04.02.1976
Sameinað þing: 46. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 1709 í B-deild Alþingistíðinda. (1420)

Skyrsla forsrh. um viðræður við breta um fiskveiðideiluna og umr. um hana (útvarpsumr.)

Ragnar Arnalds:

Herra forseti. Á fundi Sþ, í í gær gerði hæstv. forsrh. grein fyrir viðræðum sínum við forsrh. Bretlands um fiskveiðideilu breta og íslendinga. Hann gerði þar einnig grein fyrir þeim tilboðum sem fram hefðu komið af breta hálfu, — tilboðum sem voru þess eðlis að ríkisstj. þurfti eina viku til þess að hugsa sig um hvort hyggilegt væri að taka tilboðunum.

Við þær umræður, sem fram fóru í gær, kom ýmislegt athyglisvert fram, en enn þarf þó nokkru þar við að bæta.

Hvert var tilboð Wilsons forsrh. Bretlands? Í skýrslu, sem gefin var landhelgisnefnd og hv. utanrmn., er gerð grein fyrir því hvert það tilboð var sem Wilson gerði og má segja að gengið hafi lengst. Það var á þá leið, að íslendingar ákvæðu hámarksafla hér við land, og þá er fyrst og fremst átt við hámarksafla þorsks, og síðan fengju bretar 30% af þeim hámarksafla. Miðað við að hámarksaflinn sé skilgreindur sem 230 þús. tonn verða þetta 69 þús. tonn og miðað við að hámarksaflinn sé skilgreindur sem 240 þús. tonn verða þetta 72 þús. tonn. Nú munu að vísu hafa verið nefndar aðrar tölur í þessu sambandi, og í grg. sinni í gær mun hæstv. forsrh. hafa nefnt töluna 28%. Er mér ekki alveg ljóst hvernig hún er fengin því að hún kemur ekki fram í skýrslu forsrh. til utanrmn. og landhelgisnefndar, svo að þetta er svolítið ruglingslegt, en að sjálfsögðu skiptir þetta atriði ekki miklu máli. Það virðist ljóst að viðmiðunartölurnar eru eitthvað mismunandi og þar af leiðandi prósenttölurnar eitthvað mismunandi. Hér er verið að tala um þorskafla sem er einhvers staðar í kringum 70 þús. tonn, og þar til viðbótar kemur afli sem fólginn er í öðrum fisktegundum, þannig að talan er komin fast að 85 þús. tonnum þegar allt er talið, en það er einmitt sú tala sem Ríkisútvarpið nefndi upphaflega að fælist í þessu tilboði breta, en bretar neituðu fyrst í stað. Virðist hafa komið á daginn að sú tilgáta hafi verið rétt.

Þetta er sem sagt það tilboð sem bretar gáfu og má segja að nemi einhvers staðar í kringum 85 þús. tonn, — tilboð sem var þess eðlis að dómi hæstv. forsrh., að hann þurfti heila viku til þess að hugsa sig um hvort hann ætti að mæla með því við sinn flokk og flokkurinn að komast að niðurstöðu. Það er alveg ljóst af þessu, alveg ljóst af þeim gríðarlega langa tíma sem leið frá því að forsrh. kom heim og þar til svör hans lágu skýr fyrir, að hann hefur verið töluvert á báðum áttum, og það er bersýnilegt að það er fyrst þegar hæstv. dómsmrh. Ólafur Jóhannesson tekur af skarið og reynist ekki tilbúinn að samþ. þetta tilboð breta vegna mikils þrýstings sem hann verður var við úr ýmsum áttum, frá flokksmönnum sínum og frá landsmönnum flestum, að þá getur hæstv. forsrh. loksins komist að þeirri niðurstöðu, að tilboð breta sé óaðgengilegt. Síðan hafa allir flokkar lýst því yfir, að það hljóti að vera niðurstaðan, tilboðið sé óaðgengilegt, og sérstaklega hefur verið á það bent, að tilboð, sem feli í sér að bretar fái ákveðið hlutfall af heildaraflanum hér við land, sé fráleitt með öllu.

