09.02.1976
Neðri deild: 51. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 1769 í B-deild Alþingistíðinda. (1460)

113. mál, álbræðsla við Straumsvík

Frsm. meiri hl. (Ingólfur Jónsson) :

Hæstv. forseti. Frv. þetta er búið að vera nokkuð lengi hér fyrir hv. d., var afgr. frá iðnn. fyrir jólaleyfi.

Álsamningurinn við Swiss Aluminium var gerður árið 1966. Var það fyrsti samningurinn sem íslendingar gerðu við erlendan aðila um stóriðju í landinu. Virkjunarframkvæmdir höfðu miðast við orkuþörf til almenningsnota og þess iðnaðar, sem fyrir hendi var í landinu. Starf virkjana var á hverjum tíma í samræmi við orkumarkaðinn.

Til þess að unnt væri að ráðast í stórvirkjun og tryggja með því ódýra orku var nauðsynlegt að fá kaupanda að þeirri orku sem var umfram almenna orkuþörf.

Stjórnvöld höfðu gert sér fulla grein fyrir þeim auði, sem er í fallvötnum landsins ásamt óbeisluðum jarðhita í mörgum landshlutum. Ýmsir höfðu gert sér grein fyrir því, hversu mikla nauðsyn bar til þess að nýta innlendan orkugjafa til aukinnar framleiðslu í landinn, gjaldeyrisöflunar og til gjaldeyrissparandi framkvæmda. Það var með þetta í huga sem Bjarni Benediktsson skipaði viðræðunefnd um stóriðju árið 1960.

Víðtækar rannsóknir á virkjunarstöðu í Þjórsá hófust um svipað leyti. Kom fljótt í ljós að með stórvirkjun á Þjórsársvæðinu yrði virkjunarkostnaður miklu lægri en á öðrum minni virkjunarstöðum. Til þess að geta notið fyllstu hagkvæmni við Þjórsárvirkjanir varð að ráðast í stórvirkjun, miklu stærri virkjun en áður hafði þekkst hér á landi. Stóriðjunefnd ræddi á þessum tíma við margra aðila sem virtust hafa áhuga á því að koma hér upp orkufrekum iðnaði í nokkrum greinum. Unnu sérfróðir menn að því að kanna hvað hagkvæmast væri fyrir íslendinga og hvað helst kæmi til greina. Niðurstaðan varð sú eftir mjög nákvæmar athuganir, að hagkvæmast væri að semja við Swiss Aluminium um álframleiðslu hér á landi. Við samanburð við annan orkufrekan iðnað og kjör, sem hugsanlega væri völ á, þótti sá kostur, sem í boði var hjá svissneska álfélaginu, langbestur og gefa mestar tekjur fyrir Ísland. Þess vegna var álsamningurinn gerður 1966 og álverksmiðja reist í Straumsvík.

Eftir að orkufrekur kaupandi var fyrir hendi reyndist fært að ráðast í hagkvæmustu virkjun sem völ var á við Búrfell í Þjórsá. Var sú virkjun unnin í einum áfanga og orkan því um 70% ódýrari heldur en frá smærri virkjunum. Virkjunin við Búrfell er 210 mw. Ef orkufrekur iðnaður hefði ekki verið fyrir hendi til þess að nýta orkuna frá virkjuninni við Búrfell hefðu virkjunarframkvæmdir verið áfram með sama hætti og áður. Ef virkjað hefði verið við Búrfell með þeim hætti hefði virkjunin verið gerð í mörgum áföngum, 35 mw. í hvert sinn. Virkjun með þeim hætti hefði orðið miklu dýrari, eins og áður segir. Raforka til almenningsnota og iðnaðar hefði þá orðið miklu stærri útgjaldaliður hjá almenningi og framleiðslunni heldur en verið hefur síðan virkjunin við Búrfeil tók til starfa.

