27.10.1975
Neðri deild: 10. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 193 í B-deild Alþingistíðinda. (145)

8. mál, námsgagnastofnun

Menntmrh. (Vilhjálmur Hjálmarsson):

Herra forseti. Þetta frv. var undirbúið af n. fyrir alllöngu. Fyrrv. menntmrh., hv. 3. landsk. þm., Magnús T. Ólafsson, skipaði n. í júní 1972 til þess að endurskoða lög um Ríkisútgáfu námsbóka og lög um Fræðslumyndasafn ríkisins með það fyrir augum að sameina þessar stofnanir og tryggja þannig sem hagkvæmast starf þeirra í milli og þá einnig samstarf við skólarannsóknadeild menntmrn. Í ráði var um hríð og um það er raunar til lagaheimild að sameina Fræðslumyndasafnið og menntmrn., þ. e. a. s. fella Fræðslumyndasafnið alveg inn í starfsemi rn. En við nánari athugun var talið réttara að sameina Fræðslumyndasafnið og Ríkisútgáfu námsbóka.

Samhljóða frv. þessu var lagt fyrir strax á 94. löggjafarþingi til kynningar þá og ekki afgreiðslu. Það var einnig lagt fyrir á síðasta Alþ. í sömu mynd og það nú er lagt fram.

Meginefni þessa frv. er sem sagt að sameina Ríkisútgáfu námsbóka og Fræðslumyndasafn ríkisins í eina stofnun undir heitinu Námsgagnastofnun, en jafnframt er svo með frv. leitast við að efla þá væntanlegu nýju stofnun til þess að gegna því þýðingarmikla hlutverki að sjá íslenskum skólum fyrir sem bestum og fullkomnustum náms- og kennslugögnum og annast framleiðslu, útgáfu og miðlun hvers konar námsefnis og kennslutækja og fylgjast með margvíslegum nýjungum á þessu sviði í nánu samráði við Skólarannsóknirnar, jafnframt því sem henni er þá ætlað að halda uppi fræðslu- og upplýsingastarfsemi meðal kennara að því er þessa þætti varðar og við verður komið á hverjum tíma.

Þessu frv. fylgir mjög ítarleg grg. og það e; nokkuð langt mál að fara að rekja þetta í einstökum þáttum. Ég sé ekki ástæðu til að gera það hér við 1. umr., en vil í þess stað vísa til þeirra aths. sem frv. fylgja.

Ég leyfi mér svo, herra forseti, að leggja til að frv. verði að lokinni umr. vísað til hv. menntmn.