27.10.1975
Neðri deild: 10. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 201 í B-deild Alþingistíðinda. (150)

8. mál, námsgagnastofnun

Karvel Pálmason:

Herra forseti. Ég skal ekki lengja þessar umræður mikið. Það fer líklega fyrir mér eins og hinum hv. óbreyttum þm., eins og menn segja nú, sem hér hafa komið upp, að ég verð kannske ekki eingöngu á því sviði þess frv. sem hér er nú til umr. En ég vil taka undir það, sem hér hefur komið fram, og þó að það sé heldur hvimleitt að óska eftir því að ein n. enn taki til starfa, eins og hv. þm. Jónas Árnason var að víkja að, þá held ég nú samt að það gæti verið fróðlegt að fá eina n. til viðbótar til þess að ganga úr skugga um það hversu miklu betri árangur næst nú með hinni fjölbreyttu kennslutækni heldur en áður var.

En það, sem ég vildi aðeins koma hér á framfæri, var í sambandi við verknámið. Mér hefur fundist að það vantaði ískyggilega inn í námskerfið kennslugögn í sambandi við verknám. Ég taldi mig verða áþreifanlega varan við þetta þau 9 ár sem ég fékkst við verklega kennslu á barna- og gagnfræðaskólastigi, að það var naumast um neitt að ræða í námsefni sem hægt var að leggja fyrir og kom frá ríkiskerfinu. Menn hafa verið og eru, að ég hygg, enn þannig settir að þeir verða hver um sig að vinna upp þessi verkefni fyrir nemendur. Ég hygg því að árum saman hafi hið verklega nám verið stórkostlega sett hjá í sambandi við þetta. Og ég vil beina því til þeirrar hv. n., sem málið fær til umfjöllunar, að athuga vel hvort ekki sé ástæða til þess að setja inn í frv. sérstaklega ákvæði varðandi verknámið. Allir eru orðnir um það sammála nú að það beri að leggja aukna áherslu á verknámskennslu, meiri en verið hefur, og er því sérstök ástæða til að gefa þessu frekari gaum en gert hefur verið. Það eru ábyggilega fleiri en ég, sem hafa fengist við þessi mál í verklegri kennslu, sem hafa orðið þess áskynja að hún hefur orðið stórkostlega út undan varðandi þessi efni. Það er því full ástæða til að vekja á því athygli að það verði nú breytt um og a. m. k. verknámskennslan sitji við svipað borð og bóknámskennslan hefur gert á undanförnum árum eða áratugum. Hún hefur orðið afskipt og það er tími til kominn að breyta því, þannig að hún sitji við sama borð. Og ég vil vekja sérstaka athygli á því, að sú hv. n., sem málið fær til skoðunar, gefi þessu atriði sérstaklega gaum.