10.02.1976
Sameinað þing: 49. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 1807 í B-deild Alþingistíðinda. (1486)

305. mál, ráðgjafarþjónusta

Sjútvrh. (Matthías Bjarnason):

Herra forseti. Þessi löggjöf var sett á síðasta Alþ., og um 1. kafla þeirrar löggjafar, sem fjallar um ráðgjöf og færslu varðandi kynlíf og barneignir, verður að hafa náið samstarf á milli menntmrn. og heilbrrn. hvað þessu viðvíkur. Hér er um ákaflega vandasamt mál að ræða sem hvílir auðvitað fyrst og fremst á menntmrn. Er talið að það muni taka alllangan tíma þar til hægt verður að taka upp þá framkvæmd sem þessi kafli laganna gerir ráð fyrir. Ég held að það sé óhætt að segja, menntmrh. leiðréttir mig þá, að það verði ekki hægt að taka þennan kafla laganna til framkvæmda á þessu ári. Þetta er, eins og ég sagði, til athugunar og undirbúnings í menntmrn. og verður haft fullt samráð við heilbrrn. hvað þetta snertir.

Ég vænti að hv. fyrirspyrjandi hafi fengið svar við fsp. sinni, en meira er ekki hægt að svara eða lofa á þessari stundu.