En nú er það stóra spurningin í þessu máli sem ég vil gera alveg sérstaklega að umtalsefni. Hvaða tilboð gerði hæstv. forsrh. sjálfur í London? Ég býst við að öllum hv. alþm. sé kunnugt um það, að forsrh. neitaði því fyrst í stað að hann hefði gert nokkurt tilboð í London. Hann hefur enga grein gert fyrir því opinberlega hver hafi verið hans málflutningur í London, fyrir utan almenn fiskifræðileg rök, og hefur gagnvart fjölmiðlum haldið fast við sinn fyrri framburð, að hann hafi engin tilboð gefið í London. Flestir munu þó telja mjög ólíklegt að þetta geti verið rétt, og flestir munu draga það í efa. Ég tel að það sé alveg óhjákvæmilegt, að það komi skýrt fram í þessum umr.hæstv. forsrh. gerði tilboð í London. Hæstv. forsrh. hefur gefið utanrmn. og landhelgisn. skriflega skýrslu um viðræðurnar í London. Upphaflega var innihald þessarar skýrslu trúnaðarmál og var það rökstutt með því, að stjórnarflokkarnir ættu eftir að taka afstöðu til þess sem fram hefði komið í London, og eins hinu, að það væri ekki viðkunnanlegt að birta hér á Íslandi grg. um viðræðurnar meðan bretar hefðu ekki gert slíkt hið sama og því væru það samantekin ráð, að þessi mál lægju í þagnargildi þar til þessi ríki hefðu næst haft samband sín í milli eða forsrh. fyrir þeirra hönd.

Nú hafa stjórnarflokkarnir tekið afstöðu í þessu máli. Forsrh. hefur svarað forsrh. Bretlands. Það er því ljóst að sá tími er liðinn að þessi skýrsla geti talist trúnaðarmál, enda hefur hæstv. forsrh. gert Alþ. grein fyrir meginefni þessarar skýrslu. Hitt er mergurinn málsins, að sú skýrsla, sem hann hefur gefið hér á hv. Alþ., er ekki alveg eins nákvæm og sú skýrsla, sem hann gaf utanrmn. og landhelgisnefnd, og þ. á m. er frásögnin um það tilboð sem hæstv. forsrh. gerði í London. Vil ég nú víkja að þessu tilboði.

Ég sé, að hæstv. forsrh. hefur brugðið sér frá, og verð eindregið að óska eftir því að hæstv. forseti geri ráðstafanir til þess að hann verði hér viðstaddur, þar sem málið snertir hann svo mjög að óhjákvæmilegt er að hann sé hér nærstaddur.

Það tilboð, sem hæstv. forsrh. virðist hafa gert í London, kemur fram á bls. 11 í þeirri skýrslu sem hann gaf utanrmn. og landhelgisnefnd, og með leyfi forseta hljóðaði það svo:

„Wilson spurði, hvort nú væri verið að ræða um að veiðum breta við Ísland væri lokið eftir tvö ár. Geir svaraði, að búist væri við að Hafréttarráðstefnan hefði lokið störfum á því tímabili og yrðu veiðar breta þá við Ísland á gagnkvæmisgrundvelli. Wilson sagði, að með því að skipta fyrirhugaðri aflalækkun til helminga milli landanna, eins og Geir Hallgrímsson hefði minnst á, mundu bretar einungis fá 53 þús. tonn á ársgrundvelli og væri það algjörlega óaðgengilegt af breta hálfu.“ — Ég les þessa setningu aftur: „Wilson sagði,“ þetta er það sem forsrh. skýrir utanrmn. og landhelgisnefnd frá, „að með því að skipta fyrirhugaðri aflalækkun til helminga milli landanna, eins og Geir Hallgrímsson hafði minnst á, mundu bretar einungis fá 53 þús. tonn á ársgrundvelli og væri það algjörlega óaðgengilegt af breta hálfu. Geir minnti á, að það væru aðrar tegundir en þorskur í sjónum við Ísland, en þorskur hefði undanfarið verið um 80% af afla breta af Íslandsmiðum og yrði í hugsanlegu samkomulagi að taka fram hversu mikið magn af þorski mætti veiða. Wilson kvaðst ekkert hafa á móti því að fá aðrar fisktegundir til viðbótar við þorskafla breta ef niðurskurður væri á prósentugrundvelli miðað við aflamagn, t. d. 1974 eða 1975. Geir sagði, að við gætum ekki samþykkt sömu prósentulækkun og vitnaði í forgangsrétt strandríkisins“ o. s. frv.

Ég les ekki þetta lengra, enda gerist þess ekki þörf. Hér kemur alveg skýrt og greinilega fram, að hér eru forsrh. að gera hvor öðrum tilboð. Í skýrslunni er það að vísu haft eftir Wilson hvert tilboð Geirs Hallgrímssonar hafi verið. En það er út af fyrir sig ekki lélegri vitnisburður um tilboð hæstv. forsrh. Geirs Hallgrímssonar, þar sem það er hæstv. forsrh. sjálfur, Geir Hallgrímsson, sem hefur þetta eftir Wilson.

