hefur verið ljóst áður, að markmið þeirra er í fyrsta lagi að tryggja sér rétt til veiða á Íslandsmiðum, ekki bara um tvö ár, heldur um margra ára bil. Slíkt kemur fram í skýrslu þeirri sem tekin verður saman af þessum viðræðum. Þetta er nr. eitt. Það virðist hafa komið breskum ráðh. á óvart þegar það kom fram hjá íslenskum aðilum að það væri hugsanlega í lengsta lagi hægt að tala um tvö ár. Sjálfur forsrh. Bretlands, Wilson, mun hafa verið á því undrandi að menn væru um það að tala að veiðiheimildir hugsanlegar til breta mundu alls ekki gilda lengur en til tveggja ára.

Í öðru lagi er það ljóst, að bretar viðurkenna ekki nema í orði og kannske varla það ákvörðunarrétt strandríkis til þess að ákvarða aflamagn. Þetta er ljóst, því að strax þegar farið er að tala um það hugsanlega aflamagn sem gæti verið um að semja, þá heimta þeir prósentu af því aflamagni sem sannarlega hefur verið undirstrikað hér að ekki er um að ræða að mínu viti af hálfu íslendinga að taka í mál.

Og nú í þessum viðræðum er í þriðja lagi krafa breta að þeir fái að veiða hér við land innan íslenskrar fiskveiðilögsögu 85 þús. tonn á ári. Og þeir sjálfir heimta tveggja ára samning, 85 þús. tonn bretum til handa næstu tvö árin og af því 65–75 þús. tonn af þorski, þ. e. a. s. um 30% af því sem talið er líklegt að heimilað verði að veiða, — 85 þús. tonn hugsanlega allt inn að 20 mílum innan fiskveiðilögsögunnar, þ. e. krafa um allt að 30 mílur inn fyrir það sem gamla 50 mílna línan var dregin. Ég var satt að segja að vona að almenningsálitið í landinu og þessar síðustu kröfur breta hefðu sannfært þá ráðandi menn á Íslandi, sem hingað til hafa verið vægast sagt mjög veikir fyrir því að semja við breta, — ég var að vona að þessar kröfur hefðu orðið þess valdandi að allir íslendingar væru nú um það sammála að ekki væri um það að ræða, hafandi í huga þessi síðustu viðbrögð breta, að um neitt væri að semja við þá aðila.

Auk þessa kemur það fram í skýrslu af þessum viðræðum, að breskir ráðamenn eru með hótanir um hernaðaraðgerðir ef íslendingar gangi ekki til samninga á þeim nótum sem bretar sjálfir vilja.

Þetta er í meginatriðum efnishlið þeirra viðræðna sem fram fóru í London fyrir rösklega viku. Ég er þeirrar skoðunar að það hefði ekki þurft að taka hæstv. ríkisstj. eða stjórnarflokka heila viku að koma sér saman um að hafna þessu. En þetta hygg ég að allir íslendingar, hvar í pólitískum flokki sem þeir standa, séu sammála um að ekki hafi komið til greina.

Hitt skal viðurkennt, að það er skiljanlegt að stjórnvöld þurfi einhvern tíma til þess að átta sig á því, hvaða skref eigi næst að stiga, að því gerðu að þessum kröfum — óbilgjörnu kröfum breta vægast sagt — var hafnað. Nú liggur það fyrir að hæstv. ríkisstj. hefur gert bretum tilboð um áframhaldandi viðræður um hugsanlega samninga til stutts tíma. Nánar er nefnt: þrír mánuðir. Ég sagði áðan að ég hefði talið að afstaða og framkoma breta í þessum síðustu viðræðum hefði átt að sannfæra alla íslendinga um að það er ekki um það að ræða að semja við þessa aðila. Hæstv. utanrrh. sagði áðan: Ég er meðmæltur því að gera samning ef við getum náð viðunandi samningum. — Hvað telja hæstv. ráðh., hæstv. utanrrh. og aðrir þeir sem telja að það eigi enn að þrautreyna samninga við breta, — hvað telja þeir viðunandi samkomulag? Á því hefur engin skilgreining verið gerð. Það hefur ekki fylgt þessu tilboði íslenskra stjórnvalda til breskra hvað hér væri í raun og veru um að ræða, innihald að hugsanlegu þriggja mánaða samkomulagi, skipafjöldi, veiðisvæði, aflamagn. Um þetta liggur engin vitneskja fyrir.

