10.02.1976
Sameinað þing: 49. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 1805 í B-deild Alþingistíðinda. (1484)

50. mál, framkvæmd á lögum um ráðstafanir í sjávarútvegi

Sverrir Hermannsson:

Herra forseti. Hv. 4. þm. Austurl. gerði grein fyrir tildrögum þess að Byggðasjóður hafði með höndum ráðstöfun á verulegum hluta þess fjármagns sem varið var til skuldbreytinga í sjávarútvegi. Það kom í ljós að sú skuldbreytinganefnd, sem bankar og Seðlabanki settu á stofn, setti sér það strangar reglur að einvörðungu eftir þeim aðferðum var skuldbreytt um 320 millj. kr., þar sem bankarnir sjálfir töldu sig ekki hafa tök á eða beinlínis leyfi til að veita það sem kalla mætti áhættulán. Því var það að tekin var ákvörðun um að Byggðasjóður skyldi hafa afgreiðslu þessara 300 millj. kr. með höndum. Hún fór þannig fram. Og það er sjálfsagt að menn fái upplýsingar um hvert eitt lán sem afgreitt var þaðan, að bankarnir, sem höfðu haft með höndum rannsókn á stöðu allra fyrirtækja, sem til greina komu í þessu sambandi, skiluðu inn listum til Byggðasjóðs með þeim fyrirtækjum og till. um hvað háa fjárhæð skyldi veita til hvers og eins. Þetta var síðan afgreitt af Byggðasjóði með þessum hætti, að allar fjárhæðirnar varðandi hvert og eitt fyrirtæki voru greiddar beint til viðkomandi viðskiptabanka, þ. e. a. s. Landsbanka og Útvegsbanka, sem alfarið hafa með rekstur sjávarútvegsfyrirtækja að gera, auk eins láns sem fór til Búnaðarbanka Íslands á Sauðárkróki. En það er alveg ljóst, að hver og einn getur fengið upplýsingar um nöfn allra þeirra fyrirtækja, svo og fjárhæðir, sem afgreidd voru með þessum hætti í Byggðasjóði.