05.02.1976
Neðri deild: 50. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 1747 í B-deild Alþingistíðinda. (1440)

120. mál, umferðarlög

Flm. (Sigurlaug Bjarnadóttir) :

Herra forseti. Á sínum tíma í miðjum fjárlagaumr. fyrir jólin var flutt framsaga fyrir þessu máli og höfðu þá tveir eða þrír þm., að ég held, kvatt sér hljóðs um það. Ég vil þakka hv. 5. þm. Vestf. fyrir áhuga hans á málinu. Það er vissulega áhugaverð að mínu mati öll sú viðleitni sem miðar að bættri umferðarmenningu í okkar landi og fækkandi slysum og óhöppum, sem hafa á undanförnum mánuðum orðið óhugnanlega mörg.

Ég ætla strax að koma að því atriði sem hv. þm. vék að sérstaklega í 1. gr. um notkun öryggisbelta. Ég skal segja það strax, að mig raunar furðar ekki á því þó að komi fram athugasemdir við þetta. Mér fannst þetta sjálfri við samningu frv. dálítið torkennilegt, en ég spurði sérfróða menn um þetta sérstaklega, hvers vegna væri tekin þessi viðmiðun, 150 cm hæð og 15 ára aldur. Mér var svarað því til, að þetta þætti rétt, aðallega vegna þess að svona væri þetta alls staðar annars staðar á öllum Norðurlöndunum og þar sem öryggisbelti hafa verið lögleidd er þessi viðmiðun notuð. Ég tel rökin liggja nokkuð beint við að vissu leyti, þ. e. a. s. að fólk innan við 150 cm að hæð eða innan 15 ára aldurs á yfirleitt alls ekki að sitja í framsætum. Það á að vera í aftursætinu. Engu að síður, ef gert er ráð fyrir því að það sitji í framsætum, þá tel ég persónulega ekki ósennilegt og óeðlilegt að sömu reglur giltu um notkun öryggisbeltanna. Ég lét þetta standa samt sem áður í frv. með tillíti til þess, að ég veit að frv. á eftir að fara til rækilegrar umfjöllunar í n. og það mun verða sent til sérfróðra aðila, geri ég fastlega ráð fyrir, og þá munu þessar ábendingar vafalaust verði teknar til athugunar. Ég get lýst því yfir strax, að þetta er nokkuð sem mér er ekki fast í hendi, að þessari gr. verði ekki breytt eftir því sem nm. og umsagnaraðilum þykir tilefni til að breyta.

Almennt um öryggisbeltin vil ég segja það, að ég hef orðið vör við það, eftir að þetta frv. kom fram, að það eru mjög skiptar skoðanir um þetta atriði og það kom mér raunar alls ekki á óvart. Ég get viðurkennt það sjálf, að mér hefur til skamms tíma þótt að það væri kannske höggvið fullnærri persónufrelsi fólks að skylda það til að nota öryggisbelti í akstri. En við nánari umhugsun vaknar sú spurning: Getum við staðið þarna á móti með þær staðreyndir í huga og með þær skýrslur og sannanir fyrir augunum um að notkun öryggisbeita er stórkostlegt slysavarnatæki, eða eins og kemur fram í grg. og hefur margoft komið fram í yfirlýsingum frá Umferðarráði, að samkv. ítarlegum rannsóknum, sem gerðar hafa verið annars staðar en hér, afstýra öryggisbeltin slysum í 70% tilfella? Í þéttbýli hér á Íslandi verða samkv. rannsóknum Umferðarráðs 85% umferðarslysa og óhappa, en það er einmitt í þéttbýlinu sem öryggisbeltin hafa fram til þessa svo til alls ekki verið notuð hér. Þótt okkur þyki óhagræði að því og óþægindi að þurfa að spenna á okkur öryggisbelti, þó að við gerum ekki annað en að keyra á milli húsa, þá skulum við hafa í huga þessar staðreyndir sem ég benti á áðan. Ég er sannfærð um að það koma til með að verða deildar meiningar um þetta í þeirri þn., sem málið kemur fyrir, og væntanlega síðar í umr. á Alþingi.

Þessi mál um öryggisbeltin hafa verið mikið hitamál á þjóðþingum annarra Norðurlanda, mjög umdeild og langar og miklar umr. hafa spunnist um þetta atriði. Ég held ég hafi getið þess í framsögu fyrir jólin, að í norska stórþinginu greiddi 1/4 norskra þm. atkv. gegn þessari lögleiðingu bilbeltanna. En í gegn fór það samt, og á Norðurlöndunum öllum er nú þessi notkun lögleidd. Ég minnist þess að s. l. vor dvaldi ég nokkra daga í Svíþjóð. Það höfðu þau verið lögleidd um 6 mánuðum áður, um áramótin 1974–1975, og mér var sagt af fólki í Svíþjóð að því hefði verið fremur stirðlega tekið af almenningi fyrst í stað, en missiri síðar voru allir orðnir ásáttir um þetta og spenntu sín öryggisbelti trúverðuglega í hvert skipti sem sest var upp í bíl. sem sagt voru orðnir vanir. Þetta er auðvitað fyrst og fremst spurning um vana.

Ég get sem sagt ekki svarað hv. 5. þm. Vestf. öðru til en þessu. En ég geri ráð fyrir að í umr. um málið muni e. t. v. koma fram fleiri rök sem mæla með þessu ákvæði, en hins vegar eðlilegt að það verði tekið til endurskoðunar og jafnvel breytt í annað horf ef menn eru á eitt sáttir um það. En ég vil endurtaka að ég vona að þetta mál sem og önnur mál, — það eru ein þrjú önnur þingmál sem liggja nú fyrir þinginu um þetta sama efni, þar á ég ekki við öryggisbeltin, heldur um breytingar á umferðarlögum sem þykja nauðsynlegar og horfa til bóta, ég vona að afgreiðslu þeirra verði flýtt svo sem verða má, þannig að þau verði afgr. á þessu þingi. Ég endurtek ósk mína um að málinn verði að lokinni 1. umr. vísað til hv. allshn.