27.10.1975
Neðri deild: 10. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 194 í B-deild Alþingistíðinda. (146)

8. mál, námsgagnastofnun

Jónas Árnason:

Herra forseti. Ég dreg ekki í efa að það frv., sem hér liggur fyrir, ef það verður að lögum, á eftir að verða til gagns fyrir skólanemendur og kennara þeirra. Ég hef ekki kvatt mér hljóðs til að ræða frv. sem slíkt. Mig langar þó að gera eina almenna athugasemd sem gamall kennari. Núna þegar fyrirkomulag kennslumála hefur verið ofarlega á baugi árum saman og nýir og nýir fræðimenn hafa sett fram nýjar og nýjar kenningar um, hvaða aðferðir séu heppilegastar til þess að koma íslenskum skólanemendum til vits og þroska og stjórnvöld hafa að sjálfsögðu reynt að fylgja ráðum þessara sérfræðinga allra eftir megni, og svo hafa aðrir lærdómsmenn lagt sig í líma við að reikna út hvers konar húsnæði henti best í skólum, allt niður í það hve margir fersentimetrar af gólffleti í kennslustofum séu heppilegastir til þess að lærdómurinn eigi sem greiðasta leið inn í nemendur og að andlegir hæfileikar kennara njóti sín sem best, þegar þetta hefur nú staðið árum saman, fer þá ekki að verða kominn tími til að bæta við enn einni könnun ofan á allar hinar, þ. e. a. s. könnun á því hvort allar hinar kannanirnar hafi borið tilætlaðan árangur. Ég efast ekkert um að eftir tilkomu allra þessara nýju kenninga og allra þessara nýju aðferða, þá er árangurinn við kennslu að sjálfsögðu orðinn glæsilegur samanborið við það sem t. d. gerðist þegar við þessir eldri vorum að bauka við kennslu, t. d. þegar hæstv. menntmrh. var að kenna börnum austur á Brekku í Mjóafirði og ég í næsta byggðarlagi. Ég efast ekki um að árangurinn er orðinn stórglæsilegur samanborið við það sem þá tíðkaðist. En það, sem ég á við þegar ég tala um þessa könnun, er hvort það væri hægt að fá að vita hversu miklu, miklu, miklu glæsilegri árangurinn er orðinn núna eftir að allar þessar nýju kenningar og nýju aðferðir komu til sögunnar.

Þetta var sem sé aðeins almenn athugasemd. Það væri reyndar freistandi að gera athugasemdir við fáein atriði í frv. Það er t. d. kafli um Fræðslumyndasafn ríkisins. Forstjóri þess á sæti hér á hv. Alþ., en hann er nú ekki í salnum. Mig hefði langað að spyrja, hversu mikið gagn þessi stofnun geri, og ef hún geri ekki nógu mikið gagn, þá hvers vegna hún geri ekki nógu mikið gagn. Væri t. d. ekki hægt að láta hana gera töluvert meira gagn með því að gera nú alvöru úr því, sem oft hefur verið talað um, að taka sjónvarpið í þjónustu skólakerfisins? Sjónvarpið er að sjálfsögðu áhrifamesta námsgagn — svo að ég noti nú það orð — sem við eigum á að skipa, og hvers vegna er það ekki notað? Hvers vegna er það ekki gert að skóla þann tíma dagsins sem það er ekki önnum kafið við að flytja okkur annað efni, sem vægast sagt er ekki allt saman hliðhollt menningunni eða líklegt til að efla þroska æskunnar? Þessu beini ég til hæstv. menntmrh. til athugunar og í fullri vinsemd.

Annað, sem ég vildi beina til hans í fullri vinsemd — og það er nú eiginlega aðalástæðan til þess að ég kvaddi mér hljóðs — er eitt hneyksli í skólamálum sem hefur viðgengist alltof lengi óátalið. Framhaldsskólanemendum er á hverju einasta hausti gert að kaupa einhver kynstur af kennslubókum og auðvitað ekkert við því að segja. Nauðsynlegust allra námsgagna eru að sjálfsögðu kennslubækur, þó að manni virðist nú reyndar að sumar þessar bækur mættu vera svolítið ódýrari en þær eru. En það furðulega er það hve margar hinar dýrustu bækur endast skammt. Og þá á ég ekki við pappírinn og ekki heldur við bandið, heldur við efni þeirra. Mörg bókin, sem keypt var í fyrrahaust, er orðin efnislega úrelt í haust og nemendum er gert að kaupa nýja útgáfu. Þetta þekkja foreldrar sem hafa staðið í því að koma börnum sínum mörgum í gegnum framhaldsskóla. Svona hefur þetta gengið núna undanfarin ár. Það er ekki hægt að láta kennslubókina, eins og tíðkaðist í þá góðu og gömlu daga, ganga frá einu systkinanna til annars — ekki nándar nærri alltaf. Bækurnar eru strax orðnar úteltar, eins og ég segi, efnislega. Og ég vil spyrja: Er ekki einhver leið til þess að hafa hemil á þessu? Það eru engir smáfjármunir sem þetta kostar heimilin á hverju hausti, jafnvel tugi þús., ég fullyrði það, sum barnmörg heimili. Og breytingarnar, sem verið er að gera, eru oft hverfandi litlar og að því er virðist helber hégómi. Ég hef sjálfur athugað og borið stundum saman þessar bækur og athugað breytingarnar, og ég fullyrði að ástæðan er oft fyrst og fremst og kannske ekkert annað en sérviska viðkomandi höfunda eða þá vítaverð gróðafíkn, og er hvorugt gott.