05.02.1976
Neðri deild: 50. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 1762 í B-deild Alþingistíðinda. (1451)

127. mál, framleiðsluráð landbúnaðarins

Landbrh. (Halldór E. Sigurðsson) :

Herra forseti. Út af því, sem hv. 1. þm. Suðurl. sagði áðan, þá tel ég sjálfsagt að þau atriði, sem máli skipta og nm. í landbn. telja nauðsyn bera til að skoða betur, fái þar eðlilega meðferð, eins og venja er hjá n. Ég hef ekkert við það að athuga þó að eitthvað í þessu frv. kunni betur að fara þegar betur er að gáð og verði lagfært. Það er það sjálfsagt.

Ég tek líka undir það, sem hv. 1. þm. Suðurl. sagði, að nauðsyn ber til að leysa svona mál með friðsamlegum hætti. Ég hef reynt að komast inn á það svið og hefði ekki tekið það út úr þessum lagabálki nema vegna samþykktar þeirrar sem stjórn Mjólkursamsölunnar gerði, eins og ég skýrði frá áðan.

Út af því, sem hv. 4. þm. Vestf. vék hér að, langar mig til að gefa á því nokkrar skýringar. Í fyrsta lagi er það rétt hjá honum, að í frv. til framleiðsluráðslaga, sem lagt var hér fram, var þessi kafli ekki. Hins vegar var n. skipuð síðar og var búið að fella það inn í frv. sem hefur ekki verið lagt fram enn þá, en það var einn hluti frv. að heildarlöggjöf, eins og ég gat um áður. Ég vil líka segja út af því sem hann sagði um aðstöðumuninn, að vísu vék hann að því í lok sinnar ræðu, að eðlilegast væri og yrði að vera sama verð um land allt, þó að ýmis atvik gætu orðið að koma til að jafna þar um. Eitt af því var í frv. því sem ég á sínum tíma lagði hér fram að framleiðsluráðslögum. Ég vil líka segja að það er í samræmi við þessa stefnu að heykögglaverksmiðjum þeim, sem verið er að byggja í landinu og eiga eftir að verða verulegur þáttur í framleiðslu á fóðurbæti bænda, hefur verið dreift um landið með tilliti til þess að jafna flutningskostnaðinn og gera hann sem minnstan. Það er haft í huga við uppbyggingu þeirra.

Þá vil ég og segja það, að Inn-Djúpsáætlunin er einn þáttur í þessu. Þar hefur verið tekin upp sú stefna að greiða aukaálag á framleiðsluvörur þar framleiddar. Hins vegar verð ég jafnframt að segja það, að ég hef ekki verið alls kostar ánægður með það skipulag sem hefur verið á þeirri framkvæmd. T.d. taldi ég brýna nauðsyn til þess að auka þar mjólkurframleiðsluna, en ekki sauðfjárframleiðsluna, vegna þéttbýliskjarna eins og Ísafjarðar sem nú verður að flytja mikla mjólk til langvegu frá.

Ég lít líka svo á, að t. d. í heimabyggðarlagi hv. 4. þm. Vestf., í Önundarfirðinum, eigi að stefna að því að auka mjólkurframleiðsluna frá því sem nú er, en hún mun hafa dregist saman vegna þess atriðis sem ég gat um áðan.

Í þessu sambandi vil ég geta þess, að á vegum landbrn. starfar n. undir forustu deildarstjóra rn., Guðmundar Sigþórssonar, sem er að gera heildarúttekt á framleiðslu á sviði landbúnaðarmála og afkomu bænda á svæðunum hringinn í kringum landið. Það var og er skoðun rn. að það sé afskaplega óheppilegt að tína út einn og einn hrepp og gera sérstaka áætlun um hann, það sé ekki framkvæmanlegt að gera slíkt nema að undangengnu slíku heildaryfirliti sem nú er búið að vinna frumdrög að eða vel það. Í framhaldi af því hafa verið ákveðnar áætlanir, eins og í Árneshreppi í Strandasýslu og víðar sem ég man nú ekki alveg, ég hef ekki þessi gögn hér hjá mér. En þar er m. a. unnið að þessu skipulega og þá jafnframt að reyna að fá yfirlit yfir það, hvar heppilegast sé að hafa þessa og þessa framleiðslu, bæði með tilliti til markaðarins innanlands og einnig möguleikanna til útflutnings.

