05.02.1976
Neðri deild: 50. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 1751 í B-deild Alþingistíðinda. (1444)

120. mál, umferðarlög

Flm. (Sigurlaug Bjarnadóttir) :

Herra forseti. Ég skal ekki hafa mörg orð um þetta frekar. Ég vil ekki láta hjá líða að þakka hv. 3. þm. Reykn. fyrir skeleggan stuðning og góðan skilning á þessu máli, sem og öðrum þm. sem hafa tjáð sig.

Það er rétt, sem hv. 5. þm. Vestf. sagði, við erum ásátt um að það atriði, sem hann nefndi, þurfi skoðunar við, og vel kann að vera að til breytinga komi eftir þá skoðun.

En í tilefni þess, sem hv. þm. Pálmi Jónsson sagði um þetta, þá kom mér í rauninni ekki á óvart, eins og ég sagði, þó að ýmsir yrðu til að gera aths. við 1. gr. frv., sem ég er þó efins um að sé aðalatriði frv. Ég vil biðja menn að athuga mjög gaumgæfilega þá grein sem fjallar um mistaka- og punktakerfi og ég tel ákaflega mikilvægan þátt og horfa til bóta komandi framkvæmdar. Hv. þm. Pálmi Jónsson gat þess m. a. að við skyldum ekki treysta um of á skýrslur annarra þjóða í þessu tilliti, akstursaðstæður væru það ólíkar þar og hér, ef við miðum við Norðurlöndin t. d., að þessar skýrslur væru kannske tæplega marktækar hér. Ég hygg að hv. þm. geri of mikið úr þessum mun á akstursaðstæðum. Enda þótt vegir séu betri þar yfirleitt heldur en hér, þá eru aðstæður við slys nokkuð líkar hvar sem er. Það er árekstur á veginum sjálfum, það er bílvelta út af veginum. Og víst er það rétt, sem hv. þm. benti á, að í bílveltu bjarga margir sér þannig að fleygja sér út úr bílnum. En það er líka mjög oft í þeim tilfellum að maðurinn fleygir sér út og bíllinn veltur ofan á hann. Sem sagt, tilvikin eru mjög mörg og margvísleg, og enda þótt við höfum ekki enn nákvæmar skýrslur til að byggja á til jafns við nágrannaþjóðir okkar, þá vitum við að þeir menn, sem á Íslandi vinna að umferðarmálum, hafa af sinni reynslu komist að raun um, að öryggisbeltin afstýra slysum í margfalt fleiri tilfellum heldur en þau valda þeim. Sé svo, þó að prósenttalan komist ekki í 70% eins og vitnað er til í skandinavískum skýrslum, þá ætti notkunin vissulega rétt á sér.

Það er annað atriði sem oft er talað um í þessu sambandi, þegar bíll fellur í vatn, og margir vilja álíta að ökumaður hljóti bana af drukknun vegna þess að hann komist ekki úr öryggisbeltinu. Sérfræðingar í þessum málum staðhæfa að þessi skoðun sé á misskilningi byggð, því að drukknun í vatni í bíl, sem hefur fallið í vatn, stafi oftast af því að menn missi meðvitund af höfuðhöggi sem þeir fái er þeir kastast fram í framrúðuna, þannig að þeir hafi ekki rænu á að bjarga sér. Það er fullyrt af íslenskum sérfræðingum í umferðarmálum, að í margfalt fleiri tilvikum sé drukknunarvaldurinn sá, að þeir hafa misst meðvitund við högg sem þeir ekki hefðu hlotið ef þeir hefðu verið í öryggisbelti.

En sem sagt, það eru margar hliðar á þessu máli, og ég tek að lokum undir þau ummæli annarra þm., sem hér hafa tjáð sig um, að þetta mál þarf að skoðast af alvöru og það þarf að ganga að því með oddi og egg að kanna það niður í kjölinn og koma þeim lagabreytingum í framkvæmd sem það gerir ráð fyrir.