27.10.1975
Neðri deild: 10. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 202 í B-deild Alþingistíðinda. (151)

8. mál, námsgagnastofnun

Menntmrh. (Vilhjálmur Hjálmarsson):

Herra forseti. Út af þessum ábendingum hv. 5. þm. Vestf. vil ég taka fram að Ríkisútgáfu námsbóka ber að sjálfsögðu að afla námsbóka, gefa út námsbækur jafnt á verklegu og bóklegu sviði fyrir það skólastig sem hún nær til. Hitt er dagsanna hjá hv. þm., að í iðnskólunum hefur kennslubókamálið verið töluvert vandamál. Rekin hefur verið útgáfa, svokölluð iðnskólaútgáfa, sem hefur verið haldið uppi af lauslegum samtökum nokkurra áhugasamra kennara og hefur hjálpað mjög til á þessu sviði. Hins vegar eru þeir og ráðuneytið á einu máli um að sú hjálp, sem þannig hefur verið í té látin þó allsendis ófullnægjandi. Og ég vil láta það koma fram að þessi þáttur hefur verið ræddur m. a. á milli iðnskólakennara og menntmrn., og þá hefur m. a. komið til tals að ef til vill hentaði það að Ríkisútgáfa námsbóka tæki einnig þennan þátt að sér til þess að nýta ýmsa stjórnunaraðstöðu og aðra aðstöðu sem það fyrirtæki kemur til með að hafa yfir að ráða. Ekkert endanlegt hefur verið gert í þessu og það mun ekki hafa verið enn þá a. m. k. skipuð n. í það, en væri kannske ekki minni ástæða til heldur en um ýmsar aðrar af þessum frægu nefndarskipunum ríkisins og þá sérstaklega okkar í menntmrn., sem eigum þar met.