10.02.1976
Sameinað þing: 49. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 1804 í B-deild Alþingistíðinda. (1482)

50. mál, framkvæmd á lögum um ráðstafanir í sjávarútvegi

Sjútvrh. (Matthías Bjarnason) :

Það er meira en guðvelkomið að veita hv. þm. upplýsingar um úthlutun á þessum 50 millj. þegar hún hefur farið fram. Fyrr er ekki hægt að veita honum upplýsingarnar.

En í sambandi við hitt málið, þá er alls ekki hægt fyrir sjútvrn. að gefa upplýsingar um hvernig bankarnir lána, því að ef við hefðum ekki notað þessa heimild, þá kom hún engum að gagni. Ég hefði aldrei notað hana upp á það að eiga að innheimta á tveimur árum þessa upphæð hjá útgerðarfyrirtækjum eða fyrirtækjum í sjávarútvegi. Ég hefði alls ekki treyst mér til þess að hafa öryggi fyrir því að fá þessa peninga inn á þeim stutta tíma og þá hefði ekki verið staðið við þau lög sem Alþ. setti. Þá hefði verið hægt að segja eitthvað við mig. En ég get ekki gefið upplýsingar um það sem ég hef ekki í höndum. Þessar upplýsingar liggja fyrir, þessum peningum hefur verið ráðstafað með þessum hætti, þetta er aðeins fé sem hefur verið lánað í örstuttan tíma og á að fara í annað samkv. lögum. Þetta er gert með samþykki ríkisstj. að hafa þennan hátt á. Þetta vona ég að hv. fyrirspyrjandi skilji.