09.02.1976
Sameinað þing: 48. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 1782 í B-deild Alþingistíðinda. (1467)

Yfirlýsing varðandi landhelgismálið

Karvel Pálmason:

Herra forseti. Nú er um það bil ein vika liðin frá því að opinberlega var skýrt hér á Alþ. frá því, að allir stjórnmálaflokkar væru um það sammála að hafna þeim afarkostum sem bresk stjórnvöld höfðu þá sett fram í sambandi við hugsanlega lausn á landhelgismálinu. Í áframhaldi af því ákvað hæstv. ríkisstj. að gefa bretum kost á því eð ræða enn frekar um lausn landhelgismálsins, þá á grundvelli þeirra sjónarmiða að hugsanlegir samningar yrðu gerðir til skamms tíma.

Frá því að þessir atburðir áttu sér stað hafa vissulega átt sér stað miklar breytingar í sambandi við landhelgismálið og deiluna um það. Það liðu, að ég held, ekki nema nokkrar klukkustundir frá því að hæstv. ríkisstj. sendi þessi boð til London og utanrrh. breta hafði móttekið þau, samþ. þau, en með því skilyrði og undir því fororði að íslendingar aðhefðust ekkert um gæslu landhelginnar á þessu tímabili. Það gerðist svo stuttu síðar, að bretar frömdu það ódæði sem eitt út af fyrir sig ætti að vera nægjanlegt til þess að stjórnvöld á Íslandi gripu til alvarlegra og róttækra aðgerða gagnvart bretum, þ. e. að þeir samkv. fyrirskipunum frá stjórnvöldum hefja veiðar á friðlýstu, algjörlega friðuðu svæði á Íslandsmiðum. Þetta eitt út af fyrir sig hefði átt að nægja til þess að gripið hefði verið til róttækra mótaðgerða af hálfu íslendinga. Auk þess hafði það áður gerst, að bresk stjórnvöld höfðu tekið þá ákvörðun að senda enn á ný bresk herskip inn í landhelgina til gæslu veiðiþjófa.

Hér var auðvitað um að ræða svo gjörbreytt viðhorf frá því sem málið stóð þegar það var var rætt hér síðast á Alþ., að varla hefði hvarflað að nokkrum íslendingi að ekki yrðu sýnd hastarlegri viðbrögð af hálfu íslenskra stjórnvalda en raun ber vitni. Það voru allir stjórnmálaflokkar um það sammála á sínum tíma, að ekki væri um annað að gera heldur en að slíta stjórnmálasambandi við breta. Málinu var þó slegið á frest vegna þess að bresk stjórnvöld höfðu þá kallað freigáturnar út fyrir 2.00 mílna mörkin, í trausti þess að íslendingum yrði haldið góðum a. m. k. þann tíma sem reiknað var með að samningaviðræður stæðu yfir í London — eða könnunarviðræður réttara sagt. Það hefði því ekki hvarflað að neinum, þegar þessi ósköp höfðu átt sér stað, að þá yrði enn hikað við að taka ákvörðun, hreina og beina, um stjórnmálaslit við breta.

Ég skildi hæstv. utanrrh. svo í viðtali í sjónvarpinu, ef ég man rétt, sama kvöld og bretar höfðu tekið þessar ákvarðanir, að hann — að vísu sagði hann persónulega — liti svo á að þessar aðgerðir kölluðu fram skilyrðislaus stjórnmálaslit við breta. En ekki hefur orðið uppi á teningnum sú ákvörðun hjá hæstv. ríkisstj.

Hæstv. forsrh. segir nú að ákvörðun um stjórnmálaslit verði tekin í samráði við þingflokkana og utanrmn. Ég skil yfirlýsingu hæstv. ríkisstj. og forsrh. á þann veg að hún taki ekki þessa ákvörðun svo til eingöngu vegna þess að munnlegar óskir hafi komið fram um það af hálfu áhrifamanna innan Atlantshafsbandalagsins að þeim gæfist kostur á að ræða við breta um hugsanlega lausn eða a. m. k. ekki meiri spennu varðandi þessa deilu.

Ég held að það hljóti að liggja í hlutarins eðli, ef bretum líðst að ganga svo langt eins og þeir hafa nú gert, án nokkurra viðbragða af hálfu íslenskra stjórnvalda til þess að svara slíku ofbeldi og ódæði eins og hér er um að ræða, að þá er enginn vafi á því að litið verður á slíka ákvörðun sem — væglega til orða tekið — hik af hálfu íslenskra stjórnvalda. Í stað þessa hefði auðvitað átt að svara með róttækum aðgerðum og ákvörðunum. Ég hef sagt það hér áður: stjórnmálaslit eru óumflýjanleg, og slíka ákvörðun á að taka strax og tilkynna, og í áframhaldi af því, hafi það ekki tilætluð áhrif, á að beita þeim aðila fyrir sig, Bandaríkjunum, sem eru stór og líklega stærsti eða áhrifamesti aðilinn innan NATO og hefur tekið að sér varnir á Íslandi, og gera þeim það ljóst í eitt skipti fyrir öll, að komi þau ekki í veg fyrir að bretum líðist slíkt athæfi eins og þeir hafa nú uppi innan íslenskrar landhelgi, þá geti það haft að öllum líkindum þær afleiðingar að meiri hl. skapist fyrir því á Íslandi og á Alþingi íslendinga að Ísland segi sig úr Atlantshafsbandalaginu. Þetta er sá lykill sem við höfum fyrst og fremst að þeirri lausn á þessari deilu sem okkur er í hag. og það er þetta sem á að nota.

