04.02.1976
Sameinað þing: 46. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 1719 í B-deild Alþingistíðinda. (1423)

Skyrsla forsrh. um viðræður við breta um fiskveiðideiluna og umr. um hana (útvarpsumr.)

Ragnar Arnalds:

Herra forseti. Ég verð að segja að ég varð heldur en ekki undrandi þegar hæstv. forsrh. leyfði sér að halda því fram, að það væri álit sitt að sú skýrsla, sem hann gaf landhelgisnefnd og utanrmn., væri að forminu til enn þá trúnaðarmál. Hann var áður búinn að lýsa því yfir opinberlega og þannig skildu það allir, að sá trúnaður, sem ætti að hvíla yfir þessu máli, stæði fyrst og fremst meðan stjórnarflokkarnir hefðu ekki tekið afstöðu til málsins. Þetta sagði hann stjórnarandstöðuflokkunum. Þannig skildu þetta allir. Og hann sagði að þessi trúnaður ætti að gilda meðan bretum hefði ekki verið svarað, meðan forsrh. hefðu ekki haft samband sín í milli. Hann sagði hér áðan: „Það sem fram fer á viðræðufundum, það á ekki að vitna opinberlega í það“ o. s. frv. En hæstv. forsrh. er þegar búinn að gera grein fyrir mjög mörgu sem gerðist á þessum viðræðufundum, m. a. því, hver voru tilboð Wilsons, þannig að hann hefur þá þegar brotið þessa meginreglu. Það er ekki ég sem geri það hér, það er hann sem hefur þegar gert það sjálfur. Það segir sig sjálft og við þurfum ekki að ræða það, að það er algjörlega útilokað að ætla sér að halda uppi þeirri reglu að það, sem hæstv. forsrh. langar til að segja úr þessum viðræðum, langar til að koma á framfæri, það sé ekki trúnaðarmál lengur, það megi segja, en það, sem stjórnarandstaðan vill hins vegar gjarnan vekja athygli á, nei, það megi setja bann á það, einstakar setningar eða einstakar málsgr., — það segir sig sjálft að slík regla stenst ekki. Það verður að gilda ein regla í þessum efnum bæði fyrir ríkisstj. og stjórnarandstöðu. Þar getur enginn munur verið á, þannig að ríkisstj. hafi einhver forréttindi og stjórnarandstaðan hafi síðan einhver annars flokks réttindi hvað þetta snertir.

Ég get ekki annað sagt en það eitt um þetta mál, að þau orð, sem ég las upp áðan, standa í skýrslunni, þau hafa verið sögð og þau verða ekki aftur tekin. Þau skulu hins vegar lesin hér aftur, þannig að öllum sé fyllilega ljóst hvað þarna var um að ræða. Þessi orð voru:

„Wilson sagði að með því að skipta fyrirhugaðri aflalækkun til helminga milli landanna, eins og Geir Hallgrímsson hafði minnst á, mundu bretar einungis fá 53 þús. tonn á ársgrundvelli og væri það algjörlega óaðgengilegt af breta hálfu.“

Það eru fleiri sem skilja mælt mál en ég og hæstv. forsrh. Ég býst við að öllum sé fyllilega ljóst að þetta felur berlega í sér að tilboð hefur verið gert, og þýðir ekkert að vera að neita því eða skjóta sér á bak við einhverjar furðureglur sem enginn botnar í.

Ég vil bæta því víð, að staðreynd málsins er auðvitað sú, að málsmeðferðin öll hjá hæstv. forsrh. er ekki til sérlegrar fyrirmyndar. Fyrst er byrjað á því að lýsa yfir að engar upplýsingar verði gefnar um efni þessara viðræðna, og þeirri leynd er haldið í meira en heila viku. Það eru stöðvaðir allir fundir á Alþ. meðan á þessu stendur. Það er haldinn, frá því að forsrh. kemur til landsins, fundir líklega í nokkrar mínútur hér í Sþ. Það eru einu stundirnar sem Alþ. fær tækifæri til að koma saman. (Gripið fram í: Alþ. afgr. lög fyrsta daginn.) Já, það gerði það líka á fáum mínútum, eins og menn sennilega muna. Meðan hæstv. forsrh. og stjórnarflokkarnir eru að hugsa sig um í heila viku, þá fær enginn annar að hugsa sig um nema örfáir þm. sem bundnir eru trúnaðareiði. Og svo eftir á, þegar afstaða þessara aðila liggur fyrir, þá er mönnum ætlað að trúa því að hæstv. forsrh. hafi setið í viðræðum við forsrh. Bretlands þrjá eða fjóra daga og að Wilson hafi komið með hvert tilboðið af öðru á meðan forsrh. Íslands hafi ekki komið með neitt tilboð, ekkert svar af neinu tagi. Hver trúir þessu? Nei, þessu trúir auðvitað enginn, þó að menn vissu ekki annað. En ég hef nú þar að auki sýnt fram á það og það verður ekki aftur tekið, að viljandi eða óviljandi er skýrt frá því í skýrslu til utanrmn. og landhelgisnefndar að gert hafi verið tilboð um 65 þús. tonn. Hæstv. dómsmrh., sem að vísu taldi að fyrirspurn til hans væri á röngum forsendum byggð, gaf hins vegar berlega í skyn að slíkt tilboð hefði ekki verið með hans ráðum gert eða hans samþykki ef það hefði verið gert, en það vildi hann draga í efa af skiljanlegum ástæðum.

Ég tel að hæstv. forsrh. hafi borið skylda til að svara þeirri fyrirspurn, sem ég bar fyrir hann áðan, með málefnalegum rökum, en ekki að svara því einu að hér sé um útúrsnúning að ræða og að öðru leyti að hér sé um trúnaðarmál að ræða. Hæstv. forsrh. verður að gera sér grein fyrir því, að hann hefur ekki aðeins skyldur gagnvart sjálfum sér og flokki sínum og samstarfsflokki, hann hefur líka skyldur gagnvart stjórnarandstöðunni, gagnvart Alþ. og gagnvart þjóðinni. Það þýðir ekki fyrir hann að ímynda sér að hann geti sloppið með að segja það sem honum sýnist og svara öðrum með villandi hætti. Hann verður að gera hreinskilnislega grein fyrir því, hvað gerðist og hvað gerðist ekki. Úr því að hæstv. forsrh. hefur gert tilboð í London eða — ef hann vill orða það þannig — lýst yfir fylgi við ákveðna hugmynd, — það er a. m. k. bersýnilegt að það hefur hann gert, — þá á hann að sjálfsögðu að viðurkenna það hreinskilnislega. Þjóðin verður sem sagt að fá fulla vitneskju um hvað gerðist í London, og það er ekki heiðarlegt — ég endurtek það — það er ekki heiðarlegt að ætla að skjóta sér á bak við það, að þessi sérstöku orð í skýrslunni séu trúnaðarmál, meðan hann upplýsir síðan flest annað sem í skýrslunni stendur. Það segir sig sjálft, að í samskiptum stjórnarandstöðu og ríkisstj., í samskiptum ríkisstj. og þjóðarinnar verður að gilda sú einfalda regla, að annaðhvort gefur hann greinargóða skýrslu um það, sem gerst hefur, eða ekki. Hann hefur ekki leyfi til þess að skjóta undan mikilvægustu staðreyndum málsins.