11.02.1976
Neðri deild: 54. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 1847 í B-deild Alþingistíðinda. (1520)

148. mál, útflutningsgjald af sjávarafurðum

Eðvarð Sigurðsson:

Herra forseti. Það eru örfá orð um eitt atriði þessa frv. sem hv. síðasti ræðumaður taldi minni háttar, og ég get mjög vel fallist á að svo sé þegar allt málið er skoðað í heild. Það varðar 6. tölul. 4. gr. frv., en hann er þannig:

„Til samtaka sjómanna samkv. reglum, sem sjútvrn. setur, 0.4%.“

Í framsögu hæstv. sjútvrh. í gær kom fram að skipting þess gjalds, sem hér er um að ræða, yrði með þeim hætti að það rynni til Sjómannasambands Íslands, tveggja fjórðungssambanda innan Alþýðusambandsins, þ. e. a. s. fjórðungssambandanna á Vestfjörðum og Austurlandi, og til Farmanna- og fiskimannasambandsins. Hér er gerð á allveruleg breyting, því að áður, eins og raunar var fram tekið áðan, rann þetta gjald, sá hlutinn sem fór til Alþýðusambandsfélaganna, annars vegar til Sjómannasambandsins og hins vegar til Alþýðusambandsins. Nú verð ég að segja það, að ég hef aldrei verið neinn sérstakur talsmaður þess að samtökin afli sér rekstrarfjár með þessum hætti. En hér er um að ræða mál sem er staðreynd í dag. Fyrst var hér um að ræða Landssamband ísl. útvegsmanna einvörðungu sem fékk vissa prósentu af útflutningsgjöldunum um árabil, en síðan komu sjómannasamtökin og einnig samtök verkafólks í landi.

Ef nú er ætlunin að breyta þeirri innbyrðis skiptingu sem hefur verið á þessu gjaldi, þá vil ég lýsa því yfir að það er gert án samráðs við einn þann aðila sem hefur verið með í þessu áður, þ. e. a. s. Alþýðusamband Íslands. Og þar sem hér er um að ræða mát sem hefur verulega breytingu í för með sér á högum þessa aðila, þá tel ég að það sé mjög slæmt að gera það á þennan hátt. Ég gæti vel fallist á að ef hér væri einvörðungu um að ræða aflahlut úr sjó sem sé kominn að landi, þá ættu sjómennirnir einir um það að fjalla, þá væri það kannske þeirra mál. En hér er um að ræða hluta af útflutningsverðmæti, og það vita náttúrlega allir hv. þm. hvaða breytingar verða á hráefninu frá því að það kemur upp úr sjó og þangað til það er orðið útflutningsvara, og það er annað fólk sem kemur til starfa við þær framkvæmdir.

Ég ætla ekki að fara að orðlengja hér um þessi mál. En ég vildi að hæstv. ráðh. — sjútvrh. a. m. k. — gæfu svigrúm til þess að skipting þessa fjár verði rædd við þá aðila sem áður hafa notið þess, áður en rn. setur þær reglur um skiptingu þessa fjár sem lögin gera ráð fyrir að það setji. Ég held að hér gæti annars orðið um mjög alvarlegt tilfinningamál að ræða sem óséð er um hvaða afleiðingar hefði.