Ég vil spyrja í áframhaldi af því. sem hæstv. forsrh. sagði hér áðan, að óskir hefðu komið fram af hálfu Atlantshafsbandalagsins, áhrifamanna þess, um að frestur yrði gefinn svo að heim gæfist kostur á að kanna málin og ræða: Hvað er verið að ræða? Hvað ætla þessir menn að ræða? Ég trúi því ekki að íslensk stjórnvöld ljái máls á frestun til svara gagnvart ofbeldi breta án þess að þau viti eða það sé látið í það skína hvað sé verið að ræða á bak við tjöldin til lausnar deilunni.

Ef forsvarsmenn Atlantshafsbandalagsins telja að skýlaus yfirlýsing íslenskra stjórnvalda um stjórnmálaslit við breta torveldi lausn deilunnar, hvað þá um þær aðgerðir sem bretar hafa sýnt gagnvart okkur nú síðustu daga? Skyldu þær aðgerðir og ákvarðanir ekki eiga sinn þátt í því að torvelda lausn þessarar deilu? Eða ber að skilja þetta svo, að bretum líðist að gera svo að segja hvað sem er gagnvart okkur, en síðan sé þess krafist af íslendingum að þeir sýni svo til ótakmarkaða biðlund gagnvart þessum háu herrum?

Ég held að það sé enginn vafi á því, að ef ekki verður brugðið við til andsvara gegn þessu ofbeldi eins og það blasir nú við, þá verður út á við litið á það sem hik af hálfu íslendinga, — hik sem þýðir auðvitað ekkert annað en að bretar færast í aukana og halda ekki aðeins áfram þeim yfirgangi sem þeir nú þegar hafa sýnt, heldur kannske miklu meiri. Og ég vil gjarnan spyrja hæstv. forsrh. hvort nokkur hefði upplýst um það af hálfu þeirra atlantshafsbandalagsmanna, hvað þeir teldu sig þurfa langan tíma til að ganga úr skugga um það með viðræðum bak við tjöldin hvort þeir teldu líkur á því að hægt væri að slíðra vopn í þessari deilu. Eða er það meining hæstv. ríkisstj. að bíða ótiltekinn tíma með að svara þessum ofbeldisárásum breta?

Ég er ekki í neinum vafa um að almenningur á Íslandi er farinn að líta á þetta þeim augum, að það verði ekki komist hjá því að taka á þessu máli af miklu meiri festu en hæstv. ríkisstj. hefur gert til þessa. Ég vil einnig spyrja hæstv. utanrrh. um það, hvort hann sé ekki enn sömu skoðunar og hann lét orð falla um í sjónvarpsviðtali fyrir nokkrum dögum, að hann teldi að sá yfirgangur, sem bretar höfðu þá sýnt, væri á þann einn hátt svara verður að um stjórnmálaslit yrði að ræða og það tafarlaust.

Hæstv. dómsmrh. lét þess getið hér á þingi fyrir nokkru að hann hefði lagt fram í ríkisstj. till. sem lyti að því að efla landhelgisgæsluna, ef ég man rétt að skipakosti. Þegar það var síðast rætt hér hafði ekki verið tekin ákvörðun í því máli. Ég vil gjarnan spyrja hæstv. dómsmrh.: Hefur verið tekin ákvörðun í ríkisstj. um að efla landhelgisgæsluna annaðhvort að skipakosti eða flugvélakosti? Ef svo er ekki, hvað líður þá því máli og hver er ástæðan til þess eð slík ákvörðun hefur ekki verið tekin? Það er löngu orðið ljóst mál, að það er hægt að mjög miklu leyti með eflingu landhelgisgæslunnar að koma í veg fyrir veiðar breskra togara hér á miðunum þrátt fyrir vernd herskipanna.

Ég skal ekki hafa þessi orð fleiri, herra forseti. En ég vil undirstrika það sérstaklega að áframhaldandi hik af hálfu hæstv. ríkisstj. skaðar okkar málstað og því fyrr sem hæstv. ríkisstj. mannar sig upp í það að standa upprétt og svara síendurteknum ágangi og árásum breta á okkur í þessu máli, því betra. Ég held að það sé tími til þess kominn að bretum skiljist að það er vonlaust að beygja okkur með valdi undir ginandi fallbyssukjöftum til þess að ganga að því sem bretar krefjast. Þetta á að segja þeim skýrt og skorinort, ekki bara í orði, heldur og í aðgerðum, í gagnsvörum við því sem þeir hafa haft uppi við okkur.