09.02.1976
Sameinað þing: 48. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 1787 í B-deild Alþingistíðinda. (1469)

Yfirlýsing varðandi landhelgismálið

Utanrrh. (Einar Ágústsson):

Herra forseti. Þetta verða ekki nema örfá orð og sögð í tilefni af því, að mín hefur dálítið verið getið í fyrri ræðum um þetta mál. Og ég vil segja það strax, að ég tel að ekki verði hægt að komast hjá stjórnmálaslitum nema staðan gerbreytist frá því sem nú er.

Það er auðvitað gott í þessu máli eins og öðrum að hafa samráð við þingflokkana og utanrmn., og verður það gert vafalaust í dag fyrst tóm gefst til. En ástæður til þess, að stjórnmálaslit hafa enn ekki farið fram, eru þær sem hæstv. forsrh. greindi frá. Ég sá ekki ástæðu til annars en gefa þessum mönnum nokkurt tóm, til þess að vita hvort eitthvað kæmi út úr því sem þeir eru að gera.

Ég vil að það komi fram, að þegar ríkisstj. fjallaði um málið á föstudag hafði ásigling freigátunnar ekki átt sér stað og samþykktin um veiðar á friðuðu svæði, sem bresku skipstjórarnir gerðu, hafði ekki heldur komið fram. En herskipin voru komin og því ástæða til stjórnmálaslita ef ekki hefði annað komið til. Því endurtek ég það sem ég sagði í upphafi, að ekki sé hægt að komast hjá stjórnmálaslitum nema staðan gerbreytist.

Þeir hv. þm., sem hér hafa talað, hafa allir verið á einu máli um að stjórnmálaslitin ættu að fara fram hið fyrsta. Það er þeirra skoðun, og ég hef ekki neitt við það athuga þó að þeir lýsi henni og komi henni á framfæri.

En út af því, sem hv. þm. Benedikt Gröndal sagði áðan og lýsti svo skemmtilega og skáldlega, að Sigurður Bjarnason, nýskipaður sendiherra í London, mundi fara þangað með þeim hætti sem hann tiltók, þá vil ég segja það, að það verður ekki. Og ég hef t. d. þegar lýst því í dagblaðinu Vísi, sem talaði við mig kl. um hálfníu í morgun, að Sigurður Bjarnason mundi ekki fara til London fyrst um sinn. Ég vona því, að áhyggjur hv. þm. af þessu sjónarspili, sem hann talaði um, geti fallið niður, a. m. k. um stundarsakir.

Hv. þm. Karvel Pálmason sagði að við hefðum tekið við herskipunum án nokkurra viðbragða og við hefðum tekið við ásiglingu varðskipsins, að því er mér skildist, eins og þræll sem bara hneigir sig þegar hann er barinn. En Týr tók ekki svona við ásiglingunni. Hann hefur sjálfsagt brugðist við eins og frjálsborinn maður, því að hann klippti aftan úr þremur togurum rétt á eftir að siglt var á hann.

Hv. 5. þm. Norðurl. e. talaði um að við ættum enga vini í Atlantshafsbandalaginu, að því er mér skildist. En ég vil minna á það sem dæmi, að á föstudag lýsti utanrrh. Noregs því yfir í fyrsta skipti að Noregur styddi Ísland heils hugar í landhelgisdeilunni við breta. Þarna eigum við þó a. m. k. einn vin, og þeir kunna að vera fleiri. Ég sagði það, það var alveg rétt eftir haft af hv. þm., að ég teldi að veiðar breta á friðaða svæðinu sýndu lítinn samkomulagsvilja. Honum fannst þetta mjög fáránleg yfirlýsing. Ja, það verður að hafa það. Þetta sagði ég, þetta finnst mér og þetta meina ég. Við erum nýbúnir að samþykkja hér, að vísu gegn nokkrum atkv., að leita samninga til þriggja mánaða og gefa bresku ríkisstj. það til kynna. Viðbrögð bretanna eru þau sem hv. þm. lýsti. Mér fannst það á laugardaginn og finnst það enn lýsa litlum samkomulagsvilja, lýsa litlum vilja til þess að gera eitthvað sem gæti slegið þessari deilu á frest og jafnvel orðið til lausnar á henni.

