10.02.1976
Sameinað þing: 49. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 1814 í B-deild Alþingistíðinda. (1495)

77. mál, jöfnun símgjalda

Landbrh. (Halldór E. Sigurðsson) :

Herra forseti. Ég skal nú ekki fara að þreyta neinar kappræður hér um. En ég veit að hv. 12. þm. Reykv. er svo vel að sér í viðskiptum að hann áttar sig vel á því, að það er ekki hægt annað, ef á að rétta einum, þá er það að taka það af öðrum, og þá kemur alltaf spurningin um matið á því hversu réttmætt það er. Að minni hyggju er það ekki réttmætt að ég geti talað svo og svo oft í síma hér við hann t. d. eða einhvern annan ágætan mann án þess að þar komi nein teljaraskref til en ef ég aftur fer upp í Borgarnes og tala þar við nágranna minn, þá komi þessi teljaraskref eða annað því um líkt. Þetta held ég að við munum verða sammála um þegar við erum búnir að gera okkur grein fyrir þessu. Það er í raun og veru, þetta sem um er að ræða. Hitt er svo ekki nema eðlilegt, að þjónusta eins og þarna er látin í té kostar sitt, og báðir munum við líka vera sammála um það, að slíkar stofnanir verða að bera sig.