10.02.1976
Sameinað þing: 49. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 1802 í B-deild Alþingistíðinda. (1478)

50. mál, framkvæmd á lögum um ráðstafanir í sjávarútvegi

Fyrirspyrjandi (Lúðvík Jósepsson):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. ráðh. fyrir svör hans og einnig fyrir þær undirtektir að vilja dreifa til þm. þessu skriflega svari, sem er þannig að það er erfitt fyrir menn að átta sig á því nema þeir fái það beint í hendur.

En hæstv. ráðh. minntist ekki á það, hvort hann treysti sér til að verða við þeirri beiðni minni að gefa upp nöfn þeirra fyrirtækja og aðila sem hafa notið styrkja og lána samkv. þessum reglum. Ég tel að það sé sjálfsagt að verða við þessum tilmælum, og það er hliðstætt við það sem hefur verið gert áður. Í rauninni tel ég ekki frambærilegt, þegar ákveðið er samkv. tilteknum lögum að heimilt sé að veita einstökum aðilum styrki, að þá séu ekki veittar upplýsingar um hverjir það eru og hvað mikið hver og einn hefur fengið.

Varðandi greiðslur til þeirra útgerðaraðila sem skulduðu erlendis við gengisfellingarnar, þá er ekki bein þörf á því að mínum dómi að gefa sérstaklega upp nöfn þeirra, þó að það væri að sjálfsögðu auðvelt, vegna þess að þar eru fastar reglur sem farið er eftir og hliðstætt því sem áður hefur verið gert. Þar sem hins vegar var um að ræða að rn. var heimilað að veita sem bráðabirgðalán til einstakra aðila tvisvar sinnum 400 millj. kr. og lán voru þar veitt ýmist af Fiskveiðasjóði, Byggðasjóði eða eftir reglum sem Seðlabankinn, Landsbankinn og Útvegsbankinn settu, mjög flóknum reglum, þá tel ég að það sé eðlilegt og réttmætt að birta nákvæmlega hvaða aðilar fengu þessi lán og hvað mikið hver og einn fékk.

Ég skal svo ekki ræða frekar um þessi mál hér, en vil vænta þess að hæstv. ráðh. verði við óskum mínum og dreifi hinu skriflega svari sínu til þm.