09.02.1976
Sameinað þing: 48. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 1778 í B-deild Alþingistíðinda. (1465)

Yfirlýsing varðandi landhelgismálið

Lúðvík Jósepsson:

Herra forseti. Það er rétt, sem hæstv. forsrh. sagði, að við í stjórnarandstöðunni töldum eðlilegt og sjálfsagt, að hæstv. ríkisstj. skýrði nú frá breyttum viðhorfum í landhelgismálinu, og höfum gert ráðstafanir til þess að málið yrði rætt hér utan dagskrár ef ríkisstj. sæi ekki ástæðu til þess að gefa skýrslu um stöðu málsins.

Nú er öllum 1jóst að það hefur orðið mjög veruleg breyting á stöðu landhelgismálsins nú á síðustu dögum eða frá því að þingfundir voru hér síðast. Síðan er sem sagt það komið upp, að bresk herskip hafa verið send inn í íslenska fiskveiðilögsögu á nýjan leik, og með því hefur í rauninni verið svipt í sundur þeim möguleika, sem rætt var um, að halda áfram víðræðum um skammtímasamning. Nú það er greinilegt af hálfu breta að þeir sækja sitt mál af fyllstu hörku, því að þeir beina beinlínis skipum sínum inn á friðuð svæði og ganga því í rauninni enn þá harðar til verks en nokkru sinni áður.

Áður hafði hæstv. ríkisstj. gefið til kynna að hún mundi grípa til þess ráðs að slíta stjórnmálasambandi við breta ef þeir héldu áfram herskipaíhlutun sinni hér á fiskimiðunum. Ég hygg að allir hafi skilið þær yfirlýsingar þannig, að þær væru efnislegs eðlis, að þetta væri efni málsins og það breytti ekki þessari ákvörðun þó að bretar tækju skip sín út fyrir 200 mílurnar um stundarsakir, en sendu þau inn aftur litlu síðar. Nú hefur sem sagt komið í ljós að hæstv. ríkisstj. hikar enn einu sinni í málinu. Hún biður enn, og nú er gefin sú skýring að það séu menn á vegum fastaráðs Atlantshafsbandalagsins að íhuga málið, þeir séu að vinna að málinu, og hæstv. ríkisstj. segist ekki vilja torvelda þeim á neinn hátt þeirra vinnubrögð. En skyldu bretar ekkert torvelda vinnubrögð þeirra með því sem þeir eru að gera, þegar þeir senda herskip sín hingað og þegar þeir ganga gegn öllum samþykktum og viðurkenndum reglum í sambandi við fiskveiðar, eins og þeir gera?

Það er skoðun okkar alþb.- manna, að þegar staða eins og þessi kemur upp skipti höfuðmáli að af okkar hálfu sé haldið fast á málinu og það komi fram alveg ákveðin stefna — ekki hikandi, óljós stefna. Það er beinlínis hætta á því, að andstæðingur okkar í þessum átökum skoði þessi viðbrögð hæstv. ríkisstj. sem bein veikleikamerki af okkar hálfu. Það er álit okkar að nú ætti ríkisstj. að sjálfsögðu að standa við fyrri samþykktir og tilkynningar og slíta strax stjórnmálasambandi við Bretland til þess að undirstrika hvaða augum við lítum á málíð. Því endurtek ég það, að það er eindregin krafa okkar að þegar í stað verði staðið við fyrri samþykktir í þessum efnum og stjórnmálasambandinu verði slitið, þar á ekki að sýna neitt hik.

Í öðru lagi teljum við að það sé aðeins rökrétt framhald að tilkynna Norður-Atlantshafsbandalaginu að við munum loka stöðvum þeirra hér á landi ef herskip breta verði ekki dregin út úr landhelgi innan tiltekins stutts tíma. Það er vitanlega í hrópandi mótsögn að láta Atlantshafshandalagið hafa þessa aðstöðu hér í landinu og þar með breta á meðan þeir beita hér herskipavaldi. Þetta á að tilkynna því og tilkynna strax.