Álsamningurinn var hagstæður miðað við aðstæður allar þegar samningurinn var gerður. Íslendingar hafa haft mikinn hagnað af samningnum frá því að álverksmiðjan tók til starfa. Greiðslur til innlendra aðila vegna rekstrar ISALs á tímabilinu 1. okt. 1969, þegar álverksmiðjan byrjaði framleiðslu, til 30. sept. 1975, færðar upp til gengis á Bandaríkjadollar eins og það var 30. sept. s. l., eru samtals 12 milljarðar 495.7 millj. kr. Frá því má draga skattinneign 1. okt. 1975, sem viðurkennd er með brtt. þeim, sem hér eru til umr. og viðræðunefnd um orkufrekan iðnað leggur til að verði lögfestar. Umrædd skattinneign er 4.4 millj. dollara eða 704 millj. kr. miðað við gengi dollars á þeim tíma sem áður var nefndur. Heildargreiðslur Alfélagsins til innlendra aðila á 6 árum, eftir að skattinneign hefur verið dregin frá, er 11 milljarðar 791.7 millj. kr. eða nærri 2000 millj. kr. á ári til jafnaðar í erlendum gjaldeyri.

Helstu greiðslur eru framleiðslugjald fyrir raforku, launagreiðslur og launatengd gjöld, farmgjöld til Eimskipafélags Íslands og ýmis önnur gjöld sem falla til greiðslu. Framleiðslugjaldið skiptist í tilteknum hlutföllum milli Byggðasjóðs Hafnarfjarðarkaupsíaðar og Iðnlánasjóðs. hlutur Hafnarfjarðar á að lækka samkv. gildandi samningum úr 25% í 20%. Þar sem nokkur tilfærsla verður á greiðslum ÍSALs hf. eftir þeim till., sem fyrir liggja, er nú að því unnið að gera nýtt samkomulag vegna umræddra breytinga, ef þær verða lögfestar. Verða þá flutt sérstök frv. til breyt. á þeim lögum sem kveða á um greiðslur ÍSALs til viðkomandi aðila.

Þótt álsamningurinn hafi verið hagstæður fyrir íslendinga og gefið miklar gjaldeyristekjur í þjóðarbúið frá því að álverksmiðjan hóf framleiðslu, þykir eigi að síður rétt og eðlilegt að fá fram nokkrar breyt. eftir að samningurinn hefur verið í gildi um 10 ára skeið. Forsendur allar hafa breyst frá því að umræddur samningur var gerður. Orkuverð í heiminum hefur margfaldast, framkvæmdakostnaður og verðlag á flestu hefur farið úr skorðum.

Þótt ekki sé sérstaklega gert ráð fyrir endurskoðun í álsamningnum frá 1966 þótt vissar forsendur breytist, voru eigi að siður teknar upp viðræður við forsvarsmenn Álfélagsins um vissar breyt. á samningnum. Tekist hefur að fá fram ýmsar breyt. til samræmis við breytta tíma, sem gefa íslendingum auknar tekjur.

Með frv. því, sem hér er til umr., er lagt til að lögfest verði samkomulag sem tekist hefur með ríkisstj. og Alusuisse um tilteknar breyt. á fjárhagsatriðum í aðalsamningi þeirra frá 28. mars 1966, um álbræðslu í Straumsvík, samfara breyt. á rammasamningi milli Landsvirkjunar og Íslenska álfélagsins hf. er honum fylgir. Eru breyt. þessar settar fram við aðalsamning, dags. 10. des. 1975, sem iðnrh. hefur undirritað fyrir hönd ríkisstj. með fyrirvara um staðfestingu af hálfu Alþingis.

Efnisbreytingar þær á álsamningnum, sem hér um ræðir, varða annars vegar framleiðslugjald það, sem ÍSAL greiðir í stað almennra skatta, og hins vegar verð fyrir rafmagn til álversins frá Landsvirkjun, en hvort tveggja hefur verið endurskoðað.

