10.02.1976
Sameinað þing: 49. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 1815 í B-deild Alþingistíðinda. (1497)

77. mál, jöfnun símgjalda

Sigurlaug Bjarnadóttir:

Herra forseti. Það hefur nú ýmislegt verið sagt um þessa fsp. sem í rauninni leiðir í ljós, eins og alltaf þegar á góma ber aðstöðumun dreifbýlis og þéttbýlissvæðisins hér syðra, að hér er augljóslega þörf jöfnunaraðgerða. Ég get tekið undir það með samþm. mínum Karvel Pálmasyni, að viðhorf hv. 12. þm. Reykv. er sennilega í okkar augum jafnhættulegt og hann taldi hættulegt okkar viðhorf, að hér væri jöfnunar þörf. Mér fannst mjög athyglisvert dæmi sem hv. þm. Páll Pétursson tók, þar sem hann staðhæfði að hann mætti hreinlega ekki láta brenna hjá sér eða verða veikur á vissum tímum sólahringsins þegar allar bjargir væru bannaðar um að komast í símasamband. Þetta segir stóra sögu þótt stutt væri frá greint. Það er þetta öryggisleysi og sambandsleysi dreifðra byggða, sem ekki njóta fullnægjandi símaþjónustu, sem er mjög hættulegt atriði og ekki viðunandi fyrir fólk úti á landsbyggðinni.

Ég tek undir það með hæstv. samgrh., að þetta er auðvitað fyrst og fremst fjárhagsatriði. En það mun ekki einungis vera fjárhagsatriði. Það er um leið tregða og skilningsleysi í kerfinu á þeim þörfum sem þarna er um að ræða fyrir dreifbýlisfólkið, og ég hefði nú haldið að hv. 12. þm. Reykv. sem athafnamaður í viðskiptalífinu ætti að geta tekið til greina tölur sem ég get ekki borið brigður á og komu fram í framsögu fyrirspyrjanda um að maður á Akureyri, sem þarf að hafa samband við fyrirtæki í Reykjavík svo og svo oft — ég man nú ekki hve oft það var, hann þurfti á ári að borga 274 þús. kr. fyrir þjónustuna á meðan maður í Rvík þurfti að borga 10 þús. fyrir sömu þjónustu.

Ég vil aðeins segja það, úr því að minn tími er búinn, að sé þolinmæði þéttbýlisbúa og reykvíkinga hér á þrotum í þessum efnum, þá sé ég ekki annað ráð vænna fyrir þá en að flytjast út á landsbyggðina og sjá til hvað það er miklu betra og ódýrara og hagkvæmara á allan hátt að búa þar.