Þá álítum við að það eigi einnig þegar í stað að taka ákvörðun um að efla landhelgisgæslu okkar, bæta strax við nokkrum skipum sem eru tiltæk í gæsluna, af því að við vitum að fleiri skip af okkar hálfu geta truflað veiðar bretanna mun meira en fá skip, þrátt fyrir það að freigáturnar séu togurunum til verndar. Ég álít að þessa ákvörðun eigi að taka strax, ekki bíða neitt með hana. Það ætti einnig að koma tilkynning frá okkar hálfu um það, að við leitum eftir kaupum eða leigu á hraðskreiðu gæsluskip sem gengur örugglega meira en freigáturnar. Slík skip eru til. Við eigum að hefjast handa strax til þess að sýna andstæðingi okkar að við erum sannarlega ekki að hugsa um neitt undanhald í þessu máli. Viðbrögð af þessu tagi mundu ábyggilega styrkja okkar stöðu, hvað svo sem liður einhverjum viðræðufundum manna á vegum NATO. Það hefur ekkert komið fram um það, um hvað þeir herrar eru að ræða. Eru þeir kannske farnir að semja við breta um lausn á landhelgismálinu?

Ég hélt að sú afstaða hefði í rauninni verið mörkuð hér af meiri hluta Alþ., með því að ég tel að Framsfl. hljóti að fylgja eftir þeim yfirlýsingum, sem formaður flokksins hefur gefið, að telja að hér sé enginn grundvöllur til samninga, það sé ekki um neitt að semja, og hafi þannig í rauninni klippt á þá möguleika sem sumir héldu vera. Ég tel því, að það hafi komið fram vilji meiri hluta Alþ. gegn samningaviðræðum og gegn samningum, og það á að fylgja því eftir. Því er í rauninni alveg óskiljanlegt að menn séu nú að bíða og geti ekkert aðhafst í málinu, vegna þess að einhverjir menn í Brüssel séu að ræða um eitthvað varðandi landhelgismálið sem við höfum ekki fengið upplýsingar um, en getur varla verið annað en það að þeir séu farnir að fást við að gera samninga um okkar landhelgismál.

Ég undirstrika það, að ég tel að ríkisstj. eigi nú þegar að marka skýra afstöðu í málinu, og þessi viðbrögð, sem ég hef nefnt, væru þau sem eðlilegast væri að grípa til nú þegar. En allt hik er hættulegt í þessari stöðu. Að sjálfsögðu ættum við svo að fylgja þessu eftir með stórauknum áróðri af okkar hálfu til þess að sýna fram á það hvernig bretar ganga í einu og öllu gegn sínum samþykktum varðandi fiskveiðar og fiskvernd. Við þurfum auðvitað að fylgja því einnig eftir.

Hæstv. forsrh. sagði að ríkisstj. mundi standa að því að taka ákvörðun um stjórnmálaslit í samráði við aðra flokka og utanrmn. Þetta er auðvitað ekkert annað en eins og hver annar vandræðabiðleikur. Flokkarnir hafa tekið alveg skýra afstöðu til þess máls. Það liggur alveg skýrt fyrir hver er afstaða flokkanna til málsins. Utanrmn. hefur líka fjallað um málið. Hér er aðeins um vandræðabiðleik að ræða hjá þeim sem veit ekki hvað hann ætlast fyrir í málinu.

Ég vil nú enn einu sinni skora á hæstv. ríkisstj. að taka málið til athugunar og skjótrar athugunar á þeim grundvelli að mörkuð verði skýrari stefna og gerðar þær ráðstafanir af okkar hálfu sem sýna að við erum ekki í neinum hugleiðingum um að gefast upp fyrir ásóknum breta. Ég er hræddur við þetta hik, og ég er hræddur um að það verði skilið þannig af okkar andstæðingum að þeir herði aðeins sóknina gegn okkur.