11.02.1976
Neðri deild: 54. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 1834 í B-deild Alþingistíðinda. (1516)

148. mál, útflutningsgjald af sjávarafurðum

Frsm. minni hl. (Sighvatur Björgvinsson):

Virðulegi forseti. Eins og margoft hefur verið tekið fram í umr. um þetta mál er meginatriði þess tvíþætt. Annars vegar er um það að ræða, að Olíusjóður fiskiskipa er lagður niður. Hins vegar er um það að ræða að framlög til Tryggingasjóðs fiskiskipa eru lækkuð um um það bil helming. Þetta hefur svo aftur þær afleiðingar að útflutningsgjöld af sjávarafurðum lækka mjög verulega. Þessari meginstefnu frv. er ég sammála, ekki hvað síst að því er varðar að fella niður hinn margumrædda Olíusjóð. Ég tel að það sé tímabært að gera það og hafi raunar fyrir löngu verið orðið, og þarf ekki að lýsa því í mörgum orðum, að við Alþfl.-menn höfum áður lagt til á Alþ. að slíkt yrði gert. Það mun hafa verið um áramótin 1973–1974, nánar tiltekið í janúarmánuði að ég hygg árið 1974, sem stofnað var til þessa kerfis með stofnun Olíusjóðs fiskiskipa af þáv. sjútvrh. Lúðvík Jósepssyni. Þessi ákvörðun var rökstudd með því, að hinn nýi togarafloti landsmanna gæti þá ekki staðið undir verðhækkunum á brennsluolíu. Hins vegar leit út fyrir á þessum tíma að afkoman, fyrst og fremst hjá loðnuveiðibátunum og einnig hjá hluta þorskveiðiflotans, yrði það góð að þessir þættir veiðanna gætu tekið á sig verulegt álag til myndunar sjóðs til að greiða niður olíuverð. Hins vegar mun hafa komið í ljós að svo var ekki. Þetta álag var auk þess byggt á hlutfallslegri greiðslu af brúttóafla og hlaut því að koma mjög misjafnlega niður eftir aflamagni og verðmætasköpun hvers úthalds.

Það má sem sé segja að í janúarmánuði 1974 hafi verið lagður grundvöllur að þeirri feikilegu öfugþróun í sjávarútveginum sem hið risavaxna millifærslubákn er orðið og allir flokkar þingsins hafa heitstrengt að yrði lagt niður og nú er verið að stiga fyrstu sporin að. Og vissulega eru það merkileg og ánægjuleg spor.

Ég hef flett upp í umræðum frá þessu tímabili og rakst þar á þá athyglisverðu staðreynd, að í umr. um málið urðu þm. Alþfl. einir til þess að benda á hve hættuleg stefna þetta væri og vara við afleiðingum af henni. Á þau varnarorð var þó ekki hlustað, hvorki af þáv, né núv. ríkisstj., heldur þess í stað hlaðinn steinn við stein uns millifærslukerfið var orðið það bákn sem við þekkjum nú. Áhrifum þess þarf ekki að lýsa. Það hefur verið þrándur í götu þess hjá mönnum í útvetti að þeir reyndu að spjara sig með eðlilegum hætti og sína þá forsjálni og það aðhald sem til þarf að sinna slíkum rekstri.

Um frv. þetta er það að segja, að það er flutt í framhaldi af víðtækri endurskoðun á sjóðakerfi sjávarútvegsins sem n. skipuð af hæstv. sjútvrh. hefur annast. Frv. er byggt á till. þessarar n. og er tvímælalaust mikilvægt spor í rétta átt. Alþfl. hefur frá upphafi verið andvígur millfærslukerfinu í útveginum og er eðlilega fylgjandi afnámi þessa ranga millifærslukerfis með þeim hætti sem hér er lagt til. en hefði þó kosið að ganga nokkru lengra í vissum atriðum en ráð er fyrir gert í frv. Ég ætla þó ekki að tefja tíma hv. dm. með því að fara nánar út í þá sálma. Nokkuð af því hefur komið fram hjá hv. þm. Jóni Skattasyni sem talaði áðan.

Hins vegar lítum við Alþfl.-menn svo á, að frv. þetta byggist á samkomulagi hagsmunaaðila í sjávarútvegi, þ. e. a. s. sjómanna og útvegsmanna, og sé þáttur í lausn kjaramála- og fiskverðsákvörðunar, enda hefur mjög þung áhersla verið á það lögð af báðum þessum hagsmunaaðilum, bæði útvegsmönnum og sjómönnum, að Alþ. afgreiddi þetta frv. sem allra fyrst og efnislega óbreytt. Af þeim ástæðum mun Alþfl. fylgja þessu máli og greiða atkv. með því, jafnvel þó að hann hefði kosið að ýmislegt væri þar frekar gert en gert er.