Ég vek alveg sérstaklega athygli á því, ef menn kynnu kannske að vilja líta svo á að Wilson hafi mistúlkað eitthvað það, sem hæstv. forsrh. Geir Hallgrímsson hafi sagt í viðræðunum, og þannig megi skilja þessa setningu að hún sé ekki algjörlega rétt eftir hæstv. forsrh. höfð, að þá bendi ég á að setningin er alls ekki þannig orðuð að hún sé öll höfð eftir Wilson. Það er aðeins fyrri hluti setningarinnar sem hafður er eftir Wilson: „að með því að skipta fyrirhugaðri aflalækkun til helminga milli landanna“. Það er þetta sem er haft eftir Wilson, en framhaldið: „eins og Geir Hallgrímsson hafði minnst á“, er greinilega það sem skýrsluritari hefur til málanna að leggja. Ef ekki væri svo hefði hér verið þannig tekið til orða: „ eins og Geir Hallgrímsson hefði minnst á“. Ég vona að menn geri sér grein fyrir því, að viðtengingarhátturinn hefði þarna haft nokkra þýðingu, en hér um framsöguhátt að ræða, sem segir skýrt að hér sé einungis verið að segja það sem hæstv. forsrh. hafi boðið í viðræðunum.

Til frekari skýringar er rétt að benda hv. þm. á það, að sú hugmynd, sem hæstv. forsrh. virðist hér hafa varpað fram, er sama hugmyndin og hann gerði grein fyrir í umr. hér á Alþ. í gær, en þar sagði hann að ein sú hugmynd, sem fram hefði komið, væri sú að um jafna aflaminnkun væri að ræða af hálfu beggja þjóðanna. Þetta er nákvæmlega sama hugmyndin. Hann gerði reyndar enn gleggri grein fyrir henni hér í gær með því að segja, að ef miðað væri við að þjóðirnar hefðu veitt mest 340 þús. tonn, en hámarksaflinn yrði ákveðinn 265 þús. tonn og 20 þús. tonn væru ætluð öðrum þjóðum, þá kæmi þarna út mismunur sem næmi 95 þús. tonnum. Það væri sá afli sem þessar tvær þjóðir yrðu að skera niður sameiginlega og kæmu því 47 500 tonn í hlut hvorrar þjóðar. Miðað við það að bretar veiddu 100 þús. tonn á s. l. ári kemur út talan 52 500 eða nákvæmlega sama talan og hér er sögð eftir Geir Hallgrímssyni. Það er rétt að gera einnig grein fyrir því, að þetta er sá útreikningur sem kemur mjög berlega fram í einu af þeim fskj. sem fylgja skýrslu hæstv. forsrh. til landhelgisnefndar og utanrmn.

Sem sagt, ég tel að enda þótt allir hv. alþm. hafi ekki fengið þessa skýrslu í hendur þá hafi ég gert nægilega grein fyrir því hér, að skv. þessari skýrslu hefur hæstv. forsrh. gert bretum tilboð um að þeir mættu veiða á einu ári 53 þús. tonn af þorski, og miðað við það, að alltaf hefur verið gengið út frá því a. m. k. fimmtungi meira slæddist af öðrum fisktegundum en þorski, þá væri hér um að ræða u. þ. b. 65 þús. tonna afla, sem verið er að tala um, jafnvel meira, 65–68 þús. tonna afla.

Nú er rétt að rifja það hér upp, að hæstv. forsrh. lýsti því yfir í lok s. l. árs, eð tilboðið um 65 þús. tonn til handa breskum veiðiskipum hefði verið dregið til baka. Seinast í gær lýsti hæstv. utanrrh. Einar Ágústsson yfir að 65 þús. tonna tilboðið hefði verið tekið til baka. Samt liggur það á borðinu að þetta sama tilboð hefur verið gert í viðræðunum við breta.

Ég held því að ekki sé vanþörf á því að hæstv. forsrh. bæti úr þeim upplýsingaskorti, sem hér er greinilega á ferðinni, og hann geri hv. alþm. nánari grein fyrir því, hvað hann hefur boðið í London, og ræði þá þessi mál af fyllstu hreinskilni.

Ég tel að það hljóti að koma í hlut fleiri aðila að gera grein fyrir afstöðu sinni til þessa tilboðs hæstv. forsrh. Geirs Hallgrímssonar. Ég vil eindregið mælast til þess við hæstv. dómsmrh. Ólaf Jóhannesson, að hann skýrði hv. alþm. frá því, hvort hann hafi vitað fyrir fram um að hæstv. forsrh. mundi gera þetta tilboð, sem ég hef hér gert grein fyrir, og hvort hann hafi þá verið samþykkur því að þetta tilboð væri gefið. Ég vil einnig spyrja hæstv. utanrrh. að því, hvort hann hafi vitað fyrir fram um, að þetta tilboð yrði gefið í þessum samningaviðræðum, og hvort hann hafi verið því samþykkur, vegna þess að þau orð, sem hann lét falla í umr. í gær, gengu í þveröfuga átt, eins og menn munu minnast, — þveröfuga átt.

