04.02.1976
Sameinað þing: 46. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 1735 í B-deild Alþingistíðinda. (1428)

Skyrsla forsrh. um viðræður við breta um fiskveiðideiluna og umr. um hana (útvarpsumr.)

Utanrrh. (Einar Ágústsson) :

Herra forseti. Það er alveg sjálfsagt að svara fyrirspurnum hv. 5. þm. Vestf.

Ég sagði í gær í ræðu minni, sem hann hefur eflaust ekki tekið eftir, að við mundum að sjálfsögðu halda uppi fullri löggæslu á miðunum hvað sem liði svari breta við orðsendingu okkar. Ég endurtek það: Ég er þeirrar skoðunar að þetta eigum við að gera, og ég var ekki í neinum vafa um að það var einnig skoðun hæstv. dómsmrh. að svona ættum við að standa að málunum. Þess vegna eru ekki nein vandkvæði fyrir mig að svara þessari spurningu. Ég get látið duga að vísa í það sem ég hef áður sagt um það efni. Og við erum sjálfsagt sammála, ég og hv. 5. þm. Vestf., í þessu efni.

Aftur á móti er ég honum ekki sammála um það, að 1973 hafi þáv. forsrh., Ólafur Jóhannesson, komið með úrslitakosti í vasanum frá London. Það er rétt að hann kom með uppkast að samningi. En það uppkast var ítarlega rætt af þáv. ríkisstj. og stuðningsflokkum hennar, og ég tel víst að hv. 5. þm. Vestf. hefur verið einn af þeim sem ræddu þetta mál og skoðuðu það vandlega, og það var samþ. af þessum mönnum. En að hæstv. þáv. forsrh. hafi gert einhvern bindandi samning, það er að mínu mati ekki rétt og ég þykist muna þessa atburði nokkuð vel. Ég verð þess vegna að mótmæla því að Ólafur Jóhannesson, þáv. forsrh., hafi komið með samning upp á vasann frá London. Samningsuppkast kom hann með sem stuðningsflokkar þáv. ríkisstj. ræddu, eins og ég áðan sagði, og samþ. ásamt nokkrum mönnum öðrum, sem ég þarf ekki að rifja upp.

Það er í rauninni ekki margt sem ég vil segja til viðbótar. Ég stóð upp að gefnu tilefni eða út af fyrirspurn þeirri sem ég þykist nú hafa svarað. En fyrst ég er kominn hér í ræðustólinn, þá ætla ég að bæta við þetta aðeins örfáum orðum.

Ég tel að það sé ekki rétt að orði komist hjá hv. 1. landsk. að við höfum beðið um viðræður við breta. Í svari okkar stendur að íslenska ríkisstj. sé reiðubúin til þess að taka upp viðræður við breta um samning til mjög skamms tíma. Ég skil þessi orð á þann veg, að frumkvæðið að slíkum viðræðum eigi að koma frá bretum, en að það sé ekki verið að bjóða þær viðræður og þaðan af síður að biðja um þær. Þetta skiptir kannske ekki mjög miklu máli, en það er þó blæbrigðamunur þarna sem ég sé ástæðu til að benda á og leiðrétta, því að ég veit að hv. 1. landsk. vill hafa það sem sannast er í hverju máli.

Auðvitað kemur ekki til nokkurra mála að hv. þm. Jón Árm. Héðinsson eða nokkur annar hér inni, hvort sem hann styður ríkisstj. eða er henni andstæður, geti samþ. fyrir fram einhvern samning sem ríkisstj. kynni að gera. Ég hygg að það muni aldrei verða farið fram á það við nokkurn mann að gefa óútfylltan tékka í þessu máli. Auðvitað byggist afstaða manna til slíks á efni þess hugsanlega samnings sem fram verður lagður, og ég tel alveg víst að áður en nokkurt skref verður stigið, þá verði haft samband við stjórnarandstöðuna gegnum þær n. sem starfa að þessum málum, utanrmn. og landhelgisnefnd.

Hv. 2. þm. Austurl. sagði að bretar hefðu í fyrra veitt 100 þús. tonn af þorski og þó hefðu engar hömlur verið á þeirra veiðum. Ég er ekki sammála því að bretar hafi veitt hömlulaust 1975. Þeir veiddu í samræmi við samning sem við í þáv. ríkisstj. gerðum við þá 1973 og gilti mestallt árið 1975 eða til 13. nóv., og í þeim samningi voru vissulega hömlur á veiðar breta. Það var takmarkaður skipafjöldi, það voru lokuð svæði á vissum tímum árs og það voru fleiri ákvæði sem takmörkuðu veiðar breta. Til þess gerðum við samninginn 1973, bæði hann og ég, til þess að takmarka veiðar breta, til þess að setja hömlur á þær. Ég tel því að við eigum að horfast í augu við það, að það voru hömlur 1975 á veiðum breta. Þær voru annars konar en þær hömlur sem við höfum verið að ræða hér um báðir, þ. e. a. s. eftirlít varðskipa, en hömlur voru það vissulega.

Sami hv. þm. sagði alveg réttilega að það væru eflaust ýmsir sem þrýstu á breta um að senda freigáturnar ekki inn. En hverjir ætli það séu sem halda uppi þessum þrýstingi á breta? Ég hygg að við getum nokkuð svarað því sjálfir. Ætli það séu ekki þrátt fyrir allt hinar NATO-þjóðirnar? Eða vænta menn að það séu einhverjar aðrar þjóðir, Austur-Evrópuþjóðir eða enn þá austar? Ég hygg ekki. Ég held að þessi þrýstingur komi þrátt fyrir allt frá hinum NATO-þjóðunum, og við erum alveg sammála um að þessi þrýstingur er fyrir hendi.

Ég sé nú að hv. 5. þm. Norðurl. v., Ragnar Arnalds, er ekki viðstaddur, svo að ég mun nú ekki gera ræðu hans að umtalsefni nema að mjög litlu leyti. Ég verð þó aðeins að segja það, að mér skilst að hann hafi spurt mig að því hvort ég væri samþykkur því sem hann kallaði „tilboð Geirs Hallgrímssonar í London“. En nú hefur verið upplýst og raunar alla tíð legið fyrir að hæstv. forsrh. Geir Hallgrímsson gerði ekkert tilboð í London, og sumir hv. stjórnarandstæðingar hafa meira að segja séð ástæðu til þess að þakka honum sérstaklega fyrir að hafa ekki gert það. Þar af leiðir að sjálfsögðu að ég var ekki samþykkur því að hann gerði neitt tilboð. Ég var ekki samþykkur því að hann gerði tilboð, og ég er fullviss þess einnig að hann gerði ekkert tilboð. Þess vegna er þessi fyrirspurn að mínu mati algjörlega óþörf og út í hött.

Ég ætlaði ekki að lengja þessar umr, og ekki að kveikja neinn eld hér í salnum um þetta mál frekar en orðið er. Ég vildi aðeins að gefnu tilefni svara þeirri fyrirspurn sem hv. 5, þm. Vestf. beindi til mín. Ég tel mig hafa svarað henni í gær, en ég tel það ekkert eftir mér að svara henni aftur í dag.