05.02.1976
Neðri deild: 50. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 1765 í B-deild Alþingistíðinda. (1453)

127. mál, framleiðsluráð landbúnaðarins

Vilborg Harðardóttir:

Herra forseti. Það er einn þáttur þessa máls sem mig langar að gera að umtalsefni, og það er dreifing mjólkurinnar, þ. e. a. s. það, sem gert er ráð fyrir að breytist verulega, að einkaréttur Mjólkursamsölu eða mjólkursamlaga á sölu mjólkur, rjóma og skyri nái aðeins til heildsöludreifingar, en ekki til smásöludreifingar eins og verið hefur. Mig langar til þess að vekja athygli þingheims á því, að verði þessi regla að lögum, þá er hætt við því að heil atvinnustétt, a. m. k. hér á Reykjavíkursvæðinu, hreinlega leggist niður. Þessi atvinnustétt eru þær konur sem nú vinna í mjólkurbúðunum.

Þær hafa sérstakt stéttarfélag, sem kallast ASB, Félag afgreiðslustúlkna í mjólkur- og brauðbúðum. Ég hef talað við formann þess félags og einnig hef ég rætt þetta mál við framkvæmdastjóra Mjólkursamsölunnar, og þeim ber báðum saman um að engar ráðstafanir hafi verið gerðar í þessu sambandi til þess að tryggja þessum konum vinnu ef mjólkurbúðirnar leggjast niður. Þetta er nokkuð stór stétt, og meginhluti af þeim, sem við þetta starfa, er rosknar konur sem eiga ekki mjög auðvelt með að fá vinnu annars staðar. Það er oft erfitt að skipta um starf þegar maður er orðinn fullorðinn, og sérstaklega hefur konum reynst erfitt að ganga inn í störf vegna þess að það er ekki um svo margt að velja. En eins og ég benti á, það er allt í óvissu um framtíð þessara kvenna.

Framkvæmdastjóri Mjólkursamsölunnar benti að vísu á að kaupmenn hefðu tryggt það að þeir mundu kaupa verslanir Mjólkursamsölunnar hér í Reykjavik, en hins vegar hefðu þeir ekki getað tryggt það að þeir réðu jafnframt starfsfólk, enda þyrftu þeir ekki á svo mörgu starfsfólki að halda. Ég spurði um það, hvort þeir mundu geta tekið þessar konur að einhverju leyti til vinnu í Mjólkursamsölunni sjálfri, en hann sagði á móti að þar væri náttúrlega allt mannað, það gæti komið til mála að nokkrar yrðu teknar. Þetta langar mig að benda þingheimi á.

Hitt atriðið, sem mig langar að gera að umtalsefni hér, er það sem snýr að okkur neytendum. Ég vil þá taka undir það með hv. þm. Gunnlaugi Finnssyni, að það er í meira lagi hæpið að þetta nýja fyrirkomulag tryggi lægra verð. Ég held að í reyndinni verði það einmitt hærra, því að ég er ekki farin að sjá að við höfum neina tryggingu fyrir því að kaupmennirnir muni ekki heimta sína álagningu. Það þarf ekki að ímynda sér að kaupmenn geri eitthvað fyrir ekki neitt, af því hefur maður reynsluna. Nú þykjast þeir geta tekið mjólkursöluna að sér aukalega til þess að veita með því viðskiptavinunum betri þjónustu. En það eiga þeir eftir að sjá, sem nú mæla með slíku fyrirkomulagi, að þegar kaupmannastéttin einu sinni hefur fengið einokunaraðstöðu um mjólkursölu og þarf ekki lengur að keppa við mjólkurbúðirnar, þá munu þeir krefjast þess að fá álagningu á þessa vöru eins og aðrar.