10.02.1976
Sameinað þing: 49. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 1816 í B-deild Alþingistíðinda. (1498)

77. mál, jöfnun símgjalda

Albert Guðmundsson:

Herra forseti. Öðruvísi mér áður brá þegar ég þurfti að hlusta á hv. þm. Sigurlaugu Bjarnadóttur í borgarstjórn. Ég veit ekki til að hún hafi flutt út á landsbyggðina þó að hún hafi sótt þangað stuðning til að sitja hér á Alþ. í staðinn fyrir borgarstjórn, og ég ætla ekki að fara karpa neitt um það. Hitt er annað mál, að ég vil ítreka, að það er hættuleg stefna sem hér á sér stað, og ég vil ítreka það líka, að það þarf að finna aðrar leiðir en að höggva alltaf í sama knérunninn og bæta kostnaði við reykvíkinga og þéttbýlissvæðin hér. Það er tvímælalaust skortur á hugmyndaflugi hjá utanbæjarþm. almennt að koma aldrei með aðrar hugmyndir en þessa einu þegar þarf að jafna gjöldum úti á landi og svo aftur við þá sem búa á þéttbýliskjarnanum hér. Komið með nýjar hugmyndir, og ég er ekki í nokkrum vafa um að bæði ég og aðrir þm. þess þéttbýliskjarna, sem hér er, munu standa að þeim með ykkur. En við verðum líka að standa vörð um hagsmuni okkar umbjóðenda hér á Suðurlandsundirlendinu.

Ég skal ekki segja um það hvort það eru meiri hættur við að búa úti á landi heldur en að búa í borg. Það skal ég ekki segja um. Það eru aðrar hættur. Það er öðruvísi líf. Og ég byggi úti á landi ef ég ætlaði mér að gera það. Það er hverjum frjálst að búa þar sem hann vill. En það bara liggur ekki fyrir mér að búa annars staðar en þar sem athafnir og líf og læti eru, að segja má. Það er minn „karakter“. En það segir sig sjálft, að ef borgað er 10 sinnum meira gjald fyrir símaþjónustu þegar akureyringar hringja til Reykjavíkur heldur en þegar reykvíkingar hringja til Akureyrar, þá er sjálfsagt að finna einhverja leið til að bæta úr því og þá skal ég gefa samþm. mínum kennslustund í viðskiptum.