Í málum þeim, sem ég var að tala fyrir í dag í hv. Ed. kom það fram að útflutningur á ullar- og skinnavörum kemur næst útflutningi ál- og kísilgúrs af iðnaðarvörum landsmanna og hefur farið verulega vaxandi. Það eru verulegir möguleikar fyrir íslendinga að auka þennan útflutning, og er talið að það þurfi að fjór- til fimmfalda hann til þess að hann hafi svipað verðmætamagn og álframleiðslan hefur. Þetta kom fram hjá samtökum iðnaðarins í athugun á þessum málum. Þess vegna ber brýna nauðsyn til að aðlaga landbúnaðinn einmitt slíkum framleiðsluháttum, og að því er unnið á vegum landbrn. Ég vil jafnframt geta þess, að í stofnlánadeildarlögunum, sem voru afgr. hér á Alþ. 1973, held ég muni rétt, eru einmitt þeir möguleikar að jafna á milli eða taka tillit til aðstöðu bænda í sambandi við stofnlánin, svo að þessi stefna, sem hv. 4. þm. Vestf. ræddi hér um og réttmæt er, það er einmitt í þessa átt sem er verið að vinna. Þessi skipulags- og raunar rannsóknarnefnd á framleiðslumálum landbúnaðarins á að geta afhent grundvöll að því sem hægt verður að byggja á í sambandi við þessi mál.

Ég vil hins vegar segja það, að mér er ljóst af fyrri reynslu að endurskoðun framleiðsluráðslaganna í heild tekur nokkurn tíma og þar verða áfram uppi deiluatriði sem tekur tíma að jafna. Af þessum ástæðum féllst ég á að leysa þetta mál sérstaklega og án þess að heildarmálin verði leyst einnig. Hins vegar mun ég nú fljótlega ganga frá skipun n. til þess að athuga þessi heildarmál. M. a. hef ég dregið það af því að ég taldi nauðsyn að þessi skipulagsmál og framleiðslumál þeirrar n., sem að því vinnur, lægju nokkuð ljóst fyrir þegar væri farið að fjalla um þessi mál í heild. Ég tel að jafnhliða þessu, þrátt fyrir það að stutt sé síðan stofnlánadeildarlögin voru endurskoðuð, þurfi enn á ný að taka þau til endurskoðunar því að hraðinn í okkar þjóðfélagi á mörgum sviðum er svo mikill að nauðsyn ber til að fylgjast þar með ef eðlileg uppbygging á að eiga sér stað, eins og þarf að vera í landbúnaði ekki síður en öðrum atvinnugreinum. Mín skoðun er sú, að landbúnaðurinn geti orðið okkur verulega mikils virði sem útflutningsframleiðslugrein ef við tökum hann réttum tökum og leggjum meiri vinnu í sölumennsku á sviði landbúnaðarvara en við höfum gert hingað til, vegna þess að við höfum svo lítið þurft á því að halda. En það er á misskilningi byggt að það sé ekki hægt að vinna þá hluti upp, enda hefur það þegar sýnt sig, sbr. það álit sem ég vitnaði til frá iðnrekendum, að þeir átta sig á því að brýna nauðsyn ber til þess.

Ég vona að með þessum orðum hafi ég skýrt fyrir hv. 4. þm. Vestf., sem ég reyndar tók fram áðan, af hverju ég skildi þetta að. Mér er ljóst að það tekur þó nokkurn tíma að koma endurskoðun heildarlöggjafarinnar svo fyrir að vel verði við unað.