05.02.1976
Neðri deild: 50. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 1749 í B-deild Alþingistíðinda. (1442)

120. mál, umferðarlög

Pálmi Jónason:

Herra forseti. Ég hafði ekki ætlað mér að blanda mér í umr. um þetta mál, en vil þó segja um það örfá orð.

Meginatriði þessa frv. er fólgið í því að skylda ökumenn og farþega í framsætum bifreiða til þess að nota svokölluð öryggisbelti. Það er sagt af flm. þessa frv. að staðreyndir, sannanir og skýrslur, eins og hv. flm. orðaði það, segi til um það að með notkun bílbelta megi draga úr slysum í umferðinni um allt að 70%. Þessar staðreyndir, sannanir og skýrslur eru þó sóttar til annarra þjóða en okkur íslendinga, sóttar til aðstæðna sem eru ekki sambærilegar við það sem gerist hér á landi.

Ég vil láta það koma fram, að ég hef miklar efasemdir um að þessar svokölluðu staðreyndir eigi við okkar vegakerfi, eins og það er í flestum tilfellum úti á landsbyggðinni. Ég er nokkurn veginn sannfærður um það, að með notkun bílbelta megi stórlega draga úr slysum á fólki við umferðaróhöpp í þéttbýli og jafnvel á hraðbrautum, eins og þær eru bestar hér á landi, eða við aðstæður sem líkastar eru því sem gerist í umferð erlendis. En það er alkunna að þar sem vegakerfi er lakara, þá verða alvarlegustu umferðaróhöppin venjulega við þær aðstæður að bifreið er ekið út af eða bifreiðar rekast saman á mikilli ferð á blindhæðum eða blindbeygjum, sem venjulega leiðir til þess að þær lenda utan vegar, og alvarlegustu tilfellin eru þessum atvikum tengd. Það er a. m. k. mjög oft og jafnvel ótrúlega oft sem ökumenn og farþegar bifreiða sleppa við meiri háttar slys í slíkum tilvikum vegna þess að þeir kastast út úr bifreiðinni og losna við sýnilega mikil meiðsl eða dauða þegar bifreiðarnar leggjast saman. Af þessum orsökum held ég að það væri a. m. k. í allmörgum tilvikum beinlínis verið að bjóða heim meiðslum á fólki og dauða við umferðaróhöpp úti á vegum, ef notkun bílbeita yrði lögboðin.

Það má svo enn benda á það, að ef bifreið lendir utan vegar og á kaf í vatni, þá mun notkun bílbelta verða til þess að ökumenn og farþegar drukkna, en gætu mjög oft bjargað sér í slíkum tilvikum ef þeir væru lausir í sæti.

Þessi atriði verða til þess, að ég hef miklar efasemdir um þetta frv. eða a. m. k. þennan þátt þess. Ég vildi láta það koma fram þegar við 1. umr., enda þótt sjálfsagt sé að íhuga þetta mál til hlítar og freista þess eftir öllum leiðum og við mat á aðstæðum okkar íslendinga sjálfra að standa svo að umferðarmálum og umferðarmenningu að sem best megi verða til þess að tryggja líf og öryggi þeirra sem eru í umferðinni.