10.02.1976
Sameinað þing: 49. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 1813 í B-deild Alþingistíðinda. (1493)

77. mál, jöfnun símgjalda

Landbrh. (Halldór E. Sigurðsson):

Herra forseti. Ég þarf að vísu ekki miklu að bæta við það sem ég sagði áðan, þar sem þeir hv. alþm., sem hér hafa talað, hafa í raun og veru staðfest það sem ég hef sagt, að það sé margþætt verkefni sem við þurfum að vinna í þessu. Við þurfum að tryggja betur það sjálfvirka kerfi, sem komið er, til þess að ná á milli staða. Við þurfum að dreifa því meira en orðið er. Mikið af gömlu línunum er orðið þannig, að það er orðinn hinn mesti vandi að nota þær og óöryggi afar mikið. Hitt vil ég svo endurtaka og vekja athygli á, að það er ekki fyrirstaðan við að breyta þessu sem gerir að verkum að seint gengur, heldur fjármagnið sem þarf til þess.

Eins og ég tók fram áðan hefur raunverulega ekki orðið nema ein breyting á gjaldskrá síðan ég kom í þetta starf, því að sú litla breyting, sem fékkst í sumar, var langt fyrir neðan það sem beinar launahækkanir voru við stofnunina, og ekkert að öðru leyti.

Þessi stofnun hefur byggt sitt kerfi upp sjálf og gerir enn. Hún hefur hins vegar fengið miklu minni hækkanir á sínum þjónustugjöldum en gerst hefur bæði um aðrar stofnanir og kaupgjaldstaxtar hafa hækkað á svipuðum tíma. Þetta held ég að ég hafi upplýst hér í fyrravetur, miðað þá við 1960, en ég gæti að sjálfsögðu látið hv. þm. þetta í té.

Ég vil svo bara endurtaka það, að ég tel brýna nauðsyn að halda áfram á þessari braut við að jafna þessi gjöld og halda áfram með uppbyggingu sjálfvirka kerfisins úti um landið. Hinu verða hv. þm. sem aðrir að gera sér grein fyrir, að þetta þýðir hærri meðalgjöld hjá okkur íslendingum og hærri meðaltaxta á iðgjöldum, eins og t. d. á sér stað í Noregi sem er kominn einna lengst í þessa átt. En þar eru líka taxtar langtum hærri en hér gerist. Þetta fer saman.