04.02.1976
Sameinað þing: 46. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 1715 í B-deild Alþingistíðinda. (1421)

Skyrsla forsrh. um viðræður við breta um fiskveiðideiluna og umr. um hana (útvarpsumr.)

Forsrh. (Geir Hallgrímsson):

Herra forseti. Ég vil ekki láta hjá líða að leiðrétta þegar síðasta ræðumann. Hann vitnaði í skýrslu um viðræðurnar í London sem lögð var fram sem trúnaðarmál á fundi utanrmn. og landhelgisnefndar. Ég lít svo á að þessi skýrsla sé trúnaðarmál þar til búið er að aflétta þeim trúnaði á þeim sama vettvangi og skýrslan er fram lögð og því sé ekki rétt að vitna til hennar eins og hún liggur fyrir, heldur þeirrar skýrslu er ég gaf hér í gær. Ég segi þetta ekki vegna þess að ég biðjist undan að gefa skýringu á þeim ummælum sem hann vitnaði til, þar sem mín var getið, heldur miklu fremur vegna hins, að þegar við eigum í viðræðum við aðra þjóð, þá er eðlilegt að frásögn af þeim viðræðum sé allnákvæm sem trúnaðarmál. En aðrar þjóðir verða og hljóta að geta treyst því, að í það, sem fram fer á viðræðufundum, sé ekki vitnað í umr. um málið á seinni stigum. Það, sem máli skiptir, eru niðurstöður viðræðnanna og í þær er sjálfsagt að vitna. Ég endurtek: Ég finn ekki að þessu hjá síðasta hv. ræðumanni, Ragnari Arnalds. mín vegna, heldur vegna þess að ég tel að okkur sé nauðsyn að gæta ákveðinna reglna í viðskiptum við aðrar þjóðir þótt þær séu okkur andstæðar og málflutningur þeirra okkur á móti skapi og léttvægur að rökum að okkar mati.

Það er í fyrsta lagi fundið að því, að ég hafi sagt eð þegar Hafréttarráðstefnan hefði lokið störfum yrðu veiðar breta við Ísland á gagnkvæmisgrundvelli. Ég held að þetta liggi í augum uppi. Þá er ekki um neinar veiðar breta við Ísland að ræða nema við óskum eftir veiðum okkur til handa innan breskrar fiskveiðilögsögu, og þá er það mat á hagsmunum íslendinga hvort um slík gagnkvæm veiðiréttindi yrði samið.

Í öðru lagi er fundið að því, að ég hafi minnst á að skipta fyrirhugaðri aflalækkun til helminga milli landanna, og dregin af því sú ályktun að í því felist tilboð af minni hálfu eða íslendinga. Þetta er fjarri öllu lagi og öllum sanni og hreinn útúrsnúningur. Það, sem þarna á sér stað í viðræðunum er að það er verið að varpa fram ýmsum möguleikum og útreikningsaðferðum og m a. svokallaðri prósentureglu og jafnri aflaminnkun beggja bjóðanna. Fyrir þessu gerði ég grein í skýrslu minni í gær. Þar sem hv. þm. vitnar í bls. 11 í skýrslu sem lögð var fram í utanrmn., þá er líka sagt á bls. 12 að ég hafi farið í stórum dráttum yfir ýmsar hugmyndir, sem ræddar höfðu verið og lagt fram fylgiskjal til fyllri skýringar á afstöðu íslensku sendinefndarinnar. Þetta fylgiskjal las ég upp frá byrjun til enda á fundinum í gær. Því lýkur, að því er varðar jafna aflaminnkun breta og íslendinga, á því, að sem fyrr geri þessi regla ekki ráð fyrir forgangsrétti strandríkis og sé því ekki aðgengileg. Ég held að fátt sýni meiri málefnafátækt hv. þm. en að byggja ræðu sína á þessu.