Ég vænti þess fastlega að öðrum þm, en hæstv. forsrh. sé ljóst að það tilboð, sem hann gerði í samningaviðræðunum í London, var ekki síður fráleitt en það tilboð sem Wilson gerði og hér hefur verið hafnað. Þetta tilboð gerir sem sagt ráð fyrir því að við íslendingar og bretar skerum niður aflamagn okkar um jafnmikið magn. Við, sem veiðum 230 þús. tonn á ári, eigum að skera okkar afla niður um 47 500 tonn. Með þessu tilboði erum við sem sagt að bjóða það fram, að gerður verði samningur sem skuldbindi okkur sjálfa um að skera niður aflamagn okkar að ákveðnu marki.

Ég vona að sem flestum hv. þm. sé ljóst að það er ekki nema ein regla sem hægt er að hafa til viðmiðunar í sambandi við veiðar hér við land, þ. e. kanadiska reglan. Það er sú eina regla sem við getum og megum samþ., — sú regla að strandríkið hafi forgangsrétt, að strandríkið fái fyrst aflaþörf sinni fullnægt og þá a. m. k. því aflamagni sem viðkomandi strandríki hefur veitt á undanförnum árum, en sé þá eitthvað til skiptanna, þá komi erlend ríki fyrst til greina þegar þörf strandríkisins hefur verið fullnægt. Þetta er sú eina regla, sem við megum samþ. Og það vill ósköp einfaldlega svo til, að hér á Íslandi leiðir þessi regla til þess að erlendar þjóðþjóðir fái engan afla hér við land. Það er einmitt af þessari ástæðu sem við alþb.- menn og reyndar stjórnarandstöðuflokkarnir allir höfum tekið þá afstöðu að samningar við erlend ríki eigi engan rétt á sér. Þessa reglu verðum við að leggja höfuðáherslu á, og við verðum að gera allt sem í okkar valdi stendur til að innræta hana með öðrum þjóðum, öðrum ríkjum.

Ég lít svo á að landhelgisdeilan sé ekki fyrst og fremst spursmál um það hvort íslendingar eða bretar veiða nokkrum tugum þús. tonna meira eða minna hér við land. Ég tel að það atriði, sem öllu skiptir í landhelgisdeilunni, sé hvaða fordæmi við sköpum í sambandi við frekari þróun þessa máls á alþjóðavettvangi og hvort við erum að búa í haginn fyrir framtíðina eða að eyðileggja fyrir okkur hvað framtíðina snertir. Ég tel að það skipti sem sagt öllu máli hvort við stöndum við þann málstað, sem við erum að berjast fyrir á alþjóðlegu Hafréttarráðstefnunni, eða hvort við ætlum að svíkja samstarfsríki okkar þar. Ég tel að okkur beri skylda til að heyja þessa baráttu af fullri hörku og með öllum þeim vopnum sem við höfum yfir að ráða, án þess að svíkja okkar eigin málstað og málstað þeirra ríkja sem eins og við eiga lífshagsmuni sína undir því komna að á Hafréttarráðstefnunni verði ekki það ofan á að fiskiflotar stórveldanna haldi rétti sínum til að veiða á þeim svæðum þar sem þeir hafa veitt á undanförnum áratugum.

Hæstv. forsrh. ræddi í gær um þau úrræði sem við íslendingar gætum hugsanlega gripið til, og hann minntist í því sambandi á þær kröfur sem fram hafa verið bornar um lokun herstöðvarinnar í Keflavík og úrsögn Íslands úr NATO. Hæstv. forsrh. leist ekki sérlega vel á þær kröfur. Í því sambandi veittist hann sérstaklega að okkur alþb.-mönnum og undraðist að við skyldum leyfa okkur að tengja saman þessi tvö mál, landhelgismálið og herstöðvamálið, þar sem við hefðum alltaf verið eindregnir andstæðingar herstöðvanna hér á landi og eindregið fylgjandi því að herinn færi hið fyrsta úr landi, hvað svo sem öðrum málum líði.