Einnig hefur verið samið um heimild til stækkunar hjá ÍSAL sem svarar 1/7 hluta af núv. bræðslumannvirkjum álversins. Svarar það til allt að 10 700 tonna aukningu á álframleiðslu árlega. Gildir stækkunarheimildin til ársloka 1979. Mun þessi hluti bræðslunnar sæta sömu samningskjörum og þeir sem fyrir eru ef heimildin verður notuð innan tiltekins tíma. Fyrirhugað er að hin nýju fjárhagsákvæði gildi frá 1. okt.1975 og er þess vegna nauðsynlegt að hraða staðfestingu þeirra.

Iðnn. þessarar hv. d. hefur haft málið til athugunar og meðferðar. Liggur fyrir nál. á þskj. 226 frá meiri hl. n. sem mælir með því að frv. verði samþ. óbreytt. Undir nál. skrifa Ingólfur Jónsson, Þórarinn Þórarinsson, Lárus Jónsson, Ingvar Gíslason, Benedikt Gröndal og Pétur Sigurðsson. Vilborg Harðardóttir skilar séráliti.

Iðnn. ræddi málið á þremur fundum og kynnti sér það rækilega. Á fundi hjá n. mættu Jóhannes Nordal seðlabankastjóri, Hjörtur Torfason hrl. og Garðar Ingvarsson hagfræðingur. Jóhannes Nordal er formaður viðræðunefndar um orkufrekan iðnað og auk þess formaður stjórnar Landsvirkjunar. Hjörtur og Garðar hafa unnið með viðræðunefnd að breyt. á álsamningnum. Fyrirspurnum um orkumál og margt fleira, sem við kemur væntanlegum breyt. á álsamningnum, svöruðu gestir n. skýrt og greinilega.

Á öðrum fundi n. mættu formaður Náttúruverndarráðs, Eysteinn Jónsson, og framkvæmdastjóri þess, Árni Reynisson, ásamt Vilhjálmi Lúðvíkssyni efnaverkfræðingi. Frá Heilbrigðiseftirliti ríkisins mætti fulltrúi þess, Eyjólfur Sæmundsson. Var sérstaklega rætt um mengunarmál á þeim fundi. Rætt var um þann drátt sem á því hefur orðið að setja upp hreinsitæki í álverksmiðjunni. Raddir komu upp um það, að aukin mengunarhætta gæti orðið að því að stækka verksmiðjuna um 1/7 eða auka framleiðsluna um 10 700 tonn á ári, eins og gert er ráð fyrir með þeim breyt. á álsamningnum sem fyrirhugað er að lögfesta. Var rætt ítarlega á fundinum um mengunarmál og mengunarvarnir. Voru menn sammála um að gera kröfur til þess, að fullkomnum hreinsitækjum verði komið upp í verksmiðjunni sem allra fyrst, auk þess sem væntanleg stækkun verksmiðjunnar verði einnig gerð með fullkomnum hreinsitækjum.

Á þriðja fundi n. mætti framkvæmdastjóri ÍSALs hf., Ragnar Halldórsson. N. gerði fyrirspurnir um mengunarvarnir og drátt á uppsetningu hreinsitækja. Gerði framkvæmdastjórinn grein fyrir því. N. óskaði eftir skriflegri grg. um álit frá stjórn ÍSALs. Varð framkvæmdastjórinn við þeirri ósk. Er sú grg. undirrituð af stjórnarformanni ÍSALs, Halldóri H. Jónssyni, og framkvæmdastjóra fyrirtækisins, Ragnari Halldórssyni. Var grg. prentuð með nál. Þykir rétt — með leyfi hæstv. forseta — að lesa grg. þar sem hún skýrir það mál, sem um ræðir, greinlega. Grg. er dags. 17. des. 1975 og fer hér á eftir:

„Í tilefni af fyrirspurnum yðar varðandi aðgerðir til hreinsunar á útblæstri á kerskálum áliðjuversins í Straumsvík leyfum vér oss hér með að staðfesta eftirfarandi:

Umræður og athuganir um það málefni, hvaða aðgerða væri þörf í ofangreindu tilliti, hafa staðið nær samfellt frá því að framkvæmdir hófust við áliðjuverið á grundvelli aðalsamnings frá 1966 og einkum eftir að síðari kerskáli þess var tekinn í notkun haustið 1972. Af hálfu Íslenska álfélagsins hf. hafði þá verið tekin upp samvinna við íslenska uppfinningamanninn Jón Þórðarson um að fá úr því skorið, hvort hreinsitæki, sem hann hafði fundið upp, mundu henta til hreinsunar á útblæstri frá kerskálum áliðjuversins. Hófst sú samvinna á árinu 1971, og í marsmánuði 1973 var svo komið að búið var að koma upp hreinsitæki ásamt tilheyrandi tilraunaútbúnaði á þak kerskála 1 í Straumsvík til prófunar á virkni þessarar hreinsiaðferðar. Með bréfi, dags. 28. mars 1973, til heilbr.- og trmrh., sem þá var jafnframt ráðh. iðnaðarmála, lýsti ÍSAL því yfir að sett yrðu upp hreinsitæki í Straumsvik í framhaldi af þeim umræðum sem þá voru hafnar.

Tilraunirnar stóðu yfir á annað ár og fylgdist Heilbrigðiseftirlit ríkisins með þeim allan tímann. Þær báru þó ekki þann árangur sem vænst hafði verið, og með bréfi, dags. 9. okt. 1974, var heilbrrn. tilkynnt að tilraunum með tæki Jóns Þórðarsonar hefði verið hætt af ástæðum sem þar voru nánar greindar, hins vegar væri nú ráðgert að setja upp svokölluð þurrhreinsitæki í kerskálunum að viðhöfðu samráði við Heilbrigðiseftirlit ríkisins. Var jafnframt ítrekuð sú yfirlýsing félagsins að hreinsitæki yrðu sett upp og því verki hraðað svo sem tæknilegar ástæður mundu leyfa. Lokaskýrsla um tilraunir við hreinsitæki Jóns Þórðarsonar var send Heilbrigðiseftirliti ríkisins með bréfi, dags. 21. nóv. 1974, og á fundi með fulltrúum þess og heilbrn. Hafnarfjarðar hinn 25. s. m. var lögð fram bráðabirgðaskýrsla um uppsetningu þurrhreinsitækja er Alusuisse hafði unnið að beiðni ÍSALs. Var óskað eftir því á fundinum að látið yrði í ljós álit þessara aðila um það, hvort þurrhreinsitæki þau, sem lýst var í skýrslunni, mundu fullnægja þeim kröfum sem gerðar væru af hálfu Heilbrigðiseftirlits ríkisins varðandi loftmengunarvarnir við áliðjuverið. Beiðni þessi var síðan ítrekuð með bréfi, dags. 2. jan. 1975. Var henni svarað á þá leið með bréfi heilbrrn. hinn 20. s. m., að málið væri í athugun. Hjá ÍSAL var haldið áfram að vinna að framgangi málsins, og með bréfi hinn 11. júní 1975 var Heilbrigðiseftirlitinu send endurskoðuð framkvæmdaáætlun um uppsetningu þurrhreinsitækja ásamt framvinduskýrslu gefinni á stjórnarfundi ÍSALs í maí 1975. Voru upplýsingar þessar sendar í framhaldi af fundi sem haldinn var í lok aprílmánaðar með fulltrúa Heilbrigðiseftirlitsins, en þar kom fram að tækin mundu væntanlega teljast fullnægjandi.

Framkvæmdaáætlun ÍSALs um þurrhreinsitæki gerði ráð fyrir því, að unnið yrði að hönnun á kerþekjum og tilraunum með þær á tímabilinu apríl 1975 til júlí 1976, síðan yrði hafist handa um endanlega hönnun kerfisins í heild og útboðssmíði og uppsetningu og gangsetningu tækja og yrði þessu að fullu lokið í árslok 1978.

