10.02.1976
Sameinað þing: 49. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 1814 í B-deild Alþingistíðinda. (1496)

77. mál, jöfnun símgjalda

Karvel Pálmason:

Herra forseti. Hér er til umr. aðeins eitt af þeim mörgu stóru og erfiðu málum sem þjakað hafa og íþyngt landsbyggðarfólki um áraraðir. Ég vil strax taka það fram, að ég þakka hæstv. samgrh. fyrir þá örlitlu breyt. í réttari átt sem gerð var á árinu 1975. Það var vissulega í rétta átt þó að litið væri, en í engu samræmi við það sem upphafleg þáltill., sem hér var samþ. 1974, gerði ráð fyrir og allir voru sammála um. Ég vil því taka sérstaklega undir það, sem hér hefur komið fram hjá þeim ræðumönnum, sem hafa ítrekað það við hæstv. ráðh. og ríkisstj. í heild að þáltill. verði framfylgt í því formi sem hún var samþ. og til var ætlast.

Það hefur margoft verið bent á það og ekki bara í þessu sambandi, að það fólk, sem býr úti á landi í hinum dreifðu byggðum, þarf á ótalmörgum sviðum að borga miklu, miklu meira í ýmissi þjónustu og kostnaði heldur en hér á þéttbýlissvæðinu. Þetta er öllum ljóst og á þessu þarf að verða breyting. Ég er þeirrar skoðunar að í og með og kannske fyrst og fremst sé sú tregða, sem hefur verið á að gera leiðréttingu, sé tregða í kerfinu sjálfu sem þurfi að uppræta. (Grípið fram í). Ég held, ráðh., að hún sé ekki bara fjármálalegs eðlis. Ég þykist vita það af reynslu í viðtali við forsvarsmenn þessarar stofnunar og ýmissa aðra, að það er tregða í kerfinu sem þarf að koma í veg fyrir að haldi áfram eins og verið hefur.

Ég vil aðeins að lokum, herra forseti, vekja athygli dreifbýlisþm. hér á hv. Alþ. á þeim ummælum hv. 12 þm. Reykv. sem hann hafði hér áðan: Þetta er mjög hættuleg stefna, að jafna aðstöðumun með þessum hætti. Það er mjög hættuleg stefna að leiðrétta það herfilega ranglæti sem dreifbýlisfólk úti á landi hefur verið beitt á undanförnum árum og áratugum í þessu svo og mörgu öðru. Það er hættulegt að gera það á þann hátt að þéttbýlissvæðin þurfi að taka á sig einhverja ofurlítið aukna byrði frá því sem þau hafa haft og er hún þó ekki mikil. — Þessu ættu þm. dreifbýliskjördæma að velta fyrir sér, hvaða stefna kemur til með að ráða og ríkja ef þessi sjónarmið verða ofan á í stjórn landsins.