05.02.1976
Neðri deild: 50. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 1756 í B-deild Alþingistíðinda. (1449)

127. mál, framleiðsluráð landbúnaðarins

Ingólfur Jónsson:

Herra forseti. Ég tel, þótt þetta frv. komi væntanlega til þeirrar n. sem ég á sæti í, ástæðu til að segja örfá orð við 1. umr. málsins.

Það er rétt, sem hæstv. landbrh. sagði áðan, að þetta frv. er aðeins lítill þáttur af því upphaflega frv. um breytingu á framleiðsluráðslögum sem flutt var hér í hv. d. fyrir nokkrum árum, í tíð vinstri stjórnarinnar. Í því frv. voru mörg ákvæði sem við sjálfstæðismenn gerðum aths. við, og frv. hefur ekki verið flutt síðan í því formi, sem það var. Nú boðar hæstv. ráðh. nefndarskipun til þess að athuga þetta mál nánar, og er að sjálfsögðu ekkert við það að athuga. Væntanlega verður sú n. þannig skipuð að hún hafi flest sjónarmið til athugunar í því máli og geri sér grein fyrir þeim ágreiningsatriðum sem upp komu um fyrsta frv.

Ég vil lýsa því yfir að í aðalatriðum er ég samþykkur þessu frv. Ég vil þó benda á að í 2. gr. frv. er ákvæði sem ég tel ástæðu til að athuga í n. Tel ég alveg víst að hæstv. ráðh. hafi ekkert við það að athuga þótt gr. væri orðuð í samræmi við það sem III. kafli framleiðsluráðslaganna er. En 14. gr. framleiðsluráðslaganna hljóðar svo, með leyfi hæstv. forseta:

„Leyfi til slátrunar skal veita öllum félögum og einstaklingum, sem sláturleyfi höfðu haustið 1965, svo og þeim, sem eignast hafa sláturhús þessara aðila og tekið við rekstri þeirra.“

Þetta ákvæði á að sjálfsögðu aðeins við sauðfjárslátrun. En það þótti eðlilegt að hafa bundið í lögum, að þeir, sem áður höfðu haft sláturleyfi og hafa sláturhús sem eru viðurkennd, fái leyfi áfram. Um stórgripaslátrun er það að segja, að Framleiðsluráð hefur ekki haft með að gera leyfisveitingu í því efni, heldur hefur landbrh. veitt leyfi til slátrunar stórgripa fram að þessu, en jafnframt gert kröfu til að þau sláturbús, sem fá slík leyfi, séu þannig úr garði gerð að héraðsdýralæknir og yfirdýralæknir telji forsvaranlegt að slátra í þeim húsum. Nú er hér lagt til að það verði gefin út leyfi til stórgripaslátrunar á sama hátt og sauðfjárslátrunar. Sé ég út af fyrir sig ekkert við það að athuga. En ég tel eðlilegt að ákvæðið sé orðað líkt því sem nú er í 14. gr. framleiðsluráðslaganna, og tel ég alveg víst að hv. þm. að athuguðu máli telji það eðlilegt og réttmætt nú alveg eins og þegar framleiðsluráðslögin voru endurskoðuð 1966 og gr. var orðuð á þennan hátt. En þetta verður sjálfsagt athugað í landbn. þegar málið kemur þangað.