ÍSAL hefur unnið eftir þessari áætlun á undanförnum mánuðum og er hönnun og smíði á tilraunaþekjum nú lokið og uppsetning þeirra hafin. Jafnframt stendur ÍSAL enn að því að ljúka uppsetningu tækjanna samkv. þessari áætlun. Taka ber þó fram í því sambandi, að hér er um stórkostlega fjárfrekt fyrirtæki að ræða. Heildarkostnaður er 2200 millj. kr. samkv. núverandi áætlun, og getur hraði framkvæmda orðið háður því að lánsfé fáist til þeirra.

Umbeðin formleg umsögn frá Heilbrigðiseftirliti ríkisins um þurrhreinsitækin hefur ekki borist að svo stöddu. Hins vegar hefur Heilbrigðiseftirlitið lagt fram till. um tiltekna útblástursstaðla sem það hefur undirbúið að höfðu samráði við Náttúruverndarráð og Heilbrigðismálaráð Hafnarfjarðar, og eru þeir staðlar nú til umr. við Heilbrigðiseftirlitið.

Hin fyrirhuguðu þurrhreinsitæki eru fullkomnasti búnaður sem völ er á yfirleitt til hreinsunar á útblæstri áliðjuvera. Er því engin ástæða til þess að ætla annað en að fyllsta samkomulag geti orðið við heilbrigðisyfirvöld um uppsetningu og rekstur tækjanna.

Í samningum ríkisstj. og Alusuisse um annan viðauka við aðalsamning þeirra frá 28. mars 1966, sem nú liggur fyrir Alþ. til staðfestingar, er kveðið á um heimild handa ÍSAL til að stækka áliðjuverið í Straumsvík með lengingu á kerskála 2, eða sem svarar aukningu um 1/7 hluta, 20 mw., 10 þús. árstonn á núv. afkastagetu. Er notkun þessarar heimildar háð því skilyrði af hálfu ÍSALs að stækkunin geti talist fjárhagslega verjandi á þeim tíma, þ. e. til ársloka 1979. Fari svo, að þessi heimild verði notuð, er fyrirhugað að hafa umrædda viðbót kerskálans búna fullkomnum hreinsitækjum frá öndverðu og staðfestir ÍSAL það hér með í samræmi við skilning aðilanna meðan á samningaviðræðum stóð. Virðingarfyllst

Íslenska álfélagið hf.

Halldór H. Jónsson, Ragnar S. Halldórsson.

Með því sem hér hefur sagt verið ættu hv. alþm. að vera sammála um að mengunarmálum í álverksmiðjunni muni verða gerð góð skil og að fullnægjandi skýringar eru gefnar á þeim drætti sem orðið hefur á uppsetningu hreinsitækja í verksmiðjunni.

Með fyrirhuguðum breyt. á álsamningnum er stefnt að auknum heildartekjum íslendinga af álverinu. Eftir breyt. verða tekjur einnig öruggari en verið hefur eftir gildandi samningum. Væntanleg stækkun verksmiðjunnar mun einnig verða til þess að auka tekjurnar, bæði vegna framleiðslugjalds og orkusölu. Orkusalan eykst um 20 mw., þar af eru 12 mw. afgangsorka.

Aðalbreytingarnar frá gildandi samningum eru þessar:

Nýtt orkuverð tekur gildi frá 1. okt. 1975, en þá átti rafmagnsverð að lækka til álversins úr 3 mill í 2.5 mill. Nýja orkuverðið verður tengt álverði og hækkar eftir settum reglum frá 1. jan. 1978 miðað við verð á áli. Frá 1. okt. 1975 er nýja verðið þannig samkv. rammasamningi: til ársloka 1975 3 mill. næstu 6 mánuði 3.5 mill, næstu 12 mánuði 4 mill, næstu 6 mánuði 4–5 mill eftir álverðinu. Frá 1. jan. 1978 til 1. okt. 1994 fylgir orkuverðið álverði, en fer þó aldrei niður fyrir 3.5 mill þótt álverð lækki frá því sem nú er. Allir gera ráð fyrir að álverð hljóti að hækka á komandi árum, en menn greinir á um hversu ört hækkunin kemur og hve mikil hún verður. Álverð er nú skráð 39 cent á enskt pund og samsvarandi orkuverð er þá 3.9 mill, en fer hækkandi skv. settum reglum eftir álverði.