Það er haft eftir utanrrh. breta, Callaghan, að ef ekki verði gerður samningur við breta sem þeir uni, þá muni þeir taka hér á ársgrundvelli a. m. k. 120 þús. tonn. Hann er sem sagt töluvert lægri í tölunni um aflamagn á ársgrundvelli undir herskipavernd heldur en sumir hverjir hæstv. ráðh. í núv. ríkisstj. Þeir hafa nefnt töluna 200 þús. tonn hugsanleg sem bretar tækju við hliðstæðar aðstæður og þeir voru hér við veiðar áður en hið svokallaða vopnahlé var gert. Bretar sjálfir héldu því fram að þeir hefðu veitt milli 9 og 10 þús. tonn fyrsta mánuðinn eftir að samkomulagið frá 1973 gekk úr gildi. Þýðir þetta þriggja mánaða tilboð hæstv. ríkisstj. 30 þús. tonna afla á þessu þriggja mánaða tímabili? Eða hvað þýðir það? Við þessu þyrftu auðvitað að fást svör. Ríkisstj. hlýtur að hafa gert sér grein fyrir því, að hér er ekki einungis um það að ræða að bjóða samning til þriggja mánaða, án þess að hún hafi gert sér í hugarlund hvað annað yrði innifalið í slíkum hugsanlegum samningi.

Þetta liggur fyrir og er gert. Það er því ástæða til að hugleiða aðeins hvert framhald verður nú, hvert verður framhald eftir að hæstv. ríkisstj. hefur sent þetta tilboð til breskra stjórnvalda, hvað gerist á miðunum, menn spyrja um það. Verður áframhald vopnahlés, því að enginn mun andmæla því, að að hluta til a. m. k. hefur ríkt vopnahlé á miðunum frá því að hæstv. forsrh. fór til London? Fá bresk stjórnvöld næstu viku, hálfan mánuð til þess að hugleiða þetta tilboð hæstv. ríkisstj., og verður óformlegt vopnahlé á miðunum við Ísland á meðan? Ég held að það sé nauðsynlegt að einhver vitneskja liggi fyrir um slíkt. Þegar hæstv. forsrh. hélt til London voru gefnar yfirlýsingar um að áfram yrði haldið löggæslu innan fiskveiðilandhelginnar eins og verið hefði. Það kom í ljós síðar að yfirlýsingar annars ráðh. voru á aðra lund, og ég held að það sé nauðsynlegt að það liggi fyrir hvað hæstv. ríkisstj. ætlast fyrir í áframhaldi af því skrefi sem hún hefur nú tekið.

Ég vil taka undir það, sem hér hefur komið fram, að það er vissulega ánægjulegt út af fyrir sig að allir stjórnmálaflokkar í landinu hafa orðið um það sammála að kröfur breta í þessum síðustu viðræðum eru með þeim hætti að það er undir engum kringumstæðum hægt að ganga að þeim, það er undir engum kringumstæðum hægt að ræða við breta á grundvelli þeirra. Um þetta eru, að ég hygg, allir sammála, hvar í flokki sem þeir annars standa.

Herra forseti. Ég skal ljúka máli mínu, þar sem um það er talað að hafa a. m. k. hliðsjón af ákveðnum ræðutíma varðandi þessar umr. En ég vil að síðustu segja það, ítreka það, að ég var að vona að þessi síðustu viðbrögð breskra stjórnvalda gagnvart okkur íslendingum í landhelgismálinu mundu nægja og sannfæra ráðamenn á Íslandi á þann veg, að það væri sýnt að það væri ekki um neitt að ræða eða semja við breta úr því sem komið er.

Menn spyrja auðvitað: Hvert verður þá framhaldið í baráttunni fyrir okkar rétti? Og það er vissulega spurning sem ástæða er til að velta fyrir sér. Ég er um það sannfærður og ég vil láta það koma hér fram, — ég er um það sannfærður að ef þeirri einu réttu leið, sem ég tel vera, væri beitt, hún yrði farin, þá mundi ekki verða um það að ræða að bresk stjórnvöld mundu leyfa sér að halda uppi hernaðaraðgerðum innan íslenskrar fiskveiðilögsögu, þó svo að upp úr samningaviðræðum slitnaði. Sú leið er að mínu viti að gera þeim aðilum, sem tekið hafa á sig þá skyldu í samningum við íslensk stjórnvöld að verja landið, gera þeim aðilum, okkar samstarfsaðilum í NATO, sem eru bandaríkjamenn og hafa tekið þessa skyldu á herðar með samningi við stjórnvöld, — gera þeim grein fyrir því í fullri hreinskilni að ef þeir komi ekki í veg fyrir að slíkir atburðir gerist aftur af hálfu breta gagnvart aðildarþjóð í Atlantshafsbandalaginu, þá sé augljóst að íslenska þjóðin hljóti að taka til endurskoðunar mat sitt á því, hvort hún geti lengur verið í bandalagi með þjóð eða þjóðum sem halda uppi hernaðaraðgerðum gagnvart íslendingum í þessu lífshagsmunamáli.