04.02.1976
Sameinað þing: 46. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 1737 í B-deild Alþingistíðinda. (1429)

Skyrsla forsrh. um viðræður við breta um fiskveiðideiluna og umr. um hana (útvarpsumr.)

Karvel Pálmason:

Herra forseti. Það eru örfá orð bara. Ég þakka hæstv. utanrrh. fyrir þetta. Ég er eigi að síður nokkuð undrandi á þeim ummælum sem hann viðhafði hér í sambandi við málið 1973, því að ég held að það sé öllum ljóst að úrslitakostir voru það, — samningsuppkast má það heita þegar það kom, en reyndist svo þegar á reyndi úrslitakostir og engu breytt. Ég er því nokkuð undrandi á því að hæstv. ráðh. skuli enn halda þessu fram.

Ég skal ekki hafa þetta öllu fleira. En ég á erfitt með að sætta mig við það að hæstv. forsrh. fáist ekki hér upp og tjái sig um efnislega hlið þeirra yfirlýsinga, sem hæstv. dómsmrh. gaf hér í sambandi við framkvæmd löggæslu á miðunum meðan hugsanlegar samningaviðræður standa yfir. Ég vænti þess fastlega að hæstv. forsrh. sjái sér fært að tjá sig um það.