Framleiðslugjaldi ÍSALs hf., sem hefði hækkað úr 12.50 dollurum í 20 dollara á tonn 1. okt. 1975, er breytt frá þeim tíma í lágmarksskatt sem greiða ber mánaðarlega eftir útskipunum. Er lágmarksskatturinn 20 dollarar á tonn eða sem nemur 1 millj. og 500 þús. dollurum á ári miðað við afkastagetu verksmiðjunnar, 75 þús. tonn á ári. Þessi skattur greiðist án tillits til afkomu verksmiðjunnar og myndar enga skattinneign, eins og gerist skv. eldri samningum, þegar reksturinn gengur ekki vel. Lágmarksskattur skv. fyrri samningi er 235 þús. dollarar á ári, en mun falla niður ef fyrirhugaðar breytingar á framlögum verða samþykktar. Við hækkanir á álverði, sem er umfram 40 cent á enskt pund, fer framleiðslugjaldið hækkandi eftir tilgreindum taxta í stiglækkandi hlutfalli. Með þeim ákvæðum, sem gilda um hækkun skatts eftir álverði, er skattlagningin gerð raunhæfari og öruggari og mun gefa íslendingum meiri tekjur.

Eins og fram er tekið í skýringum, sem prentaðar eru með frv. á þskj. 138, fellur viðbótarskatturinn vegna nýju ákvæðanna um leiðréttan taxta í gjalddaga í byrjun næsta árs eftir skattárið. Endanlegt uppgjör fer þá fram í samræmi við tekjur ÍSALs. Með breyt. er komið í veg fyrir að ný skattinneign geti myndast. Hækkun skattsins vegna stigbreytinganna á ekki að leiða til skattlagningar umfram 55% af nettóhagnaði ÍSALs. Einnig er tekið upp tekjulágmark, þannig að framleiðslugjaldið má aldrei vera lægra en 35% af nettóhagnaði fyrirtækisins. Fyrirtækinu er heimilað að mynda 20% varasjóð eftir svipuðum reglum og eru í gildi hér á landi um skatta.

Í álsamningnum frá 1966 eru sérstök ákvæði um skattgreiðslur, þannig að framleiðslugjaldið er lagt beint á framleiðslu vörunnar og er óháð ágóða eða tapi hjá félaginu að stofni til. en gjaldið er takmörkunum háð, þannig að skattinneign myndast við áramót ef greiðslur gjaldsins á liðnu ári hafa farið yfir 50% af nettótekjum félagsins eftir árið. Skattinneign, sem myndast hefur, er notuð til greiðslu á framleiðslugjaldi seinni ára skv. ákvæðum í álsamningnum.

Það er mikils virði að koma ákvæðinu um myndun skattinneignar út úr samningnum, eins og gert verður ef Alþ. samþ. brtt. þær sem fyrir liggja við álsamninginn. Vegna lélegrar afkomu ÍSALs árin 1974 og 1975 hefur myndast vegna rekstrartaps mikil skattinneign. Hefur verið samið um inneignina skv. eldri reglum vegna rekstrar fram til 1. okt. 1975. Inneignin nam 4.4 millj. dollara og greiðist með vöxtum sem miðast við forvexti bandaríska seðlabankans, sem eru skv. meðaltali síðustu ára 5.6%. Skattinneignin greiðist af framleiðslugjaldi sem er umfram 20 dollara á tonn. Fer því eftir álverði og afkomu ÍSALs hversu ört skattinneignin greiðist upp.