Annars er þetta frv. að mestu um breytingu á fyrirkomulagi á dreifingu mjólkur. Það mál hefur áður komið hér inn í Alþ. og það hefur tekið sinn tíma að sætta menn á sama sjónarmið í því máli. Nú virðist svo komið að flestir séu orðnir sammála um að eðlilegt sé að breyta til að þessu leyti. Stjórn Mjólkursamsölunnar hefur fyrir sitt leyti samþykkt það að vera aðeins heildsöluaðili í mjólkurdreifingunni, en það verði frjálst að veita öllum aðilum, sem uppfylla vissar kröfur, leyfi til að selja mjólk. Það var svo lengi vel á svæði Mjólkursamsölunnar í Reykjavík að það voru einungis búðir Mjólkursamsölunnar sem seldu mjólk í smásölu. Þetta var þannig allt til 1960. Árið 1960 voru aðeins örfáir aðilar aðrir en Mjólkursamsalan sem sáu um smásöluna. 10 árum seinna er aðeins helmingur dreifingaraðilanna frá Mjólkursamsölunni og helmingur kaupmenn og samvinnufélög sem önnuðust þessa dreifingu. Það kom til þegar kjörbúðirnar komu til sögunnar, að þá fengu þær ein og ein leyfi til þess að selja mjólk. Það var allmikil tregða á þessu fyrsta kastið. Mjólkursamsalan taldi heppilegast að hún hefði þessa dreifingu að mestu leyti. En nú hefur þetta breyst, og verslunaraðstaðan og verslunarmálin hafa breyst með tilkomu kjörbúðanna. Það er eðlilegt að húsmóðirin, sem fer út á morgnana að kaupa í matinn, geti líka fengið mjólk á sama stað, þannig að hún þurfi ekki að vera að fara í marga staði til þess að kaupa nauðsynjavörur til heimilisins.

Ég er sannfærður um að þetta verður ekki til þess að auka dreifingarkostnaðinn. Ég held að það ætti miklu fremur að geta lækkað dreifingarkostnaðinn. Sú verslun, sem er með flestar almennar vörur, þarf ekki að bæta við afgreiðslufólki þó að mjólkin komi einnig til sölu. Kostnaðurinn í þessari verslun við að hafa mjólkina er því aðeins stofnkostnaður. Það þarf að kaupa tæki, fullkomin tæki sem nauðsynleg eru talin í mjólkursölubúðum samkv. kröfum Heilbrigðiseftirlitsins. En afgreiðslufólki þarf ekki að fjölga þótt mjólkin komi til. Þess vegna ætti dreifingarkostnaðurinn alls ekki að hækka við þetta, heldur geta verið lægri undir þessum kringumstæðum heldur en í mjólkursölu Samsölunnar sem hefur ekki aðrar vörur með mjólkinni en kannske brauð og kökur.

Menn virðast vera sammála um það, að þessi breyting vegna breyttra staðhátta sé eðlileg og sjálfsögð. Ég held að með þessu fyrirkomulagi ætti sala á mjólk að geta aukist, með því að hún fáist nógu víða. Það er vitanlega miklu betra að fólk kaupi mjólk í stað þess að kaupa Coca Cola eða einhverja aðra drykki sem eru óhollari og miklu dýrari en mjólkin.

Eins og ég sagði tók það nokkurn tíma að samræma sjónarmiðin, og ég tel að það hafi ekki orðið fyrr en nú að þetta var raunverulega gerandi. Það var ekki eðlilegt, jafnvel þótt þingmeirihluti væri fyrir því að pressa breytingu fram eins og þessa á framleiðsluráðslögunum fyrr en bændasamtökin og stjórnir mjólkursamlaganna voru komin inn á þetta sjónarmið. Það er miklu farsælla að gera þetta á friðsamlegan hátt, með þeim hætti sem báðir aðilar geta fellt sig við, framleiðendur og neytendur, heldur en að pressa fram með einföldum þingmeirihluta lagabreytingu sem verður deilt um. Þess vegna var eðlilegt að bíða átekta á meðan menn voru að átta sig á því að breyting í þessa átt getur orðið báðum aðilum til góðs, bæði framleiðendum og neytendum.

Ég tel ekki ástæðu til, herra forseti, að fara öllu fleiri orðum um þetta, og allra síst af því að ég geri ráð fyrir að málið komi til þeirrar n. sem ég á sæti í. Ég vil endurtaka fylgi mitt við þetta mál, með þeirri aths. þó sem ég lýsti um 2. gr. frv.