05.02.1976
Neðri deild: 50. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 1764 í B-deild Alþingistíðinda. (1452)

127. mál, framleiðsluráð landbúnaðarins

Ellert B. Schram:

Herra forseti. Þar sem hér er á dagskrá frv. til l. um breyt. á lögum um Framleiðsluráð landbúnaðarins er ekki óeðlilegt þótt umr. snerti þau mál almennt sem um er fjallað í þeim lögum. En þetta frv., sem hér er á dagskrá, fjallar þó fyrst og fremst um einn þátt framleiðsluráðslaganna, þ. e. a. s. um dreifingu mjólkur. Ég vil nota þetta tækifæri til að fagna flutningi þessa frv. sem felur í sér fyrst og fremst rýmkun á sölu mjólkur í smásölu og afnám einkasöluréttar Mjólkursamsölu og mjólkursamlaga.

Eins og öllum hv. þm. er kunnugt um hefur þetta mál verið nokkrum sinnum áður á dagskrá hér á hv. Alþ. og hefur mönnum sýnst sitt hvað um breyt. á fyrirkomulagi á dreifingu mjólkur. Lögin um mjólkurdreifingu eru, eins og hér hefur komið fram, nokkuð komin til ára sinna eða rúmlega 40 ára gömul. Þau áttu sér réttmætar forsendur á sínum tíma og hafa vissulega þjónað sínum tilgangi. En eins og hér hefur líka verið drepið á, þá hefur í tímans rás verið nauðsynlegt að gera breyt. á þessum lögum til þess að koma til móts við breytta þjóðfélagshætti, nýja verslunarhætti og sjónarmið stærri og stærri hóps neytenda.

Niðurstaðan af þeim umr., sem fóru fram á þingi fyrir nokkrum árum, varð sú að hæstv. landbrh. þáv. og núv. ákvað og samþ. að setja á fót n. til að samræma hin ýmsu sjónarmið sem fram komu í þessu máli. Í n. voru skipaðir fulltrúar frá hinum ýmsu samtökum sem teljast hafa hagsmuna að gæta. Það kemur fram í aths. með þessu lagafrv., að í n. áttu sæti fulltrúar kaupsýslumanna, neytenda, Mjólkursamsölu og Framleiðsluráðs, svo að einhverjir séu nefndir. Niðurstaða þessarar n. er sú sem hér gefur að líta.

Ég mun ekki fjalla um einstök ákvæði þessa frv. Hér er sjálfsagt um samkomulagsfrv. að ræða, þar sem hver aðili um sig hefur reynt að koma til móts við hina. Það mætti kannske gera breyt. á þessu frv. þannig að einhverjum líkaði betur, en með hliðsjón einmitt af aðdraganda og tildrögum þessa frv. er ekki ástæða a. m. k. fyrir mig til þess að fara að ræða um einstök atriði, heldur er ég ánægður með, að þetta frv. hefur séð dagsins ljós, og mælist eindregið til þess að það fái skjóta og jákvæða afgreiðslu hér í þinginu.

Það kom fram í máli hv. 1. þm. Suðurl. að hann taldi að salan mundi aukast ef þetta frv. yrði samþ., og ég tel sjálfsagt að svo verði. Það er ekki nema eðlilegt að framleiðendur notfæri sér það dreifingarkerfi sem fyrir hendi er í þjóðfélaginu, og getur varla skaðað þá að fleiri selji þessa framleiðsluvöru, svo framarlega sem þeim skilyrðum er fullnægt sem framleiðendur setja um heilbrigðisaðstöðu o. s. frv.

Ég er því sammála, sem fram kom í máli hv. l. þm. Suðurl., að það var ekki heppilegt ef þurft hefði að pressa slíka breyt. í gegn. Það var ekki heldur mín ætlan, enda þótt ég hreyfði þessu máli fyrir nokkru, að þrýsta þessu máli fram gegn vilja framleiðenda. Þess vegna er ég mun ánægðari nú þegar samkomulag hefur náðst einmitt við framleiðendur um að breyta lögunum þannig að komið er til móts við sjónarmið þeirra sem neyta framleiðslunnar, þ. e. a. s. neytenda.

Í athugasemdum hv. 4, þm. Vestf. komu fram ýmis sjónarmið framleiðenda. Ég fyrir mitt leyti hef fullan skilning á því, að framleiðendur vilji fara með gát og séu kannske ekki fullkomlega sáttir við allar þær breytingar sem lagt er til að gerðar verði. Um það verð ég aðeins að segja, að ég tel að reynslan verð að skera úr um það og það sé áreiðanlega allra mál að breyt. séu gerðar til þess að lagfæra það sem miður kann að fara. Ég vil þó vona að fulltrúar framleiðenda og þá bænda setji ekki nein sérstök skilyrði um að önnur mál, sem snerta hagsmuni þeirra, fái framgang jafnframt þessu máli. Ekki þannig að ég sé á móti slíkum málum, heldur vegna þess, eins og fram hefur komið í máli hæstv. ráðh., að hér er um mjög viðamikið og viðkvæmt mál að ræða og ljóst er að ef á að leysa heildarhagsmunamál bænda og breyta framleiðsluráðslögunum í heild, þá þarf lengri tíma. Ég er þeirrar skoðunar og vil trúa því að menn séu sammála um að þessi breyt., sem hér er lögð til, sé öllum til góða sem frv. snertir. Hagsmunir framleiðenda eru vissulega mikilvægir. Bændur þurfa að halda vel á sínum rétti. En þeir þurfa líka að skilja sjónarmið þeirra sem þeir þurfa á að halda, þ. e. a. s. neytenda og þeirra sem dreifa þeirra vörum, þ. e. a. s. kaupmanna eða verslunarstéttarinnar, og vissulega er þetta frv. í samræmi við mjög ákveðnar till. úr þeirri átt.

Ég treysti því mjög á samstarfsvilja fulltrúa bænda og skilning hv. landbn. í meðferð á þessu máli og vil eindregið mælast til þess að afgreiðslu þessa frv. verði hraðað eftir föngum. Að samningu þessa frv. hafa staðið öll þau hagsmunasamtök sem málið snertir. Þess vegna tel ég að í sjálfu sér þurfi ekki mikinn tíma til þess að leita eftir umsögnum á nýjan leik og það ætti að geta flýtt fyrir afgreiðslu málsins í n. — Ég endurtek svo að lokum að ég fagna mjög flutningi þessa frv.