Gert er ráð fyrir að ÍSAL fái kauprétt á orku fyrir 1. apríl 1978 til 31. des. 1979 sem er 20 mw., og skiptist hún þannig, að 40% er forgangsorka, en 60% afgangsorka. ÍSAL verður að tilkynna Landsvirkjun með árs fyrirvara hvort kauprétturinn verður notaður og ekki síðar en 31. des. 1978. Ef ÍSAL notar kaupréttinn um orkukaup gilda ákvæði nýja samkomulagsins til loka samningstímabilsins. Landsvirkjun hefur látið reikna út meðalverð viðbótarsölunnar árin 1978 og 1979, miðað við álverð 45 cent á pund, og er það 4.43 mill/kwst. Ef gengið er út frá því að verð til ÍSALs á afgangsorku verði það sama og ákveðið er til málmblendiverksmiðjunnar sömu ár, verður verð á forgangsorku á viðbótarsölunni 10.3 mill/kwst., sem er aðeins betra en til járnblendiverksmiðjunnar, a. m. k. fyrstu árin.

Viðbótartekjur Landsvirkjunar umrædd tvö ár yrðu 709 þús. dollarar hvort ár vegna fyrirhugaðrar stækkunar á álverksmiðjunni. Leyfi ég mér að vitna hér í nokkur atriði úr umsögn stjórnar Landsvirkjunar um breyt. á raforkusölusamningi eins og hann verður skv. brtt. þeim sem fyrir liggja. Þar segir:

„Tekjuaukning sú, sem um er að ræða skv. hinum breytta samningi, mun hafa mikil jákvæð áhrif á fjárhag Landsvirkjunar og auka til muna svigrúm fyrirtækisins til að mæta hækkuðum rekstrarkostnaði og til hæfilegrar eiginfjármögnunar nýrra framkvæmda. Þannig er þess að vænta, að þörf Landsvirkjunar til hækkana á orkuverði til almenningsrafveitna á hverjum tíma muni verða mun minni en ella og er t. d. ekki reiknað með að orkuverð til almenningsveitna verði hækkað nú um áramót.“

Þessi umsögn er skrifuð fyrir áramót, enda var hugsað um það í byrjun að lögfesta frv. fyrir þinghlé, en ekki gafst tími til þess.

„Samningsuppkastið gerir ráð fyrir lengingu seinni kerskála ÍSALs til jafns við þann fyrri.

Þessi lenging gerir það að verkum að Landsvirkjun getur selt sem svarar 20 mw. af afli í víðbót við þau 140 mw. sem núv. samningur gerir ráð fyrir. Af þessum 20 mw. verður hægt að selja 60% af samsvarandi orku sem afgangsorku með sömu skilmálum og í samningnum við járnblendiverksmiðjuna. Þessi aukna orkusala er Landsvirkjun mjög hagstæð. Forgangsorkuverð í ofangreindri viðbótarsölu samsvarar rúmlega 10 mill/kwst., sem er hliðstætt eða betra en það verð, sem samdist um til járnblendiverksmiðjunnar.“

Hér hafa verið tilfærð nokkur atriði úr umsögn Landsvirkjunar um breyt. á raforkusölusamningnum. Eðlilegt er að gera nokkurn samanburð á gildandi samningi við ÍSAL og því sem verður eftir breytinguna.

Enginn mun efast um að rétt er sagt í umsögn Landsvirkjunar um rafmagnsverðið. Hagur Landsvirkjunar batnar og komist verður hjá að hækka orkuverð til almenningsnota eins mikið og annars hefði verið óhjákvæmilegt að gera.

Um framleiðslugjaldið er það að segja, að það að tryggja lágmarksgjald, hvernig sem rekstrarafkoma fyrirtækisins verður, er mjög mikils virði, um leið og ákvæði um myndun skattinneignar er fellt burt.