Það, sem við alþb.-menn höfum sagt í þessu sambandi, er að sjálfsögðu að herinn eigi að fara, það sé ekkert gagn að herstöðvunum hér, en þeim fylgi margvísleg spilling, margvíslegt tjón fyrir íslenskt þjóðlíf og að það sé vansæmandi fyrir íslendinga sem sjálfstæða þjóð að hafa erlendan her í landinu. Við bætum því hins vegar við, að atburðirnir, sem gerst hafa í landhelgismálinu, hafa sýnt okkur og sannað það, sem við höfum löngum haldið fram, eð það sé ekkert gagn í þessum erlenda her. Við teljum að landhelgismálið sé, ef svo mætti segja, lokasönnunin fyrir þá sem hafa kannske verið tregir til að skilja eðli þessa máls. Þess vegna er það krafa okkar einmitt í eðlilegu framhaldi af landhelgismálinu ítrekuð krafa að sjálfsögðu, að menn komi sér saman um að loka herstöðvunum hér á landi, ekki aðeins að hóta því að loka herstöðvunum, heldur að loka þeim fyrir fullt og allt. Það er okkar afstaða. Ég veit vel að fram hafa komið kröfur um að við ættum að láta herinn fara. Það er krafa sem blað okker, Þjóðviljinn, hefur að sjálfsögðu vakið athygli á og talið gleðilegan vott þess að menn væru kannske að öðlast ofurlítinn skilning á eðli þessara svokölluðu varna hér á landi. En það þýðir ekki að við höfum orðað kröfur okkar á þennan veg. Okkar krafa er alveg hrein og klár: að herinn og herstöðvarnar víki af landinu og menn dragi réttar ályktanir af því sem hefur verið að gerast undanfarnar vikur og undanfarna mánuði. Um leið teljum við að brottför hersins og lokun herstöðvanna væri alvarleg áminning til Atlantshafsbandalagsins og henni mætti gjarnan fylgja hótun um úrsögn úr Atlantshafsbandalaginu, hótun sem yrði að veruleikra ef ekki yrði nein breyting á afstöðu NATO-ríkjanna og þá einkum NATO-ríkisins Bretlands til íslendinga.

Ég vil svo að lokum aðeins segja það eitt um það tilboð, sem seinast hefur verið gert til breta, að mér sýnist ekki að það sé ýkjamiklu álitlegra en þau tilboð sem áður hafa verið gerð af hálfu íslensku ríkisstj. Ég lít svo á að íslendingar hafi ekki þörf fyrir að gera samkomulag við breta, en aftur á móti séu bretar í mjög brýnni þörf — mjög brýnni innri þörf að fá þetta mál út úr heiminum. Það er enginn vafi á því að forsrh. breta, Wilson, á í mjög ört vaxandi erfiðleikum með þetta mál og að almenningsálitið í Bretlandi er hægt og þétt að snúast okkur í vil. Ég er því ekki í nokkrum vafa um það, að vopnahlé í þrjá mánuði hér á miðunum er fyrst og fremst bretum í hag. Vetrartíminn, sem nú stendur sem hæst, er mjög erfiður fyrir breta. Ég tel því að það sé raunverulega að losa breta úr mestu klemmunni, bjarga þeim yfir erfiðasta tímann með því einmitt að gera núna bráðabirgðasamkomulag til þriggja mánaða og reyndar sé þá hætt við að sá samningur, sem væntanlega fylgdi í kjölfar bráðabirgðasamkomulagsins, yrði varla betri eftir að bretar væru sloppnir úr mestu klemmunni. Ég er ansi hræddur um að bráðabirgðasamkomulag við breta sé yfirlýsing af hálfu íslensku ríkisstj. að hún sé tilbúin að veita þeim undanþáguheimildir á Íslandsmiðum á næstu árum.

Það, sem mest ríður á að erlendar þjóðir skilji, er að veiðum þeirra hér á Íslandsmiðum verður að ljúka. Því fyrr sem þær skilja þetta, því betra. Eina leiðin til þess að koma þeim í skilning um þetta atriði er að segja við erlend ríki í eitt skipti fyrir öll: Það verða engir samningar gerðir. — Það má vel vera að það taki sinn tíma að koma öðrum þjóðum í skilning um þetta og að þeim takist að kroppa upp á Íslandsmiðum nokkurn afla, en þá verður að hafa það. Aðalatriðið er að við gerum allt, sem í okkar valdi stendur, til þess að koma þeim í skilning um þetta meginatriði landhelgismálsins með því að hafna öllum frekari samningum. Þessi stefna er um leið nauðsynleg til þess að styrkja þá stefnu á alþjóðlegu Hafréttarráðstefnunni, að strandríki eigi að hafa algjöran forgang í 200 mílna lögsögu sinni.