Það er talið og ég hef um það nýjar upplýsingar, að Hafréttarráðstefnunni ljúki í júlí í sumar, það verði ekki unnt að ljúka henni á því tímabili sem ráðgert er að halda næsta fund, þ. e. a. s. mars til maí, heldur verði einn fundur enn og hann hefjist 15. júlí og standi allar vonir til þess að Hafréttarráðstefnan ljúki störfum á þeim fundi. Mér finnst sjálfsagt fyrir okkur að reyna sem mest að komast hjá illindum og ófriði þann tiltölulega skamma tíma sem eftir er þangað til Hafréttarráðstefnan lýkur störfum, vonandi á þann veg sem okkur er hagkvæmur. Það má vera að þetta lýsi lítilli bardagagleði. En fyrir mér hefur ófriðurinn aldrei verið neitt takmark, heldur ill nauðsyn sem við verðum að þola ef annað bregst.

Ég er enginn maður til þess að keppa við hv. 5. þm. Norðurl. e. um stóryrði og tilvitnanir í sögur sem hann telur hæfa þessu viðfangsefni. Þess vegna ætla ég ekkert að fara út í það. En ég vil leyfa mér að benda honum á það, að bretar halda áfram að veiða smáfiskinn líka þó að við slítum stjórnmálasambandinu. Ég geri ekki ráð fyrir því að stjórnmálaslit hafi svo djúpstæð áhrif á breta að þeir gefist upp og hætti að veiða. Það hygg ég alls ekki.

Ég vil líka segja það, að ef til einhverra samninga kemur við breta til skamms tíma, sem ég hef sagt áður og segi enn að mér finnst harla ósennilegt eftir þá atburði og framkomu breta sem við höfum horft upp á, þá verða þeir bornir undir rétta aðila áður en þeir verða gerðir. Þeir verða bornir undir Alþ., það er enginn vafi á því, þannig að hv. 5. þm. Norðurl. e. þarf ekki að óttast að það verði gerður samningur sem hann fær þó a. m. k. ekki tækifæri til að mótmæla. Ég skil ekki hvað hann á við þegar hann segir að samningarnir við þjóðverja í nóv. s. l. hafi verið þvingaðir upp á þjóðina með fláræði. Ég skil það ekki. Það var farið fullkomlega eðlilega með samningana við þjóðverja. Þeir voru ræddir í flokkunum, þeir voru ræddir á Alþ., það voru greidd um þá hér atkv. og þeir hlutu stuðning mikils meiri hl. þm. Ég vil því leyfa mér að mótmæla því. að um fláræði hafi verið að tefla.

Hv. þm. talaði mikið um bað, að við ættum að nota varnarstöðina, Keflavík, til þess að ná fram hagstæðum kjörum í landhelgismálinu, og hann er ekki einn um þetta. Það er fjöldi manns sem hugsar á þessa leið. En þegar vinstri stjórnin var að berjast fyrir 50 mílna landhelgi var þetta tæki aldrei notað, og ég hygg að það megi finna yfirlýsingar frá æðimörgum ráðh. í þeirri stjórn um það sem útilokaðan möguleika að versla með landhelgina á einn eða annan hátt. Ég a. m. k. tel mig muna þessi ummæli og ég tel þau alveg rétt. Ef við teljum að það sé eitthvert gagn í því að hafa hér varnarstöð fyrir okkur sjálfa, þá er það mál út af fyrir sig. 200 mílna efnahagslögsöguna eða fiskveiðilögsöguna vinnum við og það fyrr en síðar án þess að þurfa að skipta á henni og einhverju öðru. Við þurfum m. ö. o. ekki að versla með þetta mál, og það hafa margir ágætir menn staðfest.

Ég hygg að ég sé með þessu búinn að svara fsp. hv. 5. þm. Vestf. og hv. 5. þm. Norðurl. e. um það, að ég tel að stjórnmálaslit verði að fara fram nema — eins og ég orðaði það — staðan gerbreytist frá því sem nú er.