Greiðslur frá Álfélaginu verða með nýja fyrirkomulaginu öruggari, þar sem bæði orkuverð og skattar fylgja álverðinu og útreikningar allir verða einfaldari en áður. Með væntanlegri stækkun eru auk þess tryggðar samanlagt meiri tekjur. Fer ekki á milli mála að fengist hefur umtalsverð breyting til batnaðar á eldri samningi í samræmi við breyttar forsendur á þeim 10 árum sem liðin eru frá því að samningurinn var upphaflega gerður.

Í skýringum með frv. eru sett fram tvö dæmi, A og B. Ætla má að dæmi A gæti verið raunhæft. Það gerir ráð fyrir svipaðri verðþróun á áli og undanfarna tvo áratugi. En dæmi B gerir ráð fyrir örari verðhækkunum á áli eða um 5% á ári að meðaltali í dollurum. Einnig gerir dæmi B ráð fyrir mun meiri hagnaði. Dæmi B verður að teljast óraunhæft, enda sett fram af íslensku samninganefndinni í viðræðum við Alusuisse til stuðnings málstað Íslands.

Skv. dæmi A kemur skýrt fram að tekjur íslendinga aukast verulega við fyrirhugaðar breyt. á samningnum. Í dæminu eru áætlaðar greiðslur verksmiðjunnar á sköttum og orku í 5 ár, 10 ár og 19 ár, eða til loka samningstímans. Þykir rétt að nefna hér þær tölur sem í nefndu dæmi eru.

Þegar um er að ræða 5 ára tímabil er greiðsla skv. núgildandi samningum vegna orkusölu 14.1 millj. dollarar, skattgreiðslur 10.6 millj. dollarar, skattinneign 12 millj. dollarar, greiðslur samtals 12.7 millj. dollarar. En skv. nýju reglunum og 20 mw. stækkun verða tekjur af orkusölu í 5 ár 24.8 millj. dollarar í stað 14.1, skatttekjur verða aðeins minni, 8 millj. dollarar í stað 10.6, skattinneign verður 5.8 millj. og heildartekjur verða 27 millj. dollarar í stað 12.7 millj. skv. gildandi reglum.

Sé miðað við 10 ára tímabil verða tekjur af orkusölu skv. núgildandi reglum 28.1 millj. dollarar, en skv. nýju reglunum og stækkun verksmiðjunnar 55.6 millj. dollarar. Skattar verða l6.6 millj. eftir breyt., en skv. núg. reglum 18.1 millj. dollarar. Heildartekjur á 10 árum skv. gildandi reglum eru 30.4 millj. dollarar, en skv. nýju reglunum 64.6 millj. dollarar.

Sé miðað við 19 ára tímabil verða tekjur af orkusölu 53.4 millj. dollarar skv. núg. reglum, en 116.7 millj. eftir nýju reglunum. Skattar verða skv. gildandi reglum 37.1 millj. dollarar, en skv. nýju reglunum 32 millj. dollarar. Heildartekjur skv. gildandi reglum 62.6 millj. dollarar, en skv. nýju reglunum 136.3 millj. dollarar.

Það má ætla að þessir samningar verði endurskoðaðir á þessu 19 ára tímabili, enda þótt ekkert ákvæði sé í samningunum um það. En tímarnir breytast svo ört og allar forsendur að samningar til svo langs tíma eru vart hugsanlegir án þess að endurskoðun fari fram. Og eins og íslendingar óskuðu eftir endurskoðun á samningunum núna án þess að um það væri ákvæði í samningnum, svo geta þeir vitanlega gert eins eftir 5 eða 10 ár aftur ef forsendur breytast líkt því sem gerst hefur á s. l. 10 árum.

Hæstv. forseti. Ég tel ekki ástæðu til að draga fleira fram til stuðnings við það frv. sem hér er til umræðu. Ætla má að flestir hafi gert sér fulla grein fyrir því, að með því að samþ. frv. verði tekjur íslendinga af álverksmiðjunni verulega auknar og samningurinn í heild gerður auðveldari í framkvæmd. Ég vænti þess að frv. fái fljóta afgreiðslu í hv. þd. og verði samþ. óbreytt eins og meiri hl. iðnn. leggur til.