05.02.1976
Neðri deild: 50. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 1766 í B-deild Alþingistíðinda. (1454)

127. mál, framleiðsluráð landbúnaðarins

Stefán Valgeirsson:

Herra forseti. Ég ætla mér ekki á þessu stigi málsins að fara að ræða frv. sem hér er til umr. vegna þess að ég á sæti í þeirri n. sem kemur til með að fjalla um málið. Hins vegar hefur mér fundist á sumum hv. ræðumönnum að þeir hafi í raun og veru ekki gert sér grein fyrir þeirri þróun sem orðið hefur og hvernig á því stendur að Mjólkursamsalan hefur óskað eftir því að þetta frv. yrði flutt.

Þróunin á undanförnum árum hefur verið sú, eins og hv. 1. þm. Suðurl. sagði, að vaxandi hluti af mjólkinni hefur verið seldur af kaupmönnum. Þróunin er sem sagt orðin sú að Samsalan er búin í sjálfu sér að missa þessa sölu úr sínum höndum. Mér er nær að halda að frumástæðan sé sú, að í nýju hverfunum hafi hún ekki fengið möguleika til þess að opna þar búðir eða fengið lóðir og ennfremur að stóru kjörbúðirnar hafa fengið mjólkina, og þróunin hefur orðið sú að Mjólkursamsalan sér ekki möguleika til að halda þessu áfram. Kaupmennirnir eru búnir að fá alla bestu og stærstu staðina, en Mjólkursamsalan er með þær búðir þar sem minnst er salan og bera sig verst. Ég er alveg sannfærður um það, þó að það sé auðvitað reynslan ein sem á eftir að sýna það, að það spor, sem er verið að stíga og er í raun og veru búið að stíga, mun verða til þess að dreifingarkostnaður vex á þessum vörum. En taflið er tapað að mínu mati fyrir neytendur og bændur e. t. v. líka vegna þess að neytendur skildu ekki þessa þróun í tíma.

Ég verð að segja það, að mér urðu það mikil vonbrigði að það skyldi ekki nást samkomulag, það skyldi ekki vera hér á hv. Alþ. skilningur á aðstöðu bænda og þar af leiðandi var ekki meiri hl. til á hv. Alþ. fyrir því frv. sem hæstv. landbrh. var búinn að semja. Það er hörmulegt, en það er staðreynd.

Það er allt önnur aðstaða í sambandi við þessi mjólkursölumál úti á landi heldur en hér, og þarf náttúrlega að taka það sérstaklega til athugunar. Það eru auðvitað til alls staðar heilbrn., það eru ekki heilbrigðisfulltrúar. Þessar heilbrn. eru ekki mikið starfandi. Og það, sem á við hér í þessum málum, á e. t. v. ekki við þar. Þar af leiðandi kemst ég ekki hjá því sem form. landbn. að senda þetta frv. til umsagnar til t. d. forráðamanna mjólkurvinnslustaðanna úti á landi til þess að fá þeirra viðhorf líka, því að það þarf að taka tillit til þeirra viðhorfa ekkert siður en til viðhorfa þeirra sem búa hér á þéttbýlissvæðinu og miða löggjöfina við allar aðstæður.

Ég verð að taka undir það, sem hv. þm. Gunnlaugur Finnsson sagði, að eitt af þeim atriðum, sem þarf að athuga er hinn mikli aðstöðumunur sem er á hinum ýmsu stöðum. Við athuguðum það t. d. í sambandi við Inn-Djúpsáætlunina. Þar var reynt að koma fram því sjónarmiði að láta þá, sem ætluðu að framleiða mjólk, fá hærra hlutfall í sínum fjárfestingarlánum heldur en þá sem ætluðu að framleiða sauðfjárafurðir. En það kom í ljós að ekki var vilji fyrir því nema hjá einum eða tveimur aðilum þar fyrir vestan að byggja t. d. fjós. Þeir vildu allir byggja frekar fjárhús og auka sauðfjárafurðir, þó að það væri í sjálfu sér andstætt því sem við töldum að hagsmunir þessa svæðis og raunar bændastéttarinnar í heild þyrftu á að halda, eins og þarna stendur á. Ég held að ég fari rétt með það, að flutningskostnaðurinn t. d. með flugvélum frá Akureyri sé 18–19 kr. á hvern lítra, þannig að vera þyrfti heimild í löggjöf um að það mætti hafa verðið hærra á þessum stöðum, þar sem alltaf er skortur á mjólk, heldur en annars staðar. Það tel ég að væri nauðsynlegt að gera, vegna þess að það mundi líka verða hagstætt fyrir bændastéttina ef væri hægt að framleiða mjólk á Vestfjörðum, en ekki flytja hana með svona miklum kostnaði. En þetta er enn eitt dæmið um það, hvað það mundi kosta ef ætti að fara að flytja mjólkina á milli landshluta eða jafnvel frá öðrum löndum eins og sumum spekingum hefur dottið í hug.

Ég er alveg sammála hæstv. landbrh. um að landbúnaðurinn á mikla framtíð fyrir sér ef skilningur ríkir hjá yfirvöldum á hverjum tíma og staðið er að þessum málum eins vel og hægt er. Veit ég að hann mun reyna að gera ráðstafanir til þess að t. d. framleiðsluráðslögin verði endurskoðuð. Ég vona þá að þeir, sem eru nú að vænta skilnings frá bændum í sambandi við þetta mjólkursölumál, sýni þeim skilning þegar er búið að fara yfir frv. og það verður lagt fram hér á Alþingi.