10.02.1976
Sameinað þing: 49. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 1811 í B-deild Alþingistíðinda. (1491)

77. mál, jöfnun símgjalda

Fyrirspyrjandi (Helgi F. Seljan):

Herra forseti. Ég vil þakka hæstv. samgrh. svörin og sömuleiðis það hvað áunnist hefur þó, að því er hann upplýsti áðan með gjaldskrárbreytingunni í ársbyrjun 1975. Ég vissi af þeirri breytingu. Miðað við það, sem ég upplýsti áðan frá norðlendingum, þá sýnir þetta aðeins hve hróplegt þetta hefur verið áður, fyrst ástandið er svona enn í dag þrátt fyrir þá leiðréttingu sem á þessu fékkst og ber vitanlega að meta og þakka.

Það er auðvitað margt fleira sem kemur hér inn í þessu sambandi og hv. síðasti ræðumaður minnti réttilega á. Þjónustan í sveitunum er auðvitað fyrir neðan allar hellur enn þá víðast hvar eða nær alls staðar, og það er margt fleira sem kemur hér inn í. Sambandið við Reykjavík, þegar loksins er búið að ná til Reykjavíkur, er oft hraklegt svo að ekki sé meira sagt, fyrir utan það hvað langan tíma tekur oft að ná á þetta miðstöðvarsvæði. Það getur oft þurft í raun og veru mann til þess að standa vakt við símann tímunum saman hjá einstöku fyrirtæki, svo að dæmi sé tekið, til þess að ná hingað suður. Maður er hreinlega bundinn í því. Ég fagna því ef hæstv. ráðh. ætlar að halda áfram á sömu braut og hann hóf átak í ársbyrjun 1975. Það væri mjög æskilegt, svo að ekki sé meira sagt.

Við fyrirspyrjendur leggjum á það aðaláherslu, að þetta er sú tegund þjónustu í þágu mannlegra samskipta sem fólk getur nú orðið síst án verið og þar sem mestur jöfnuður á í raun og veru að ríkja. Ég vil benda á það, að till. okkar, ef hún væri framkvæmd nokkurn veginn undanbragðalaust, var alls ekki um fullkominn jöfnuð. Við tókum tillit til margumræddra erfiðra aðstæðna, aukins álags, sem okkur var bent á að línulagnir í dag þyldu ekki. Okkur var bent á það t. d. af ágætum sérfræðingum að menn yrðu svo gráðugir í að hringja, ef það kostaði lítið úti á landsbyggðinni, að allar línur mundu bresta. Við lítum á erfiðan fjárhag, sem virðist jafnvel enn erfiðari nú en þá eftir upplýsingum frá póst- og símamálastjóra a. m. k. Tæknivandinn í þessu var sem sagt hugleiddur og við fórum aðeins fram á áfangalagfæringu í átt til jafnaðar. Því verð ég nú að segja, að ég held að við allir nm. höfum reiknað með því að þarna yrði meira aðhafst en þó hefur verið gert.

Ég veit fullvel að stofnunin sem slík er ekki sérstaklega hrifin af þessum jöfnuði í sjálfu sér, og ég hef heyrt það frá þeim ágætu mönnum að hér eigi að ríkja sama lögmál og um annað sem er dýrara úti á landsbyggðinni. Ég veit hins vegar eða þykist vita, og á þar sérstaklega við orð hæstv. ráðh. áðan, að hann er ekki á þessari skoðun forstöðumanna þessarar stofnunar. Ég vil því ítreka óskir mínar til hans, að hann geri hér á verulega bragarbót og það verði ekki látið við það eitt sitja, þá breytingu sem var gerð í ársbyrjun 1975, heldur verði nú aðhafst sem fyrst eitthvað í þá átt að þál. sjálf verði nokkurn veginn fullefnd.